21.10.1987
Efri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

9. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég var kominn þangað í máli mínu þegar umræðu var frestað hér fyrir nokkru síðan að ég ætlaði að fara nokkrum orðum um efnisatriði þess máls sem hér er á dagskrá, þ.e. 9. máls, frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að felldar séu niður heimildir til að afskrifa útistandandi viðskiptaskuldir um 5% og matsverð vörubirgða um 10%. Um það má að sjálfsögðu deila hvort slíkar afskriftareglur skuli heimilaðar, en ég held að rétt sé að rifja það upp hvers vegna slíkar afskriftareglur komu til á sínum tíma. Það gerðist þegar skattalögum var breytt að því er mig minnir 1978 en slíkar heimildir höfðu ekki áður verið.

Að því er varðar útistandandi viðskiptaskuldir þá er það ávallt svo að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að allar útistandandi viðskiptaskuldir innheimtist jafnvel þótt það sé ekki staðfest að þær séu tapaðar. Eins og málum var háttað áður voru viðskiptaskuldir oft og tíðum bókfærðar sem eignir fyrirtækja þótt allar líkur væru til að þær mundu tapast. Jafnframt liggur fyrir að ef fyrirtæki vildi koma útistandandi viðskiptaskuldum sínum í handbært fé um viðkomandi áramót þá var ekki líklegt að einhver væri tilbúinn til að kaupa þessar útistandandi skuldir fyrir sömu fjárhæð og bókfært er í reikningum fyrirtækisins. Þess vegna þótti eðlilegt að heimila þarna nokkra afskrift til að auðvelda fyrirtækjum að gera þessar eignir upp í samræmi við góða reikningsskilavenju. Ég tel að hér sé ekki um óeðlilega afskrift að ræða og vil benda á að breyting á þessu skiptir engum sköpum í skattamálum í sjálfu sér.

Að því er varðar matsverð vörubirgða þá gegnir það að nokkru leyti sama máli að vörubirgðir eru færðar á innkaupsverði eða dagverði og það er ekki líklegt að það matsverð, eins og skylt er að meta það skv. skattalögum, sé raunverulegt verðmæti birgða og þess vegna þótti rétt að hafa þar nokkra afskrift til að koma til móts við slíka verðrýrnun. Auðvitað er það svo að það er. mjög mismunandi hvort slík afskrift er réttlætanleg eða ekki. Í sumum tilvikum er hún mjög eðlileg en í öðrum tilvikum kann hún að vera nokkuð mikil. Ég býst við að nokkur munur sé á því hvort um margvíslegar vörutegundir er að ræða í einu fyrirtæki eða eina vörutegund eins og t.d. olíu, svo að dæmi sé tekið, eða annars vegar stóran matvörulager og hins vegar lager af gulli, svo að tekin séu einhver öfgadæmi, þótt það sé víst ekki mjög algengt í íslensku viðskiptalífi að mikið sé verslað með þann málm þó að það sé nú í einhverjum tilvikum. (SvG: Tæplega kallað vörubirgðir.) Ja, vörubirgðir eru það nú í skilgreiningu bæði bókhaldslaga og skattalaga, a.m.k. ef um skartgripi er að ræða, en mundu vart vera kallaðar vörubirgðir í reikningum Seðlabankans, svo að annað dæmi sé nefnt.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að lækka afskriftaprósentur í það sem þær voru. Ég er þeirrar skoðunar að á sínum tíma þegar þessar afskriftaprósentur voru hækkaðar hafi ekki mælt með því nein sérstök rök. Hitt er svo annað mál að endingartími eigna er í reynd fremur að styttast en hitt. Miklar tækniframfarir eiga sér stað og tölvubyltingin skiptir miklu máli og endingartími slíkra eigna er oft og tíðum mjög stuttur, þannig að ég von á því, sérstaklega að því er varðar 20% flokkinn, að þá séu heldur meiri rök fyrir því en áður var að sú afskriftaprósenta haldist. En það er með þetta eins og hið fyrra að hér er fyrst og fremst um það að ræða að dreifa útgjöldum á tiltekinn tíma og það skiptir ekki sköpum hvort þessi dreifing er einu árinu lengri eða skemmri. Það getur skipt máli fyrstu árin en síðan kemur það til skila og ég minni á að allar þessar eignir eru reiknaðar út skv. verðbreytingarfærslum þannig að afskriftatími skiptir minna máli nú en var áður í skattalögum þegar ekki var tekið tillit til verðbreytinga.

