18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 84/1986, um breyting á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, á þskj. 238.

Þetta frv. er ekki stórt í sniðum, reyndar aðeins tvær greinar, en það er að því leytinu til mikilvægt að það fjallar um það form heilsugæslu sem skal vera skv. lögum um heilbrigðisþjónustu frá árinu 1983, en hefur ekki enn þá tekist að koma á í öllum læknishéruðum eða heilsugæsluumdæmum. Frv. þetta eða efni þess er má segja kunningi þeirra þm. sem setið hafa á þingi áður því að allt frá árinu 1983 hefur verið flutt hér frv. til laga um breytingar á þessu ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, þar sem ekki hefur enn tekist eða unnist tími til að koma þessu formi heilsugæslu á hér í Reykjavík og í Garðakaupstað svo sem kveður á um í frv. og getið er um í grg. þess.

Því er í raun búið við tvenns konar kerfi í landinu. Það hefur á undanförnum árum tekist að koma þessu heilsugæsluformi á alls staðar annars staðar en hér í þessum tveimur umdæmum og mín ósk og von er sú að okkur takist það á næsta ári þannig að alls staðar gildi um þetta efni sama form.

Það eru þegar í gangi viðræður við bæjarstjórn Garðakaupstaðar um málið og ég vænti þess að takast muni fljótlega upp úr áramótum að ná samkomulagi um að koma heilsugæsluforminu á þar, en viðræður við Reykvíkinga hafa ekki farið fram að undanförnu. Það hefur ekki verið tími til þess eða það ekki verið látið sitja fyrir öðrum verkefnum, en ég hef fullan hug á því að fljótt eftir áramót verði einnig teknar upp viðræður við borgaryfirvöld hér í Reykjavík um það að koma heilbrigðisþjónustu í svipað form og annars staðar og eins og lög um heilbrigðisþjónustu kveða á um.

Ég vil þó láta þess getið hér að um þetta eru þó nokkuð skiptar skoðanir þannig að mönnum sé það ljóst að það eru ekki allir sammála um þetta. Auðvitað mæla sjálfsagt einhver rök með því að það sé um fleiri valkosti að ræða en þetta heilsugæslukerfi, en ég hygg þó að það hafi sannað sig víðast hvar og gengið vel. Sums staðar eru heilsugæslustöðvarnar mjög stórar. Ég nefni t.d. Akureyri, sem mun vera stærsta heilsugæslustöðin á landinu, þjóna flestum íbúum, þannig að það ætti ekki að vera til trafala, en það er þá frekar sú hugmynd að menn þurfi að eiga fleiri valkosti sem þarf e.t.v. að skoða betur.

Ég held, herra forseti, að það þurfi ekki að hafa um þetta mörg orð. Frv. er í sjálfu sér einfalt í sniðum. Það er búið að fara í gegnum afgreiðslu í Nd. og var samþykkt þar óbreytt.

Fyrsta gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta: „1. gr. laga nr. 84/1986 orðist svo:

Í Reykjavíkurlæknishéraði og heilsugæsluumdæmi í Garðakaupstað skal frestur þessi standa til ársloka 1988.“

Í 2. gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Málið snýst um það að við þurfum að fá þessa lagabreytingu fram fyrir áramót þar sem það er ljóst að okkur mun ekki takast á þeim stutta tíma sem enn lifir af þessu ári að koma á breyttu formi heilbrigðisþjónustunnar. Og til þess að samkvæmt lögum sé unnið óska ég þess að málið fái skjóta framgöngu í þessari hv. deild.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.