21.10.1987
Efri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

9. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Skattar eru það verð sem við borgum fyrir að búa í siðmenntuðu samfélagi. Fyrir kosningar vitnuðum við jafnaðarmenn ósjaldan í þessi orð sem eru klöppuð í stein fyrir ofan aðalskattstofu Bandaríkjanna og mun vera texti frá 18. öld. Það er ánægjuefni að umræðan um þessi mál gerist talsvert málefnalegri en hún virtist ætla að verða í upphafi. Það er undan engu að kvarta um þessa umræðu. Hún hefur verið málefnaleg og jákvæð.

Menn segja: Það þarf að ríkja stöðugleiki í framkvæmd skattakerfisins. Það þarf að takast samstaða, ekki aðeins samstaða á þingi heldur pólitísk samstaða með þjóðinni, um víðtækar breytingar á skattakerfinu. Það þarf að nást sem mest samstaða um í hvaða átt er stefnt, þ.e. um þá stefnubreytingu sem boðuð er. Allt er þetta satt og rétt. Aðalatriðið í þeirri stefnubreytingu sem verið er að boða er að í stað þess að ætla að mæta óskum einstakra hópa um sérstöðu, sérstök réttindi, undanþágur, frádrætti frá almennum reglum skattalaganna sem oft er auðvelt að rökstyðja með allra handa sérstöðu fólks, í stað þess að bora endalaust göt á skattakerfið, oft af góðum huga um slíkar undanþágur, eru menn að segja: Í ljósi reynslunnar af slíkum undanþágum og frádráttarleiðum, bæði að því er varðar megintekjustofn ríkisins, söluskatt, og að því er varðar tekjuskattslög, skulum við læra. Við skulum taka upp nýja stefnu sem er í því fólgin að gera skattakerfið eins einfalt og mögulegt er, tekjuskattana svo einfalda í staðgreiðslukerfi skatta að það umkvörtunarefni hverfi að það sé mönnum kvíðaefni á ári hverju að þurfa að telja fram til skatts. Jafnvel það virðist mönnum svo flókið að þeir þurfi að leita á náðir sérfræðinga. Við skulum létta þessu af þjóðinni. Við skulum gera þetta svo einfalt að það sé á hvers manns færi um leið og hann tekur við sínum launagjöldum að því er varðar launþega að sjá í hendi sér hvað það er sem hann greiðir til skatts. Og við skulum gera skattaframkvæmd í söluskatti, þar sem það er fyrst og fremst verslun og þjónusta sem er vörsluaðili almannafjár og á að standa skil á því, svo einfalda að hægt sé að hafa eftirlit með kerfinu, það sé einfalt mál að beita viðurlögum ef alvarlega út af ber.

Í þessu fyrst og fremst er sú stefnubreyting fólgin sem verið er að ræða um. Hún byggist á langri reynslu af því með okkar þjóð að sú leið sem áður var farin, að fjölga undanþágum og frádráttarliðum í nafni einhvers góðs málstaðar, hafi ekki gefið góða raun. Þetta er niðurstaða af reynslu margra þjóða af framkvæmd skattastefnu á undanförnum árum og áratugum. Stjórnmálamenn vilja oft og tíðum koma fram einhverjum breytingum og hafa oft tengt það breytingum á skattalögum. Menn vilja hvetja fyrirtæki til fjárfestingar. Hvers vegna ekki að tengja það skattfríðindum? Menn vilja auðvelda fólki húsnæðisöflun. Hvers vegna ekki að tengja það skattfríðindum? Menn vilja styrkja kjaralega stöðu fólks í einhverjum atvinnugreinum. Hví þá ekki að tengja það skattfríðindum? Og að lokum eru undanþágumar orðnar svo margar að menn geta ekki lengur hönd á fest, málið er orðið svo flókið að það er ekki lengur á færi manna að telja fram og að lokum sitja menn uppi með kerfi að því er varðar fyrirtæki þar sem gilda tvenns konar lög. Annars vegar þau framtöl sem sýnd eru skattyfirvöldum þar sem spilað er á frádráttarliði og undanþágur og hins vegar það bókhald sem menn hafa sem stjórntæki í sínum rekstri og á fyrst og fremst að gegna því hlutverki að gefa mönnum áreiðanlegar og réttar upplýsingar um raunverulega stöðu fyrirtækis. Þetta er stefnubreytingin.

