17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér satt að segja hljóðs til að gera þessa stuttu athugasemd vegna þess að ég nenni ekki að láta menn eiga inni hjá mér svona lítilræði eins og þessa tilraun til skýringar, ef ég á að kalla það því jákvæða nafni, sem hæstv. forsrh. var með áðan.

Það er rétt sem hann las upp úr plagginu. Ég hef aldrei dregið það í efa. Heimilda var aflað hjá utanrrn. En utanrrn. hafði ekki heimild fyrir viðbótinni. Það er það sem ég hef verið að segja og það er það sem umræðan hefur gengið út á í allan dag. Þetta er númer eitt.

Númer tvö: Auðvitað veit ég að yfirstjórn byggingarframkvæmdanna var tekin frá Innkaupastofnun ríkisins og sett undir utanrrn. Það er rétt. En framkvæmdir við skólabyggingar, t.d. grunnskóla, eru undir framkvæmdadeild menntmrn. Engum dettur samt í hug að framkvæmdadeild menntmrn. eða menntmrh. sem húsbóndi hennar geti ákveðið að þenja út þann „sektor“ um 871 millj. kr. rétt si svona. Auðvitað vantaði heimild. Auðvitað er hún ekki. Auðvitað var eytt og sóað án heimildar. Auðvitað verður ráðherra að leita heimildar í þessu efni. Það er það sem við höfum verið að ræða. Og það er kannski hægt að segja um ræðuna alla í einni setningu eitthvað á þessa leið: Hvaða aðferð er til til að koma í veg fyrir að ráðherrar eyði og sói hundruðum millj. kr., jafnvel í sín gæluverkefni í kjördæmum sínum, án þess að hafa til þess heimildir frá Alþingi?