21.10.1987
Efri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

9. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um tvö frv. sem við flytjum þm. Alþb. í hv. deild og lúta að skattamálum, annars vegar frv. um tekjuskatt og eignarskatt og hins vegar frv. um skattadóm og meðferð skattsvikamála. Ég held að hér sé komið að einum stærsta þætti okkar samfélags, þ.e. skattamálin, hvernig að þeim er staðið.

Ég held að það skipti ákaflega miklu máli sem hæstv. sjútvrh. ræddi hér í fyrri ræðu sinni á dögunum, að reynt sé að stuðla að stöðugleika í skattamálum, stöðugleika við framkvæmd skattamála. Ég vil líka bæta því við að ég held að það sé ákaflega mikilvægt að um framkvæmd skattamála sé reynt að stuðla að eins víðtækri þjóðfélagslegri samstöðu og mögulegt er til þess að þeir sem þurfa að greiða skattana, þeir sem standa undir samneyslunni séu sáttir í meginatriðum, að svo miklu leyti sem kostur er, við það skattakerfi sem er í gildi á hverjum tíma og framkvæmdina á skattakerfinu.

Þetta segi ég kannski vegna þess að hæstv. núv. ríkisstjórn hefur ákveðið að gera mjög viðamiklar breytingar á skattamálum. Á þskj. 1, bls. 221, kemur fram að ríkisstjórnin er með í bígerð stórfelldar breytingar á svo að segja öllum sviðum skattamála. Hún hyggst breyta lögunum um söluskatt, hún hyggst leggja fram frv. til l. um nýja tollskrá. Hún hyggst leggja fram frv. til l. um vörugjald sem væntanlega á að taka af ákvæði í lögum um svokallað tímabundið vörugjald og ákvæði í lögum um vörugjald á sælgæti, gosdrykki o.fl. Hún hyggst jafnframt flytja hér frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, þar sem gert er ráð fyrir því að endurskoða tekjuskattlagningu fyrirtækja. Hún hyggst leggja fram frv. til l. um breyt. á l. frá 1965 um launaskatt, en í frv. er samkvæmt fjárlagafrv. byggt á því að 1% launaskattur verði lagður á þær atvinnugreinar aðrar en búrekstur sem hafa verið undanþegnar launaskatti. Síðan hyggst ríkisstjórnin leggja fram frv. til l. um álagningu og innheimtu ýmissa tímabundinna skatta og gjalda á árinu 1988, þar á meðal er áformað að sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði framlengdur á árinu 1988. Þá er gert ráð fyrir því að leggja fram frv. til l. um breyt. á l. nr. 46/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda og það er ætlunin að leggja fram frv. til l. um sérstakt gjald af verktökum vegna vinnu á svokölluðum varnarsvæðum.

Hér er m.ö.o. ætlun ríkisstjórnarinnar núna a þessum dögum sem þingið starfar fram að hátíðum að leggja fram átta frumvörp sem snerta alla þætti skattamála, bæði beinna og óbeinna skatta, frumvörp sem hafa áhrif á alla verðmyndun í landinu, þar á meðal útreikninga innflutningsverðs, frumvörp sem hafa áhrif á álagningu bæði í heildsölu og smásölu þegar upp verður staðið, frumvörp sem hafa veigamikil áhrif á alla tekjuskiptingu einstaklinganna bæði það sem menn fá sjálfir í hendurnar til að eyða og eins hitt sem tekið er af mönnum jafnharðan og eftir situr hjá hinum opinberu aðilum. Þó að núv. hæstv. ríkisstjórn hafi hér mikinn og voldugan en ekki að sama skapi samstæðan, skilst manni, þingmeirihluta, en látum það nú vera, þó hún hafi mikinn þingmeirihluta þá er eðlilegt að þegar svona viðamiklar breytingar eru í bígerð á öllu skattakerfinu eins og það leggur sig að þá sé kallað til samráðs við þingið áður en málin koma hér inn. Það sé kallað til samráðs við þingflokka stjórnar og stjórnarandstöðu áður en þessi mál koma hér inn. Því að hér er um svo miklar breytingar að ræða á skattakerfinu, það tekur svo langan tíma að fara yfir þessi mál, að ef það á að verða einhver mynd á afgreiðslunni, ef þetta eiga ekki að verða handarbakavinnubrögð og fljótaskrift eins og oft er á löggjöfinni héðan, þá verður að fara að undirbúa þessa hluti.

