18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt líka að fagna orðum hæstv. heilbrmrh. og þar sem ég sit í hv. heilbr.- og trn. Ed. mun ég sannarlega reyna að vinna að því í nefndinni að breyta frv. á þann veg að þessi tímafrestur styttist því eins og kom fram í máli mínu áðan tel ég afar mikilvægt að heilsugæsluþjónusta komist á sem fyrst á höfuðborgarsvæðinu öllu eins og þegar er orðið í flestum byggðum úti á landi og er einungis sjálfsagt vegna þess að hagsmunir sjúklinga og annarra krefjast þess. Þetta er þar að auki staðfest stefna löggjafans í heilbrigðismálum eins og segir í lögum nr. 59 frá 1983, um heilbrigðisþjónustu.