17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að skattyrðast við hv. 4. þm. Norðurl. e. um hver fer með mestan stráksskap í umræðum í sölum Alþingis, ætla að láta aðra um að dæma um það.

Ég vék að því í minni ræðu hvernig færi ef menn beittu sömu brögðum í málflutningi og hv. þm. Alþb. hafa gert, en tók mjög skýrt fram um það dæmi sem ég nefndi hvernig mætti vinna. (SJS: Taktu raunveruleg dæmi.) Ég ætla ekki að gera það. (SJS: Því ekki?) Ég tók mjög skýrt fram að ég ætlaði ekki að gera það þó ég hafi varpað ljósi á hvernig mætti ræða þetta ef menn ættu að gera það á sama plani og hv. þm. Alþb. En ég sé af viðbrögðum hv. þm. að þessi ábending hefur verið nokkuð viðkvæm. Það er greinilegt að hún hefur hitt í mark eins og hv. 7. þm. Reykv. orðar það.

En það er líka einkennilegt í málflutningi hv. 4. þm. Norðurl. e. að gera um það harðar athugasemdir að við hæstv. utanrrh. höfum, eftir því sem ég skildi, nánast ekki heimild til að vitna í þá hluta skýrslu Ríkisendurskoðunar sem skýrir þetta mál og er jákvæð fyrir þá aðila sem að framkvæmdinni hafa staðið. Við vitnuðum báðir í neikvæða og jákvæða þætti í þessari skýrslu. En það eru gerðar um það alvarlegar athugasemdir að við vitnum til þeirra þátta sem eru jákvæðir, sem skýra að byggingarnefndin hafði heimild. Þarna finnst mér skjóta skökku við. Það hafa verið bornar hér mjög þungar ásakanir á byggingarnefndarmenn með nokkrum glósum og dylgjum, en það kemur skýrt fram í skýrslu ríkisendurskoðanda og hv. 4. þm. Norðurl. e. las það upp áðan að byggingarnefndin hafði til þess réttar heimildir að standa að framkvæmdinni eins og hún gerði. Eigi að síður þótti ástæða til að bera þessar ásakanir fram og dylgjur en viðurkenna svo rétt í lokin, að vísu eftir að hafa gagnrýnt að til þessara ummæla í skýrslu Ríkisendurskoðunar væri vitnað, að þetta væri satt og rétt. Þetta lýsir auðvitað svolítið þessum málflutningi. Og mér finnst (Gripið fram í.) að einmitt svona málflutningur dragi úr því að menn dragi þann eðlilega lærdóm af þessu máli sem Ríkisendurskoðun er að benda hér á og við vitum að við þurfum að gera varðandi fjöldann allan, sennilega flestar opinberar framkvæmdir. Það vitum við allir, hv. þm. Ég tel að við megum ekki og eigum ekki að fara svo offari í þessari umræðu að þessi kjarni málsins verði út undan því að minni hyggju skiptir hann mestu máli.

Hæstv. utanrrh. hefur ítarlega gert grein fyrir því hverjar skýringar voru á þeim umframheimildum sem leitað var eftir, að vísu réttilega of seint, en leitað var eftir, og ég ætla ekki að rekja það frekar. Ég veit ekki, herra forseti, hvaða ákvarðanir hafa verið teknar eða mótaðar um samskipti þm. og Ríkisendurskoðunar undir því nýja skipulagi sem tekið hefur gildi, að Ríkisendurskoðun heyri undir Alþingi. Hv. 4. þm. Norðurl. e. óskaði eftir sérstökum fundi þingflokksformanna með ríkisendurskoðanda. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé hinn eðlilegi og rétti háttur sem hafa ber á í samskiptum þings og ríkisendurskoðanda, en fari slíkur fundur fram hygg ég að fróðlegt væri að fá þar fram hvort hv. 4. þm. Norðurl. e. geti fundið þeirri fullyrðingu sinni stað í endurskoðunarskjali, hinni stjórnsýslulegu endurskoðun Ríkisendurskoðunar, að 1 milljarði kr. hafi verið eytt og sóað án heimilda. Ég hygg að ef slíkur fundur á sér stað væri það fróðlegt að fá staðfestingu á því hvort hv. 4. þm. Norðurl. e. getur með rökum fundið þeirri fullyrðingu stað í skýrslu endurskoðanda.