Einnig er það svo að leigukaup hafa aukist á fjármagnsmarkaðnum og nauðsynlegt er að samræmi sé í afskriftatíma eigna sem annars vegar eru fjármagnaðar á þann hátt en fyrirtækin kaupa hins vegar beint fyrir sitt eigið fé eða lánsfé.

Að því er varðar 3. gr. þá hef ég áður gert hana að umtalsefni. Ég tel hana algerlega óþarfa. Það liggur fyrir í skattalögum að eingöngu útgjöld er varða öflun tekna eru frádráttarbær og að því er varðar 52. gr. þá eiga þessir liðir ekki heima í henni að mínum dómi. Þar eru aðrir hlutir eins og sektir sem geta verið útgjöld atvinnurekstrar en ekki talið eðlilegt að það sé litið á það sem útgjöld vegna öflunar tekna. Hins vegar er það meginatriði að hér sé eðlilegt eftirlit og hart eftirlit með þessum atriðum sem ég kom inn á þegar mál þetta var rætt áður.

Hins vegar kemur fram í 1. gr., sem ég gleymdi að geta um en hljóta að vera einhver mistök hjá flm., að heimilt sé að draga frá hagnaði 5% vegna rannsóknar- og þróunarstarfs á vegum fyrirtækis. Það fer ekkert á milli mála að það er að sjálfsögðu heimilt að draga slík útgjöld frá tekjum fyrirtækja í dag, en hins vegar hefur verið rætt um í þessu sambandi að tvöfaldur þessi kostnaður væri frádráttarbær, og þar með væri hvatt til rannsóknar- og þróunarstarfs þannig að hér hlýtur að vera um einhver mistök að ræða. Hitt er svo annað mál eins og kom fram hjá flm. að það er mjög vandasamt að skilgreina það hvað er rannsóknar- og þróunarkostnaður og ég er helst á því að það muni vefjast fyrir aðilum að bókfæra það svo einhlítt sé. Og þó að rök mæli með því að gera þessa breytingu þá held ég að það sé með þetta eins og margt annað að það sé mjög erfitt í framkvæmd og betra að leysa það með öðrum hætti af hálfu ríkisins, t.d. með stuðningi við rannsóknar- og þróunarstarf og hagkvæmum lánum til slíkra hluta, en beint í skattalögunum sjálfum. Mér finnst margt mæla á móti því en hins vegar má koma til móts við þau sjónarmið með öðrum hætti.

Að því er varðar 6. gr. þá er þar heimilað að fara inn á þá braut að skattyfirvöld fari að telja fram fyrir aðila, að menn geti heimilað þeim að gera framtalið, sem út af fyrir sig má vel gera. Hins vegar tel ég að starfskröftum skattyfirvalda sé betur varið í aðra hluti eins og skatteftirlit og því sé óþarfi að hlífa framteljendum við þeirri vinnu og þeirri skyldu sinni að koma þessum tölum á blað. Ég held að það sé á margan hátt óeðlilegt að leggja þær skyldur á skattyfirvöld. Og eins og skattakerfið er mannað í dag þykir mér óskynsamlegt að leggja slíka vinnubyrði á þá aðila á sama tíma og menn vilja setja ýmsar aðrar skyldur á þá og þá kannski sérstaklega að þeir auki eftirlit með skattinnheimtu.

Að því er varðar 7. gr. þá varðar hún fyrst og fremst upplýsingaskyldu. Hins vegar er aðalatriði þess máls, að því er varðar vaxtatekjur og tekjur af fjármagni, hvort þessar tekjur skuli skattskyldar eða ekki. Það er aðalatriði málsins en ekki með hvaða hætti það skuli upplýst þó að það sé að sjálfsögðu stór hluti af því máli. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að breyta skattalögum þannig að fjármagnstekjur séu skattlagðar, a.m.k. að því marki sem þessar tekjur eru yfir verðbólgu eins og hv. frsm. kom fram með. Þegar skattalög voru sett á sínum tíma var hér ekki um tekjur að ræða. Vextir voru mjög lágir í samanburði við verðbólgu og þess vegna ríktu þar allt önnur sjónarmið. Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að því fylgi upplýsingaskylda þannig að hægt sé að fylgjast með því og þessi grein tekur á því máli en ekki á skattskyldumálinu sjálfu. En væntanlega hefur átt að gera það með öðrum hætti og e.t.v. í öðru frv.