Ég held að þessi umræða og málflutningur hv. 7. þm. Reykv., formanns Alþb., leiði í ljós að það er miklu víðtækari samstaða um þetta mál en maður kynni að hafa ætlað af ýmsum öðrum upphrópunum sem maður hefur heyrt í þessum umræðum að undanförnu.

Það er líka athyglisvert að þó að þessi úttekt á umfangi skattsvika, sem oft hefur verið vitnað til, sé þannig til komin að hún fékkst fram við samþykkt Alþingis á þáltill. sem þm. Alþfl. fluttu er það líka athyglisvert að formaður nefndarinnar sem skýrslunni skilaði er Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri eins helsta stéttarfélags landsins, Dagsbrúnar, og áhrifamaður í einhverjum mæli og a.m.k. enn sem komið er í Alþb. Ég held því að ekki sé undan því að kvarta, það er bærileg samstaða um þetta. Það er enginn ágreiningur um það að við vorum komnir í þrot að því er varðaði skattalöggjöf í mjög stórum og alvarlegum veilum.

Það er kominn upp trúnaðarbrestur milli fólks og stjórnvalda að því er varðar framkvæmd skattalaga. Það er við því að búast að það geti ekki verið mikill stöðugleiki um löggjöfina þegar svo er komið. Það er ástæða til þess fyrir hv. alþm. að huga að framkvæmdinni. Hvað erum við að leggja á fólk með svo flókinni löggjöf sem við ætlum að framfylgja? Er ekki ástæða til að hafa það í huga? Hver er geta skattstofanna í umdæmunum úti á landi til þess að fjalla á faglegan hátt um fyrirtækjaframtöl? Ég vitna bara ósköp einfaldlega til viðtala minna við þá sem í þessum verkum eiga að standa, m.a. á skattstjóraráðstefnu sem haldin var á Akureyri sl. sumar. Og ég vitna til viðræðna við ríkisskattstjóraembættið og skattrannsóknarembættið núna í ágústmánuði af hálfu fjmrn. Hafi mér ekki verið það nægilega ljóst áður veit ég það nú að það sem þessum aðilum er ætlað að gera er langtum meira og viðameira verk en er á þeirra færi eins og að þeim er búið. Löggjöfin er á margan hátt allt of flókin. Geta þeirra til að hafa á að skipa nægilega sérfróðum mönnum til þess að standa sína plikt gagnvart þeim herskara sérfróðra manna sem fyrirtækin hafa í sinni þjónustu er of lítil. Viðleitni forvera míns, hæstv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar á sinni tíð, til þess að fjölga mönnum í skattkerfinu gaf að lokum ekki góða raun vegna þess að því sem næst enginn er eftir af þeim sem þá voru ráðnir. Mér er sagt að þeir séu fjórir.

Góður vilji öngva gerir stoð — ef menn ekki eru reiðubúnir til þess að meta raunsætt þær ábendingar og þær tillögur sem komið hafa fram um undirstöðuatriðin. Undirstöðuatriðin eru breytingar á löggjöfinni sjálfri. Hverju er ætlunin að ná fram með því? Við ætlum að einfalda löggjöfina svo mjög að að því er launþega varðar sé þetta ekkert dularfullt eða flókið mál eða sérstakt áhyggjuefni að telja fram. Það sé einfalt mál og auðskilið. Við viljum líka einfalda löggjöfina að því er varðar fyrirtækin og við viljum sér í lagi fara að tillögum skattsvikanefndar um að einfalda löggjöfina um söluskatt þannig að hún sé í reynd framkvæmanleg.

