18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

196. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. létum við ekki fylgja með okkar brtt. tilmæli frá Sambandi rafveitna um breytingu á orðalagi 4. tölul. 7. gr. sem nú orðast svo í lögum: „Efni, vélum og tækjum í raforkuver, hitaveitur og vatnsveitur“. Það sé heimilt að fella söluskatt niður á eftirfarandi tækjum. Við leggjum til að í staðinn fyrir orðið „raforkuver“ komi: raforkuveitur og teljum m.ö.o. að eðlilegt sé að hið sama gildi um þær og hitaveitur og vatnsveitur.

Ég hef fyrir okkar hönd og e.t.v. nefndarinnar allrar flutt þessa brtt. og tek jafnframt undir þá brtt. sem liggur frammi að ég hygg frá hv. 7. þm. Reykv. og e.t.v. fleirum varðandi 5. tölul. Síðasta setningin þar orðast svo: „Sama á við um sérbúnað bifreiða sem sveitarfélög kaupa til notkunar við flutning á fötluðu fólki.“ Ég legg til í brtt. á þskj. 354 að niður falli setningin „sem sveitarfélög kaupa“ þannig að heimild fjmrh. til að fella niður eða endurgreiða söluskatt af sérbúnum bifreiðum til notkunar við flutning á fötluðu fólki verði almenn en ekki bundin við sveitarfélögin.

Ég býst við að um þetta sé samkomulag í nefndinni og þakka þeim hv. þm. sem vöktu athygli á þessu.