Ég vil beina því til hæstv. fjmrh.: Hvenær hyggst hann leggja þessi frumvörp fyrir Alþingi og hvenær hyggst hann hafa og hefja samráð við þingflokkana um þessi mál? Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. hafi tekið eftir þessari spurningu sem ég beindi til hans varðandi þessi frumvörp sem talin eru upp í fjárlagafrv. á bls. 221. Hér er sem sagt um að ræða frumvörp sem snerta allt skattakerfi ríkisins, það er í raun og veru ekkert sem þarna er út undan. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt, ef hérna á að verða um löggjöf að ræða sem binst sæmilegur trúnaður við hjá þeim sem eiga að borga, þ.e. þjóðinni, að þá þurfi að stuðla að eins víðtækri samstöðu um þessi mál og frekast er unnt og þar er það auðvitað hæstv. ríkisstjórn sem hefur valdið.

Varðandi það frv. sem ég mælti fyrir á dögunum og hæstv. sjútvrh. fór ítarlega yfir áðan vil ég segja þetta. Varðandi það að fella niður heimild til þess að færa tap á útistandandi viðskiptaskuldum til frádráttar umfram sannanlega tapaðar skuldir, þá er það alveg hárrétt að það líður oft mjög langur tími frá því að skuld er töpuð þangað til það hefur verið staðfest með formlegum og réttum hætti gagnvart yfirvöldum. Þess vegna getur það að mínu mati komið til greina að vera þarna með eitthvert svigrúm til þess að draga frá tap vegna útistandandi skulda. Ég hygg hins vegar að það eigi við um þetta eins og margt annað í skattalögunum að þetta sé og eigi þá að vera aðeins mismunandi eftir því hvaða tegundir af fyrirtækjum hér er um að ræða. Fyrirtæki eru með misjafnlega stórt hlutfall af sinni veltu sem viðskiptaskuldir í árslok, og þetta ákvæði skattalaganna eins og það er núna ívilnar fyrirtækjunum misjafnlega. Ég hygg að þarna mætti fara einhverja millileið frá því að fella þessa heimild alveg niður, niður í eitthvað minni heimild og aðeins mismunandi eftir tegundum fyrirtækja. Tilgangurinn hjá mér með þessum tillögum var sá sem hæstv. fjmrh. gerir að aðalatriði í öllum sínum ræðum að því er varðar einstaklingana, það er að einfalda, og byrja á því að einfalda þessa hluti gagnvart fyrirtækjunum því að þar sé meiri þörf á því. Það sé meiri þörf á því að loka smugunum þar og vegna mismunandi tekna og getu einstaklinganna þá sé eðlilegra að mismuna þar aðeins í sköttum og vera þar með undanþágur heldur en gagnvart fyrirtækjunum. Þess vegna held ég að þessi einföldunarstefna sem hæstv. fjmrh. talar fyrir ætti í raun og veru að byrja á fyrirtækjunum og á grundvelli þess er þessi till. flutt.

Í öðru lagi benti hæstv. sjútvrh. réttilega á það að heimildin til þess að draga frá allt að 10% af matsverði vörubirgða í árslok kemur ákaflega misjafnlega niður á fyrirtækjum. Afskaplega misjafnlega út fyrir fyrirtæki. Þarna hygg ég að það væri hugsanlegt að vera með mismunandi reglu ef menn vilja hafa þessa heimild inni á annað borð. En ég segi aftur: Ég held að skynsamlegra væri að fella báðar þessar heimildir niður og breyta í staðinn sjálfri hinni endanlegu álagningarprósentu á fyrirtækin sem ekki er tekin afstaða til í þessu frv. eins og það er lagt fram hér, enda fjallar það ekki um álagningu út af fyrir sig, t.d. á fjármagnstekjur, heldur fyrst og fremst um tæknilega útfærslu á þessum málum.