Ég skora á hv. alþm. að ræða það við þá sem eiga að standa að framkvæmd núv. söluskattskerfis, ræða það við þá sem eru ábyrgir fyrir framkvæmdinni, spyrja einföldustu spurninga um það hvernig þeim málum sé komið, hvernig uppgjörsaðferðir séu, hvaða eftirlit sé um að ræða, og þeir munu fljótlega komast að því að það eru síst ýkjur sem eru niðurstöður svokallaðrar skattsvikanefndar að þetta kerfi er óframkvæmanlegt.

Ef menn hins vegar fást til þess að kynna sér það og komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé rétt mat hjá þeim sem gerst til þekkja og hafa staðið að framkvæmdinni árum og áratugum saman held ég að menn ættu fljótlega að draga af því rökrétta ályktun, þá að fara ekki mikið með upphrópanir um matarskatta heldur átta sig á því að sú breyting er stærsta og þýðingarmesta breytingin að því er varðar tekjustofna ríkisins, þetta er veigamesti þátturinn. Stærsta og þýðingarmesta breytingin er sú einmitt að fækka undanþágum að því er það varðar.

Það er hverju orði sannara sem hv. málshefjandi sagði. Núv. ríkisstjórn ætlar að færast mikið í fang í skattamálum. Samkvæmt starfsáætlun hennar er gert ráð fyrir því að taka tekjustofnakerfið í heild sinni til endurskoðunar á tveimur árum. Samkvæmt þeirri skrá, á bls. 221 í grg. með fjárlagafrv., er þar verið að boða mjög viðamiklar breytingar. Ég vænti þess að í ljósi þeirrar samstöðu um undirstöðuatriði megi búast við góðu samstarfi á þingi um slíka löggjöf. Ástæðan fyrir því að svona mikið er færst í fang er auðvitað sú að reynslan kennir okkur, við höfum ummæli þeirra sem stýrðu þjóðarbúi í fyrrv. ríkisstjórn, bæði fyrrv. hæstv. forsrh. og fjmrh., að skattakerfið væri í molum.

Það er hins vegar ekki nóg að telja bara upp listann og segja: Þetta er æðimikið verk. Við skulum líka hafa í huga að margt af þessum málum á sér mjög langan aðdraganda. Ég nefni t.d. lög um nýja tollskrá. Það mál hefur þegar verið unnið tæknilega á löngum tíma. Það hefur áður verið lagt fram hér á Alþingi. Það er nú í endurskoðun. Það er skatthreinsunaraðgerð í raun og veru. Það er skref í átt til þess að einfalda tollalöggjöfina, samræma tollmeðferð skyldra vara. Í gær var undirrituð af fjmrh. auglýsing um hina nýju tollaskrá eða tollflokkunarkerfi sem er síðan forsenda endurskoðunar á tolltöxtum. Þetta verk er m.ö.o. allvel á veg komið. Það sem nú er verið að gera er endurskoðun þess út frá ýmsum öðrum matsþáttum eins og t.d. verðlagsáhrifum. Sama er að segja um lögin um söluskatt, breytingar á þeim. Þau hafa verið í undirbúningi alllengi og það hefur þegar verið stigið skref í átt til breytinga. Lög um breytingar a lögum um launaskatt eru ekki mjög flókin löggjöf. Þetta er breyting í átt til þess sem áður hefur tíðkast. Það sem fyrst og fremst þarfnast ítarlegrar rannsóknar og athugunar er ekki það sem hér er á dagskrá, þ.e. skattlagning fyrirtækja og samspilið milli skattlagningar fjármagns og eignatekna annars vegar og breytinga á skattameðferð hlutafjár.

