18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrirvari minn þegar ég skrifaði undir nál. fjh.- og viðskn. um þetta mál lýtur að tvennu.

Í fyrsta lagi að því að tryggt verði að svokallaðir vasapeningar aldraðra og öryrkja verði ekki skertir með sköttum. Ég hef satt að segja ekki fengið neinar yfirlýsingar um það frá hæstv. fjmrh. hvernig hann hyggst standa að því, enda má segja að það sé rétt og það er rétt, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. benti á, að ákvæði um þetta efni ætti að réttu lagi að koma inn í lög um tekju- og eignarskatt sem koma hér síðar til meðferðar og eru hluti af þessu máli. Þess vegna geri ég engar athugasemdir við frekari framgang málsins af þessari ástæðu. Og ég þakka hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir það sömuleiðis að meiri hl. nefndarinnar tekur eindregið undir þennan fyrirvara. Ég skil það svo að það sé fullur stuðningur allra flokka við þetta sjónarmið.

Hitt atriðið sem veldur því að ég skrifa undir með fyrirvara er kynningin á staðgreiðslukerfinu. Ég óttast að hún sé ekki nógu góð. Það er ekkert hægt um það frekar að segja vegna þess að þarna veldur hver á heldur, þ.e. embætti ríkisskattstjóra og fjmrn. verða að bera ábyrgð á kynningunni, en ég vara við því að ef illa verður að kynningunni staðið gæti þetta mál farið í hnút. Það væri slæmt ef svo þýðingarmikil kerfisbreyting mistækist að einhverju leyti vegna þess að kynning hefði ekki verið nógu góð.

Að öðru leyti, herra forseti, er ég sammála frv. svo og því frv. sem er næst á dagskrá varðandi gildistöku staðgreiðslukerfisins.