18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Það vakti athygli mína fyrirvari sem gerður er af þm. stjórnarandstöðunnar varðandi afgreiðslu frv. sem kemur fram í nál. Það kom mér svolítið á óvart að slíkur fyrirvari skyldi þurfa að koma frá þeim. Því gladdi það mig að heyra yfirlýsingu hv. 2. þm. Norðurl. e., formanns og frsm. nefndarinnar, þegar nefndin öll tók heils hugar undir þennan fyrirvara svo sjálfsagt sem það er að tryggja að vasapeningar aldraðra og öryrkja á stofnunum verði undir engum kringumstæðum skertir með sköttum. Það kemur manni á óvart að það skuli þurfa að taka slíkt fram, en til öryggis er eðlilegt að gera það, eins og hér hefur komið fram, miðað við hvernig þetta er í frv. Ég vildi taka heils hugar undir þennan fyrirvara.

Þá langar mig einnig að taka undir það sem hér hefur verið sagt um þörfina á kynningu á staðgreiðslukerfinu eða þessari kerfisbreytingu. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. við 2. umr. þessa frv. þegar hann benti á að það væri skynsamlegt og kannski nauðsynlegt að fulltrúar frá skattstjóra kæmu t.d. inn á dvalarheimili aldraðra til að aðstoða fólk og leiðbeina því og upplýsa það um framkvæmd þessara mála. Þó að manni finnist þetta vera svo einfalt er það áreiðanlega vel þegið og mikið öryggi ef hægt yrði að koma slíkri kynningu á. Auðvitað vitum við að það hefur margt verið gert til að kynna þessa kerfisbreytingu, eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Reykv., en það er aldrei of mikið gert af því og sérstaklega varðandi þá aðila sem eiga ekki að greiða skattinn en jafnvel standa í þeirri trú að svo sé. Til að létta þessum áhyggjum af öldruðu fólki held ég að það sé þess virði að slík kynning færi fram á þessum heimilum eins og hv. 7. þm. Reykv. kom fram með.