Hvenær er þess að vænta að þessi frumvörp verði lögð fram? Ég ætla ekki að nefna dagsetningar í því efni, en það er ljóst að það verður nú á næstu vikum og e.t.v. má búast við því að þau frumvörp verði lögð fram hvað fyrst sem kannski kalla á hvað minnstan undirbúning. Þar er um að ræða frv. um breytingar á lögum um launaskatt og um gjaldtöku af varnarsvæðum. Það þarfnast ekki mjög mikils eða flókins undirbúnings.

Að því er varðar staðgreiðslukerfið er á það að benda að það mál hefur verið í umfjöllun þings. Lögin voru samþykkt á seinasta þingi. Margar ábendingar komu fram um nauðsyn endurskoðunar í umfjöllun þingsins. Úr því hefur verið unnið í sumar. Það mál er í umfjöllun milliþinganefndar. Um það hefur tekist, að því er ég best veit, bærileg samstaða og það hefur unnist vel og skilmerkilega í milliþinganefndinni.

Að því er varðar einstök atriði. Þriðja greinin, um getu forstöðumanna fyrirtækja til þess að færa hvers kyns persónuleg útgjöld á rekstur fyrirtækja. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. sjútvrh. að þetta er ekki gert í skjóli löglegra réttinda, en ég er sammála hv. flm. um það að með því að herða enn á reglum um þau efni að því er varðar reglugerð og leggja aukna áherslu á eftirlit og úrvinnslu á framtölum fyrirtækja, með þeirri breytingu sem ég hef áður lýst að úrvinnsla fyrirtækjaframtala fari fram í heild sinni á einum stað á vegum embættis ríkisskattstjóra, hvort tveggja þetta mundi verða til bóta.

Sama er að segja um þau ákvæði er varða staðgreiðslukerfi einstaklinga, sem varða hlunnindagreiðslur, bifreiðastyrki, dagpeninga o.s.frv.

Eigum við að stefna að því að skattstofurnar auki þjónustu við skattgreiðendur? Ég er eindregið þeirrar skoðunar að svo sé. Ég segi enn fremur að ef við framfylgjum tillögum skattsvikanefndar á þann veg að fyrirtækjaframtölin verði meira í skoðun hjá ríkisskattstjóraembættinu, þá gefst svigrúm til þess að breyta nokkuð hlutverki skattstjóranna í umdæmunum, í hverju einstöku umdæmi, í þá átt að efla þjónustu við framteljendur. Einföldun staðgreiðslukerfisins er stærsta breytingin hins vegar í þá átt.

Að því er varðar spurningarnar um úttektir á einstökum fyrirtækjum þá er það mjög eðlilegur þáttur í skattframkvæmd. Sér í lagi væri það fýsilegur kostur til þess að herða eftirlit ef Alþingi gegnir skyldum sínum og styður tillögur sem hér liggja fyrir um einföldun söluskattskerfisins því að þá væri það miklu veigameiri þáttur. Að óbreyttu kerfi er það samkvæmt upplýsingum þeirra sem í málunum standa nánast vonlaus hlutur vegna þess að kerfið hefur ekki getu til úrvinnslu jafnvel þótt slík úttekt færi fram með reglubundnum hætti.

Það er rétt sem fram kom í máli flm. að það er margt í núverandi löggjöf sem hvetur einstaklinga beinlínis til þess að stofna um sjálfa sig fyrirtæki. Það er kunnugt um t.d. þann þátt málsins þegar einstakir launþegar breyta sjálfum sér og skattframtali í verktaka vegna þess að þeir telja vera að því ákveðið skatthagræði. Allt ber þetta að sama brunni. Stærsta breytingin sem við gætum gert, þýðingarmesta breytingin, undirstöðumálið, er einföldunin á löggjöfinni. Um leið og það er gert opnast nýir möguleikar á bættri skattframkvæmd og auknu eftirliti.

