18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Samkvæmt yfirlýsingum sem liggja fyrir frá ríkisstjórninni er ætlunin að endurgreiða söluskatt af mjólk og mjólkurafurðum, sömuleiðis dilkakjöti, osti. Ég spyr: Er með afstöðu meiri hl. í þessari deild verið að taka um það ákvörðun að þessi endurgreiðsla eigi sér ekki stað? Eru fulltrúar stjórnarflokkanna hér, Egill Jónsson og Halldór Blöndal, hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson ... (Forseti: Ég minni á að viðkomandi er að gera grein fyrir atkvæði sínu.) Já, einmitt. Ég er nefnilega að gera grein fyrir atkvæði mínu, forseti. Þetta er úrslitastund í málinu. Ég er að gera grein fyrir mínu atkvæði, herra forseti, vegna þess að hér er meiri hl. að segja að fjmrh. megi ekki endurgreiða þennan söluskatt. Þið eruð að lýsa því yfir að fjmrh. megi ekki endurgreiða söluskatt af mjólkurafurðum. Ég mun, ef meiri hl. fellir þessa till., óska eftir hléi á fundinum til að fá yfirlýsingu frá fjmrh. um að hann muni hafa ykkar afstöðu að engu. Ég segi þess vegna við þessari till. já, herra forseti.