Hæstv. sjútvrh. sagði einnig að síðasta mgr. 1. gr., um að heimila fyrirtækjum að draga frá hagnaði vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi, gæti valdið misskilningi eins og hún er sett þarna upp. Það kann vel að vera. Það er iðulega erfitt fyrir fyrirtæki sem eru að fara út í rannsóknar- og þróunarverkefni — það getur verið mjög hæpið að skylda fyrirtæki til að leggja fram upplýsingar um útgjöld í þessum efnum í einstökum atriðum. Þar getur verið um að ræða afar sundurleitar útgjaldaforsendur. Þess vegna finnst mér hugsanlegt að þessi 5% komi til viðbótar við annað sem fyrirtækin draga frá sínum rekstrarútgjöldum. Hér er sem sagt till. um að þetta komi til viðbótar við það sem fyrirtækin hafa áður dregið frá. Það kann vel að vera að það sé skynsamlegra að fara þá leið að heimila frádrátt frá skatti þannig að um sé að ræða t.d. tvöföldun útgjalda til rannsóknar- og þróunarverkefna. Það er auðvitað leið sem má skoða og er ekkert á móti því. Aðalatriðið er auðvitað að finna leið sem er þannig að það séu örugglega framlög til rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem þarna eru dregin frá.

Varðandi lækkunina á afskriftaprósentunni er ég alveg sammála hæstv. sjútvrh. um að það var óþarfi og engin rök sem mæltu sérstaklega með því að hækka þessa afskriftaprósentu þegar því var breytt á sínum tíma. Hann segir líka réttilega að endingartími ýmissa tækja og búnaðar sem fyrirtæki eiga núna og þurfa að eiga núna sé styttri en áður var. Þar er um að ræða margvíslegar nýjungar í tækjabúnaði, m.a. tölvur og fleira þess háttar. Þetta er allt rétt. Þá er á það að benda að skattalög gera ráð fyrir því að allur þessi búnaður fyrnist á því ári sem til kostnaðarins er stofnað. Í síðustu mgr. 38. gr. skattalaganna segir:

„Stofnkostnað skv. 5. tölul. 32. gr. er heimilt að færa að fullu til frádráttar tekjum á því ári þegar hann myndast.“

Og hvaða kostnaður er þetta? Jú, það er stofnkostnaður, svo sem kostnaður vegna skráningar fyrirtækis, öflunar atvinnurekstrarleyfa, kostnaður við tilraunavinnslu, markaðsleit, rannsóknir, öflun einkaleyfis og vörumerkja. Allan þennan kostnað er heimilt að fyrna strax á því ári þegar stofnað er til kostnaðarins. Og breytingartillögurnar um afskriftaprósenturnar í 2. gr. þessa frv. frá okkur hafa engin áhrif á þessa grein. Hún stendur þarna inni og það er mikilvægt, og er nefnt hér vegna aths. hæstv. sjútvrh.

Hæstv. sjútvrh. telur að þau ákvæði sem eru í 3. gr. frv. séu óþörf vegna þess að ekki sé heimilt að færa persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna á rekstrarkostnað, og risnu má ekki telja til rekstrarkostnaðar nema hún sé sannanlega í þágu fyrirtækis. Út af fyrir sig er þetta rétt. En það er alveg ljóst að það er ein meginmeinsemd skattalaganna og skattaframkvæmdarinnar að menn eru að færa persónulega eyðslu á fyrirtækin. Það er ein meginmeinsemd skattalaganna og skattaframkvæmdarinnar. Þegar þessi mál voru til meðferðar hér í fyrra þá ræddum við oft um það, ég og hæstv. núv. fjmrh., að þarna, einmitt þarna færu í gegn stórkostlegar fúlgur. Þessi sjónarmið okkar voru staðfest af skattsvikanefndinni svokölluðu sem starfaði undir forustu Þrastar Ólafssonar og skilaði áliti á árinu 1986. Og vegna þess að hérna er um alvarlega meinsemd að ræða leggjum við til að í 52. gr. skattalaganna komi þessi ákvæði alveg sérstaklega:

Að persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess sé óheimilt að telja til rekstrarkostnaðar.