Af því að við erum að tala um samstöðu í þessum málum, þá vildi ég að lokum leyfa mér að renna hér yfir meginatriðin í samþykkt aðalfundar miðstjórnar Alþb. sem fylgir hér í grg. og stikla þar á nokkrum atriðum. Þar segir:

„1. Skattkerfinu verði breytt til þess að tryggja að allir leggi af mörkum til sameiginlegra þarfa landsmanna.“ Sammála. Að því er verið að vinna. Þessar skattkerfisbreytingar stefna að því. Ég minni sérstaklega á að að því er varðar aukna tekjuöflun ríkissjóðs eins og gerð er grein fyrir í fjárlagafrv. þá er gætt jafnvægis milli þess sem þar er lagt á, neysluskatta sem almenningur greiðir og auknar kröfur til fyrirtækja í landinu.

„2. Skattleysi eignamanna, hátekjufólks og gróðafyrirtækja gegnum háþróað net frádráttarliða og sérreglna verði afnumið.“ Það er rétt. Að því er stefnt. Það mál er í undirbúningi og svipaðar yfirlýsingar er að finna í starfsáætlun stjórnarinnar.

„3. Tekjuskattskerfið verði einfaldað bæði að því er varðar framtöl og skattlagningu.“ Sammála. Það er verið að vinna að því.

„4. Frádráttarheimildum fyrirtækja og einstaklinga í rekstri verði fækkað.“ Sammála. Að því er unnið.

„5. Skattfrelsismörk einstaklinga verði hækkuð verulega.“ Sammála. Í þá átt stefnir það.

„6. Með þessu verði skattbyrði almenns launafólks minnkuð en skattar fyrirtækja auknir.“ Það er það sem fjárlagafrv. boðar.

„7. Komið verði á stighækkandi stóreignaskatti.“ Um það er ekki samstaða í þessari ríkisstjórn. Um það höfðum við flutt mál hér á árunum 1984–1985. Við hurfum hins vegar frá því að flytja þau á seinustu tveimur þingum. Þau var ekki að finna í kosningastefnuyfirlýsingu Alþfl. Og hvers vegna ekki? Vegna þess að við vildum vinna að samræmingu á heildarlöggjöf um meðferð eignarskatts og eignartekna og að því er unnið.

„8. Tekið verði upp staðgreiðslukerfi skatta.“ Að því er stefnt.

„9. Skattaeftirlit verði hert.“ Það er í undirbúningi.

„10. Viðurlög við skattsvikum verði látin bíta í raun.“ Ef með þessum orðum er átt við það að viðurlög verði endurskoðuð, bæði að því er varðar bókhald og einstök mál, þá er að því unnið samkvæmt tillögum skattsvikanefndar.

„11. Settur verði upp sérstakur skattadómstóll.“ Það er mikið álitamál. Forgangsmálin sem menn telja að þurfi að vera í dómskerfinu eru orðin mörg. Það eru uppi kröfur um að mál eins og t.d. fíkniefnamál hafi sérstakan forgang. Það er verið að ræða um það að kynlífsafbrot margvísleg þurfi að fá sérstakan forgang. Það er verið að ræða um það að skattamál þurfi að fá sérstakan forgang og fleiri mál. Það er uppi hávær gagnrýni á það að skattakerfið ráði illa við þessa þætti, þ.e. flókin efnahagsleg mál eða fjárhagsmál fyrirtækja. Það er mikið rétt. Það þarf að vinna að því að bæta meðferð dómstóla. Það þarf að auka getu þeirra til þess að ljúka slíkum málum á eðlilegum tíma og sérfræðikunnáttu þeirra til þess. Ég er ekki endanlega sannfærður um það að leiðin sé sú í hverju málasviði að búa til nýja dómstóla um sérstök mál, en það er ljóst að það verður að efla getu réttarfarskerfisins, dómstólakerfisins á þessu sviði.

Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en það sé bærileg samstaða um það sem eru meginatriðin í þessum málum sem hér hafa verið til umræðu og að því leyti tel ég að þessi umræða hafi verið málefnaleg og af hinu góða.