18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð í þessu máli.

Eins og fram hefur komið í máli þeirra sem á undan mér hafa talað hefur verið staðfest stefna í heilsugæslumálum í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 59 frá 1983. Og þar segir með leyfi forseta í 1. gr.:

„Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til að halda andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Heilbrigðisþjónusta tekur til hvers kyns heilsugæslu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga“ o.s.frv. sem ég hirði ekki að telja, en það er greinilegt að sú heilbrigðisþjónusta, sem þannig er skilgreind, á líka við heilsugæslu.

Þessi stefna var í mótun um margra ára skeið og er, eins og kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv., þegar komin til framkvæmda víða um land. Aftur á móti hefur framkvæmd hennar ekki náð fram að ganga hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið upp hik og fyrirstaða og verið reyndar, má segja, tafið með því að setja nefnd í málið sem gerði tillögur um ýmsar tegundir og ýmsan hátt á því fyrirkomulagi sem kæmi til greina.

Það er vitað mál eins og líka hefur komið fram að það eru uppi ýmsar hugmyndir í þessum efnum, t.d. hugmyndir sem byggjast á því að sjúklingar kaupi heilsugæsluþjónustu eins og aðra þjónustu og þá væntanlega eftir efnalegri getu sinni en ekki að slík þjónusta sé föl sem félagsleg réttindi án tillits til efnahags. Þannig rekin þjónusta mundi að sjálfsögðu firra sveitarfélög miklum kostnaði og það er ákveðin freisting fólgin í því. Þetta tel ég vera mjög hættulega stefnu og vil vekja athygli á því að það þarf að taka þarna í taumana til þess að hægt og sígandi með töfum t.d., eins og hafa orðið varðandi það mál sem hér er til umræðu, verði ekki smám saman komið á þjónustu sem sniðgengur félagsleg réttindi manna til þess að fá þá heilbrigðisþjónustu sem lögin kveða á um. Þetta tel ég að sé mjög mikilsvert atriði.

Það kann að vera að það séu reyndar skiptar skoðanir um þetta skipulag heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, bæði meðal sveitarstjórnarmanna og meðal lækna og e.t.v. líka almennings, en eins og ég hef áður sagt: Það er augljóst að Alþingi hefur þegar mótað og samþykkt stefnu í þessum efnum. Og það er einnig hlutverk framkvæmdarvaldsins að framfylgja stefnumótun Alþingis. Ef einhver endurskoðun er nauðsynleg á stefnunni er það lágmarkskrafa okkar, löggjafans, að hún taki ekki of langan tíma og tefji ekki um of að þessi stefna sé framkvæmd sem hefur verið samþykkt í þessu máli.

Það er nauðsynlegt að allar þær breytingar og áætlanir sem fyrirhugaðar eru komi sem fyrst fram þannig að skipulagið dragist ekki úr hömlu. Ég tel óviðunandi að það dragist mikið lengur og þess vegna hvet ég hæstv. heilbrmrh. til að vinda bráðan bug að því í sínu ráðuneyti og í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og fjmrh. að þessari stefnu verði framfylgt sem fyrst. Eftir minni bestu vitund hafa lengi legið fyrir samþykktir borgarstjórnar Reykjavíkur, samþykkt Heilbrigðisráðs Reykjavíkur, samþykkt félags heimilislækna og samþykkt Læknafélags Reykjavíkur fyrir því að koma á slíku heilsugæslukerfi á höfuðborgarsvæðinu eins og greinir á um í lögunum en samt hefur ekkert gengið. Og vinstri meiri hlutanum í borgarstjórn tókst ekkert betur upp við það að knýja þessar breytingar í gegn heldur en nú er þegar hægri meiri hluti ríkir og málið er enn tafið. Og maður veltir því fyrir sér hagsmunir hverra ráði þessum töfum. Það eru áreiðanlega ekki hagsmunir sjúklinganna sem því ráða. Eins og kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. eru afar margir sem eru í hallæri með það að útvega sér heimilislækna og eiga ekki greiðan aðgang að heilsugæslustöðvum. Mér finnst það vera réttmæt krafa sjúklinga á höfuðborgarsvæðinu að þessi mál verði ekki lengur tafin og að á þeim finnist lausn sem er sjúklingum hagstæð. Það er jafnframt hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með því að framkvæmdarvaldið framfylgi þeirri stefnu sem það hefur mótað. Ég tel því þörf á því að hraða þessum málum meira en ætlað er í frv. og mun beita mér fyrir því að reka á eftir framkvæmd málanna. Þetta mál mun væntanlega koma til hv. heilbr.- og trn. þar sem ég á sæti og reikna ég með því að þar muni ég skila séráliti um þetta mál.