Að risnu megi ekki telja til rekstrarkostnaðar nema hún sé sannanlega í þágu fyrirtækis. Ríkisskattstjóri setji reglur um risnukostnað fyrirtækja eftir stærð þeirra og veltu og með hliðsjón af markaðsstöðu fyrirtækjanna. Við ákvörðun sína skuli ríkisskattstjóri gæta þess sérstaklega að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess færist aldrei á kostnað fyrirtækis.

Út af fyrir sig má segja að það sé hvort eð er innbyggt í skattalögunum að það sem hér er sagt megi ekki gerast, en til þess að undirstrika sérstakan vilja löggjafans til átaks í þessu efni, m.a. gagnvart þeim aðilum sem fara með framkvæmd skattalaganna, skattstofunum, ríkisskattstjóra og þeim aðilum, til þess að undirstrika þennan sérstaka vilja löggjafans teljum við að það sé eðlilegt að þetta fari inn. Ég flyt þetta mál mitt núna af sérstökum þunga vegna þess að á síðasta þingi var hér maður í stjórnarandstöðu, sem nú er hæstv. fjmrh. landsins, sem studdi þetta þá drengilega í Nd. í nafnaköllum sem er hægt að fletta upp, og ég hefði haldið að þau sjónarmið sem þarna liggja að baki eigi stuðning núv, hæstv. fjmrh., enda er það eins með hæstv. sjútvrh. að sjónarmiðin sem þarna eru á bak við eru viðurkennd af honum. Hann telur þau góðra gjalda verð út af fyrir sig þó að hann sé ekki sammála þeirri till. um meðferð málsins sem þarna er gerð.

Ég var að segja það, hæstv. fjmrh., að ég mælti sérstaklega með þessari 3. gr. í frv. af því að við fluttum hana báðir í fyrra og fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherrann hefur eitthvað litið á hana eftir að hann tók við húsbóndavöldum þarna uppi við Arnarhólinn, uppi í Arnarhvoli.

Varðandi næstu aths. hæstv. sjútvrh. þá lýsti hann andstöðu við hugmyndina um að skattyfirvöld gætu talið fram fyrir aðila og sagði: Fólk á auðvitað að setja sig inn í þessi mál sjálft. Allt er það rétt, en staðreyndin er sú að mikill fjöldi af fólki er með innibyrgðan, liggur mér við að segja, ákveðinn ótta gagnvart þessum pappírum sem það þarf að útfylla. Af einhverjum ástæðum er það svo. Það hefur verið reynt í a.m.k. einu nágrannalandi okkar að gefa fólki kost á því, fólki sem er með einfaldan fjárhag, segjum t.d. bara elli- og örorkulífeyri að lifa af, að það geti sloppið við þessi venjulegu framtöl. Það væri fróðlegt ef fjmrn. kynnti sér hvernig þarna hefur til tekist.

En þessi hugmynd er flutt hér í tillöguformi vegna þess að það er nauðsynlegt að þetta mál sé rætt einmitt núna þegar ætlunin er og í undirbúningi er að taka upp staðgreiðslukerfi skatta.

Í sjöunda lagi nefndi hæstv. sjútvrh. það og var sammála okkur um að það á að skattleggja fjármagnstekjur. Það er ein spurning mín til hæstv. fjmrh.: Hvenær er þess að vænta að ríkisstjórnin leggi fram tillögur um skattlagningu fjármagnstekna? Ég tel að þær eigi að skattleggja eins og aðrar tekjur. Því skyldu launin vera skattlögð 100% en þær tekjur sem menn fá af verðbréfum liggjandi inni í bönkum vera skattfrjáls? Auðvitað er ég hér að tala um tekjur umfram það sem kalla má einhverja raunávöxtun, en þetta er mál sem ég tel mjög brýnt að ræða og fá upplýsingar um hjá hæstv. fjmrh. og þess vegna er það flutt í þessu frv.

