17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja að tveimur efnisatriðum í ræðu hv. 7. þm. Reykv. og leiða hjá mér dylgjurnar. Hann staðhæfði að heimildir hefðu ekki verið fyrir hendi. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir svo, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur kannað hvort heimildar hafi verið aflað hjá þáv. utanríkisráðherrum og kom fram að byggingarnefnd hafi haft heimild til að stofna til þessara útgjalda.“

Þetta er umsögn Ríkisendurskoðunar.

Varðandi samanburð á yfirstjórn þessara framkvæmda við önnur ráðuneyti og eðlilega ábendingu um það af hálfu hv. 7. þm. Reykv. að fagráðuneyti eins og heilbr.- og trmrn. geta ekki tekið ákvarðanir um útgjöld án heimilda. Það er alveg laukrétt. En í þessum lögum er sérstaklega tekið fram, lögunum um lántöku vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, að utanrrh. skuli fara með yfirstjórn byggingar flugstöðvarinnar og tengdra mannvirkja. Og í athugasemdum við þessa grein segir svo, með leyfi forseta:

„Samkvæmt lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, fer fjmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnun, með yfirstjórn opinberra framkvæmda en Innkaupastofnun ríkisins með yfirstjórn verklegra framkvæmda. Fram til þessa hefur vinna við undirbúning og hönnun flugstöðvarinnar verið í höndum utanrrh. sem notið hefur aðstoðar byggingarnefndar sem séð hefur um framkvæmd þess verks. Nú þegar komið er að hinni verklegu framkvæmd þykir best henta að yfirstjórn byggingarframkvæmdanna verði jafnframt í höndum utanrrh. Er því lagt til að ótvíræð heimild verði tekin í lög þar að lútandi.“

Með þessum lagaákvæðum er vikið til hliðar meginreglunni um að fjmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnun, fari með yfirstjórn opinberra framkvæmda. Það er ekki gert með neinni geðþóttaákvörðun heldur með lögum sem Alþingi setur að yfirstjórn framkvæmdarinnar að þessu leyti til er í höndum utanrrh. Hann verður auðvitað eins og aðrir ráðherrar að fara eftir þeim heimildum sem hverju sinni eru á fjárlögum eða lánsfjárlögum og leita þeirra heimilda. Það breytir ekki því að hann hefur umboð, eins og hér kemur fram, til að taka ákvarðanir um breytingar á verkinu, en verður jafnframt að leita síðan til Alþingis um lánsfjárheimildir í því skyni. Þetta held ég að okkur ætti öllum að vera ljóst og þyrfti í sjálfu sér ekki að deila um.

Ég tók skýrt fram að það er ekki umdeilanlegt að í þessu verki hafa átt sér stað sambærileg mistök við það sem mjög algengt er að eigi sér stað í opinberum framkvæmdum þegar verið er að gera breytingar og verðlag breytist án þess að áætlanir séu unnar upp þannig að heildarmyndin sé skýr. Af þessu eigum við að draga lærdóm. Af þessu eigum við að draga þann lærdóm að breyta skipulaginu þannig að við getum verið tryggari en verið hefur almennt varðandi þessar framkvæmdir, að þær séu í samræmi við það sem Alþingi ákveður og Alþingi fái jafnan bestu vitneskju um breytingar. En ég hef ekki séð af þeim gögnum sem hér liggja fyrir að fjárlagabeiðnir eða lánsfjárlagabeiðnir, sem fela í sér breytingar frá upphaflegum áætlunum, hafi í þessu verki borist Alþingi með öðrum hætti en gagnvart öðrum verkum.