18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

180. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Aðeins í tilefni af þessu umræðuefni um vasapeninga þeirra bótaþega almannatrygginga sem á dvalarstofnunum dvelja. Þessu máli var hreyft af hv. 7. þm. Reykv. við fyrri umræðu málsins og þá þegar daginn eftir tók ég það upp við mína starfsmenn í fjmrn., lýsti málinu og óskaði eftir því að tillögum um undanþágu dagpeninga frá skattskyldu yrði komið á framfæri við fjh.- og viðskn. og var tjáð núna í morgun að sú orðsending hefði verið send síðdegis í gær. Hins vegar verð ég að játa að vegna fundahalda í morgun var ég ekki búinn að berja augum textann sjálfur, en ég mun ganga úr skugga um hvort þetta er ekki komið rétta leið og það er auðvitað rétt ábending að æskilegast er að koma þessu á framfæri við fjh.- og viðskn. Nd. til þess að spara tímann.