17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð við lok þessarar umræðu. Það er ekki umdeilanlegt að utanrrh. fer með framkvæmd þess verks sem hér hefur verið til umræðu og byggingarnefnd sótti heimildir þangað. Samkvæmt því sem segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur sú heimild þar af leiðandi verið fyrir hendi. Af því hv. þm. 4. þm. Norðurl. e. ræddi það að utanrrh. hefði tekið sér fjárveitingarvald í hendur vil ég aðeins undirstrika það sem ég sagði í minni fyrstu ræðu. Í það skipti sem ég sá um fjármál í sambandi við lánsfjárlög lá fyrir beiðni frá byggingarnefnd um 520 millj. kr. til erlendrar lántöku. Sú beiðni gekk til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar eins og hér hefur komið fram. Engar upplýsingar aðrar lágu þá fyrir. Um leið og fyrir lágu upplýsingar um að það skorti viðbótarfjármagn var að sjálfsögðu sótt um fjárveitingu til fjmrh. og á því varð enginn dráttur. Þegar mál liggja ljós fyrir eru þau látin ganga rétta boðleið, en þau þurfa að sjálfsögðu að liggja ljós fyrir.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að því að ég hefði talað um að Ríkisendurskoðunin hefði ekki gætt nægjanlegrar sanngirni. Ég sagði að ekki hafi gætt nægjanlegrar sanngirni í umfjöllun ýmissa aðila um málið. Má vera að um mismæli hafi verið að ræða, en við fáum þá að heyra það af segulbandsspólunni.

Þegar talað er um ábyrgð og þá í leiðinni verið að bera mér á brýn að ég hafi ekki gert rétt í því að láta þann samning sem upprunalega var undirritaður í ágústmánuði 1983 og kvað á um að flugstöðin ætti að vera tilbúin í apríl 1987 stangast hlutirnir á. Ég var þar að gæta þeirrar ábyrgðar sem utanrrh. hafði til að skila verkinu á umsömdum tíma.