18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

197. mál, vörugjald

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þegar þessi mál voru til meðferðar, vörugjald og söluskattur, eina sæla nótt ekki fyrir löngu voru nokkrar umræður um hvaða talnagrunn fjmrn. hefði á bak við niðurstöður sínar varðandi tekjuöflun á árinu 1988. Það var hv. 8. þm. Reykv. sem hóf þá umræðu og í framhaldi af henni óskaði ég eftir því við hæstv. fjmrh. að fram kæmu upplýsingar um á hvaða forsendum fjmrn. byggði spá sína um tekjur á árinu 1988 og með hvaða hætti fjmrn. metur í þeim gögnum sem hér liggja fyrir samdrátt í tekjum vegna breytinga á vörugjaldi og tolli, hvaða breytingar yrðu á tekjum ríkisins vegna veltubreytinga milli áranna 1987 og 1988, hvaða breytingar yrðu vegna þess að skattstofnunum er breytt og við lok þessarar umræðu óskaði ég eftir því við hæstv. fjmrh. að hann veitti deildinni upplýsingar um þennan talnagrunn lið fyrir lið.

Ég sagði þá að ég gæti fyrir mitt leyti fallist á að þessar upplýsingar kæmu ekki fyrr en við 3. umr. málsins. Því miður hef ég ekki fengið þessar upplýsingar í hendur enn þá og óska eftir því, herra forseti, að fjmrh. verði kvaddur á fund deildarinnar og látinn gera grein fyrir því hvernig miðar tilraunum hans til að láta embættismenn taka saman svör við þessum spurningum. Ég hefði satt að segja haldið að fjmrn. hefði þessar upplýsingar því að á grundvelli þeirra hlýtur öll talnasúpan að byggjast sem hér er til meðferðar og ætti þar af leiðandi að vera einfalt að reiða fram þau svör sem hér er um að ræða. Ég vil því fara fram á við hæstv. forseta þessarar deildar að hann stuðli að því að hæstv. fjmrh. komi til fundar við deildina og geri grein fyrir svörum sínum við þeim spurningum sem ég og hv. 8. þm. Reykv. báru fram hér á dögunum.

Ég vil taka það fram áður en ég held áfram umræðum um þetta mál sérstaklega að ég get fyrir mitt leyti vel stutt brtt. sem nefndarmenn úr meiri hl. flytja varðandi steinull sem af misgáningi hafði verið skráð öðruvísi en ætlunin hafði verið. Í framhaldi af því hafa menn reyndar haft í flimtingum hér í húsinu síðustu klukkutímana að það væri kannski rétt að hafa í þessum lögum öllum, sem hér eiga að verða til, bráðabirgðaákvæði sem hljóðaði eitthvað á þessa leið:

Ráðherra er heimilt að leiðrétta þær villur sem þinginu urðu á við meðferð mála fyrir hátíðar, enda sé augljóslega um leiðréttingar að ræða að bestu manna yfirsýn.

Sérstaklega verði þá haft samstarf við formann nefndarinnar um málið, hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég er alveg viss um að flestir fulltrúar úr stjórnarandstöðuflokkunum væru tilbúnir að taka þátt í þessu vegna þess að í rauninni geta orðið alveg hrikaleg afglöp í afgreiðslu einstakra mála á þessum stundum sem verið er að pína þessi mál í gegn. Þó að við segjum sem svo: Þið berið ábyrgð á málunum, þá erum við auðvitað svo ábyrg að við mundum að sjálfsögðu hjálpa til við einfaldar leiðréttingar ef á því þyrfti að halda. Gamanlaust held ég satt að segja að þessi mál séu í býsna miklum graut og það sé í raun og veru óljóst margt í þeim efnum og væri fróðlegt ef blöðin t.d. hefðu skoðanakönnun daginn sem menn ganga út úr þinghúsinu og spyrðu þm. hvern fyrir sig: Hvað varstu nú að gera, vinur kær, fyrir þjóðina þína þessa daga áður en þinginu lauk? Mætti kannski leggja fyrir menn spurningar um einstök atriði þó að við munum náttúrlega lengi, af því að við höfðum svo gaman af því, hvernig á að fara með vélbindingu heys og munum líka hvernig á að fara með innflutning gervihnatta og skriðdreka. Sömuleiðis munum við eftir tollum á ilmvatni og skatti á matvörur. En ýmis einstök mál hygg ég að hefðu getað farið fram hjá okkur og væri býsna fróðlegt ef þjóðin mætti nema það í gegnum hina opnu fjölmiðla og það yrði gerð skoðanakönnun, þegar við göngum héðan vansvefta út úr húsinu á miðri Þorláksmessu eða svo, og spurt: Hvað varstu að gera, vinur sæll, fyrir þjóðina þína? Satt að segja hygg ég að slík skoðanakönnun væri fróðlegri en flestar aðrar sem hafa farið fram í seinni tíð.

Mér hefur verið bent á að hæstv. fjmrh. sé í ræðustól í Nd. og ef svo er er náttúrlega ekkert annað að gera en gera hlé á málinu, taka fyrir önnur mál eða hvernig sem forseti vill hafa það. Ég tel ekki kleift að halda umræðunni áfram öðruvísi en hæstv. ráðherra sé viðstaddur. Vænti ég þess að forseti taki tillit til þeirra frómu óska eins og annarra sem fluttar eru af sanngirni af deildarmönnum í þessari virðulegu deild.