18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

196. mál, söluskattur

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli hv. 7. þm. Reykv. á því að nú stendur yfir atkvæðagreiðsla og það er ekki þinglegt eða í samræmi við þingsköp að kalla ráðherra til skýrslugjafar í atkvæðagreiðslu. Mér finnst eðlilegt að hv. 7. þm. Reykv. doki við með þessa ósk sína. Hann hefur þegar fengið skýringar frá hæstv. sjútvrh., þannig að fjmrh. við 3. umr. málsins, sem er hið rétta form, ekki í atkvæðagreiðslunni, gefur honum þá þær skýringar sem hann óskar eftir. Það er að sjálfsögðu hin eðlilega leið. Í atkvæðagreiðslu efnum við ekki til ræðuhalda um efnisatriði máls.