Að því er varðar síðustu greinina, þá held ég að það sé mjög vafasamt að skylda skattrannsóknarstjóra til þess að láta fara fram rannsókn á bókhaldi ákveðins fjölda fyrirtækja á hverju ári eða 100 fyrirtækja. Auðvitað getur það verið mjög mismunandi eftir stærð þeirra og umfangi og rekstri. Hins vegar er nauðsynlegt að stofnunin stórauki þessar rannsóknir og það er fyrst og fremst sú hugsun sem hér kemur fram en ég tel mjög vafasamt að það eigi að binda það við ákveðinn fjölda fyrirtækja í lögum.

Að þessu sögðu vil ég draga þá almennu ályktun að í þessu frv. komi ekki fram nein þau atriði sem skipta sköpum að því er skattamál varðar. Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að skattsvik verði ekki fyrst og fremst lagfærð með nýrri löggjöf heldur með meira eftirliti. Hér er tekið á atriðum eins og útistandandi skuldum, matsverði vörubirgða, fyrningum, sem ekki skipta sköpum í þessu efni. Hins vegar skiptir miklu máli að persónuleg eyðsla sé alls ekki færð á rekstur fyrirtækja heldur sé þar fyrst og fremst um eftirlitsmál að ræða og breytingar á reglugerðum sem geta átt sér stoð í gildandi lögum.

Hitt er svo annað mál að það er tímabært og mikilvægt að huga að breytingum á skilgreiningu á tekjuskattsstofninum og eignarskattsstofninum, þ.e. hvort fjármagnstekjur skuli ekki teljast tekjuskattsskyldar tekjur og ýmsar eignir, sem eru ekki skattlagðar til eignarskatts, skuli ekki þar vera með eins og ýmsar aðrar eignir. Þar er fyrst og fremst átt við fjármagnseignir. Þetta eru atriði sem vissulega skipta máli en ég er almennt þeirrar skoðunar að forgangsatriðið í íslenskum skattamálum í dag sé eftirlit, skatteftirlit og efling þeirrar framkvæmdar. Því miður er það svo að lögð hefur verið áhersla á önnur atriði eins og breytingar á skattalögum ýmsum sem hafa tafið fyrir því að hægt hafi verið að efla skatteftirlit og einnig hefur staðgreiðslukerfi orðið forgangsverkefni í skattamálum og er forgangsverkefni í dag. En að mínum dómi hefði verið meira atriði að efling skatteftirlits hefði gengið þar á undan. Það er hins vegar ákvörðun sem hefur verið tekin og ekkert við því að gera. Það verður að sjálfsögðu að ljúka við það mál.

Þar á undan var til umræðu hér frv. til l. um skattadóm og rannsókn skattsvikamála. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ekki ætti að setja upp sérstakan skattadóm. Okkar dómskerfi ætti að geta ráðið við þau brotamál sem eru í gangi án þess að setja þau í sérstakan dómstól. Hitt er svo annað mál að það er reynslan að ef um opinber mál er að ræða þá vilja þau tefjast mjög í dómskerfinu og okkar dómstólar hafa ekki ráðið við það að sinna þessum málum með eðlilegum hætti. Í ljósi þeirrar reynslu er ég orðinn þeirrar skoðunar að trúlega sé rétt að setja upp sérstakan skattadóm og gera tilraun með hvort það reynist ekki betur og hvort málum verði ekki betur sinnt með þeim hætti. Þetta er ekki vegna þess að ég sé efnislega samþykkur því að það þurfi að koma til þess að sérstakur skattadómstóll starfi, heldur vegna þess að það hefur ekki verið nægilega góð reynsla af dómskerfinu og þess vegna get ég fyrir mitt leyti stutt slíka skipan eins og að setja upp sérstakan skattadóm. Ég tel að hér sé um það mikilvægt mál að ræða að ekki sé rétt að standa í vegi fyrir því að slík tilhögun sé reynd. Það hefur verið gert að því er varðar fíkniefnamál og það má vel vera að rétt sé að gera það að því er varðar ýmsa aðra málaflokka, en það hljóta hins vegar að vera takmörk fyrir því hvað er rétt að taka upp marga sérdómstóla í landinu. En ef um einstök áhersluatriði er að ræða í einu þjóðfélagi, þá hlýtur það að koma til álita að gera það þótt það sé ekki nema tímabundið.

Herra forseti. Ég hef þá farið efnislega yfir það sem hér er til umræðu. Hér koma margar ágætar hugsanir fram og nauðsynlegt að þeim sé hreyft. Það er nauðsynlegt að skattalögin séu sífellt í endurskoðun en hins vegar vildi ég aðeins með máli mínu hér benda á að það er nauðsynlegt að þar séu áhersluatriðin rétt og eins og nú horfir er það framkvæmd skattamála og skatteftirlit sem skiptir þar meginmáli.