Hæstv. sjútvrh. nefndi svo í áttunda lagi að vafasamt væri að skylda skattrannsóknarstjóra til að gera úttektir á 100 fyrirtækjum, fyrirtækin væru misstór og allt er það rétt. En rökin með þessu eru þau að stundum vill þetta embætti svo að segja kaffærast í verkefnum sem berast og embættið hefur ekki svigrúm til þess að rannsaka holt og bolt framtöl annarra fyrirtækja eins og nauðsynlegt er. Fyrirtækin eru misstór. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra. Málið er hins vegar það að skattalög hafa verið þannig undirbúin og útbúin hér á landi að menn hafa verið hvattir til þess að stofna fyrirtæki svo að segja um sjálfa sig. Menn hafa farið betur út úr skatti ef þeir gátu stofnað fyrirtæki um sig sjálfa og símana sína og skrifborðin sín en ef þeir töldu fram sem venjulegir launamenn. Þessi fyrirtækjastofnunarhvati í skattakerfinu er örugglega ein stærsta meinsemd íslenska skattakerfisins og hefur örugglega svipt ríkið tekjustofnum upp á stórkostlegar fúlgur. Þess vegna held ég að bæði með eftirliti og með nýjum ákvæðum í skattalögum sé nauðsynlegt að draga úr þessum áhuga manna á því að búa til pappírsfyrirtæki sem eru ekkert nema pappír.

Hvað eru mörg fyrirtæki á Íslandi? Hvað eru mörg fyrirtæki í þessu litla landi? Ætli þau séu ekki 25 þúsund. Hvaða vit er í því að kalla 25 þúsund fyrirtæki fyrirtæki, þar sem stór hluti af þessu eru engin fyrirtæki heldur pappír fyrir einhverja örfáa eða einn einstakling? Þetta er tóm vitleysa. Og þegar talað er um að rannsaka 100 fyrirtæki a ári væru kannski eins og 80–90 fyrirtæki af þessum 100 smáfyrirtæki með einn, tvo eða kannski þrjá menn í vinnu, 10% eða svo væru einhver alvörufyrirtæki, fyrirtæki sem gerðu eitthvað annað en að vera til til þess að auðvelda eigendum sínum að telja fram til skatts um áramót og sérstaklega létta þeim byrðina þegar skattseðillinn kemur á sumrin. Þess vegna held ég að svona leiðbeiningarákvæði fyrir ríkisskattstjóra í lögum um tekju- og eignarskatt sé fyllilega réttlætanlegt og nauðsynlegt.

Ég er alveg sammála hæstv. sjútvrh. um að lög breyta ekki öllu í þessum málum. Ég er líka sammála honum um að jafnvel þó að þetta frv. yrði að lögum í heilu lagi mundi það ekki á einni nóttu gjörbreyta allri framkvæmd skattamála. Hér þarf auðvitað fjöldamargt fleira að koma til. En hugsunin á bak við frv. er fyrst og fremst sú að einfalda skattalögin að því er fyrirtækin varðar, fækka smugum og auðvelda eftirlitsaðilum þeirra störf því að við teljum að það sé skynsamlegra að byrja á fyrirtækjum með þessum hætti en einstaklingum með því að leggja á þá matarskatt eins og núv. ríkisstjórn hefur gert.

Ég segi það eins og er að ég fagna því alveg sérstaklega að hæstv. sjútvrh. lýsti stuðningi við þá hugmynd að stofnaður verði sérstakur skattadómstóll. Það tel ég mikil tíðindi, ekki aðeins vegna þess að maðurinn er ráðherra, heldur líka vegna þess að hann þekkir vel til þessara mála úr sínu starfi áður en hann fór að sinna stjórnmálum. Ég tel að það sé rétt sem hann sagði: Það er ekki nægilega góð reynsla af dómskerfinu í þessu efni. Það er auðvitað þannig að það eru takmörk fyrir hvað á að setja upp marga sérdómstóla. Það er líka hárrétt. Það getur hins vegar verið rétt að setja tímabundið upp dómstól til að fjalla um mál af þessu tagi, tímabundið meðan verið er að uppræta óvenjualvarlega þjóðfélagslega meinsemd, óvenjualvarlega og útbreidda, sjúkdóm sem læsir sig svo að segja um allt þjóðfélagið.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti, og vænti þess að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að svara nokkru þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hans.