21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

29. mál, framhaldsskólar

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir rúmu ári var hér á ferð nefnd sérfræðinga frá Efnahags- og framfarastofnuninni er nefnd er OECD á erlendum málum. Þessi nefnd var hér á ferð til að kynna sér stöðu skólamála. Hún skilaði skýrslu og þar kom fram að nefndinni þótti skipulag framhaldsskólans á Íslandi heldur bágborið. Nefndarmenn undruðust mjög að ekki skyldi vera fyrir hendi nein heildarstefna í málefnum framhaldsskólans og bentu hreinlega á að löggjafinn mundi hafa vanrækt að setja slíka heildarlöggjöf.

Þessi niðurstaða kom vissulega engum á óvart, a.m.k. ekki þeim sem til þekkja. Það er ekki aðeins að markmið og stefnu vanti í málefnum framhaldsskólans, þar er á ferðinni margvísleg mismunun og ranglæti. Verkmenntun nýtur t.d. ekki jafnræðis á við bóknám. Sveitarfélög njóta ekki jafnræðis sín í milli. Í kerfinu eru æðimargar blindgötur og kerfið er almennt illa samræmt.

Frv. það, sem við alþýðubandalagsmenn höfum lagt hér fram og er á þskj. 29, er flutt til að vekja umræðu um málefni framhaldsskólans og til að ýta á eftir lagasetningu um þessi efni. Við erum ekki að halda því fram að efni frv. sé einhver stórisannleikur, hér sé hin eina rétta lausn, því okkur er fulljóst að vissulega eru margar færar leiðir til að bæta úr ríkjandi ástandi, en frv. er flutt til að vekja athygli á ýmsum róttækum hugmyndum og nýmælum í skipulagningu framhaldsskólans sem við mælum sterklega með. Aðalatriðið frá okkar sjónarmiði er að sjálfsögðu að sett sé samræmd heildarlöggjöf um framhaldsskólann og það má ekki dragast.

Þetta frv, okkar er vissuleg mjög ítarlegt. Það er 44 greinar auk bráðabirgðaákvæða. Því væri eðlilegast að framsöguræða mín væri býsna löng. Ég vil samt reyna að forðast það því mér er kunnugt um að mörg verkefni liggja fyrir þessari hv. deild mitt í sláturtíðinni. Ég vænti þess einnig að hæstv. ráðherra sjái sér fært að gera hér grein fyrir stöðu þessara mála frá sjónarmiði ríkisstjórnarinnar. Ég mun því halda mig hér við þau atriði frv. sem helst geta talist stefnumarkandi nýmæli.

Í þessu frv. er afnumin sú mismunun sem verið hefur milli verknáms og bóknáms að því er varðar þátttöku ríkisins í fjármögnun skólahaldsins. Sömu kostnaðarákvæði gilda skv. frv. um allt nám á framhaldsskólastigi ef frá eru taldir sérgreinaskólar sem starfræktir eru fyrir landið allt. Lagt er til að ríkið kosti slíka skóla að öllu leyti.

Í öðru lagi er hér afnumin mismunun milli sveitarfélaga. Kostnaðarákvæðin eru sem sagt fullkomlega sambærileg gagnvart öllum sveitarfélögum í landinu. En í dag er þetta svo að þar sem verið er að byggja menntaskóla greiðir ríkið kostnaðinn að fullu, en þar sem verið er að byggja fjölbrautaskóla verða sveitarfélögin að taka verulegan þátt í byggingarkostnaði skólanna. Það er mjög tilviljunarkennt hvernig á stendur í hinum ýmsu landshlutum hvað þetta snertir.

Í þriðja lagi er reynt að tryggja með frv. sem greiðastar leiðir milli skóla og milli námsbrauta. Þetta er að sjálfsögðu gert til að reyna að koma í veg fyrir að nemendur rati inn á blindgötur og eyði verulegum tíma til ónýtis. Það er reynt að tryggja að allt nám þeirra nýtist sem best í framhaldinu, jafnvel þó skipt sé um skóla.

Í fjórða lagi er það mikilsvert atriði í þessu frv. að dregið er úr einhliða ákvörðunarvaldi menntmrn. og að sama skapi eru aukin áhrif fræðsluumdæmanna á stefnumótun og stjórnun framhaldsmenntunar.

Í þessu efni er frv. ætlað að ýta undir þróun, sem hefur verið að gerast, í þá átt að fræðsluumdæmin og hvert skólasamfélag axli aukna ábyrgð á þessu málasviði. Stefnt er að verulegri valddreifingu í málefnum framhaldsskólans. Fræðsluumdæmunum er ætlað að móta menntastefnu í mun ríkara mæli en verið hefur. Stjórneiningar í hverju umdæmi taka við mörgum verkefnum sem áður voru á hendi menntmrn. Meðal þátta sem ætlað er að stuðla að auknum áhrifum fræðsluumdæmanna má nefna:

Lýðkjörin fræðsluráð í hverju umdæmi sem fá það hlutverk að ráða til lykta á lýðræðislegan hátt málum er varða uppbyggingu skóla og framhaldsmenntunar. Uppeldismálaþing sótt af kjörnum fulltrúum sveitarstjórna í hverju fræðsluumdæmi og áhugaaðilum yrðu ráðgefandi aðili um stefnumótun varðandi framhaldsmenntun. Fræðsluráðunum er ætlað að ráðstafa innan hvers umdæmis því fjármagni sem veitt er á fjárlögum hverju sinni til stofnunar og reksturs framhaldsskóla í hverju umdæmi. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög stofni sérstakan sjóð, framhaldsskólasjóð, er nái yfir hvert fræðsluumdæmi fyrir sig, til að standa undir kostnaðarhlut sínum af rekstri framhaldsskólans. Síðan eru fræðsluskrifstofur í hverju umdæmi sem verða framkvæmdaaðilar fræðsluráðsins. En rétt er að taka skýrt fram að hér er gert ráð fyrir að það verði sömu fræðsluskrifstofurnar sem annist málefni grunnskólans og málefni framhaldsskólans þannig að hér er ekki um að ræða að koma á fót nýjum stofnunum og nýjum embættum fræðsluráða og fræðslustjórna, en ég hef aðeins orðið var við að þess misskilnings á tillögu okkar hefur gætt. Þarna yrði auðvitað um að ræða sömu fræðsluráðin og nú eru fyrir hendi, en þó með þeirri veigamiklu breytingu að þau yrðu kosin beinni kosningu í hverju fræðsluumdæmi en yrðu ekki tilnefnd af landshlutasamtökum sveitarfélaga og þau næðu yfir bæði skólastigin, grunnskólastigið og framhaldsskólastigið.

Hér hef ég rætt um mjög veigamikla hlið þessa frv., þ.e. valddreifinguna frá ráðuneytinu til fræðsluumdæmanna. Það finnst mér að sé í takt við tímann. En ég legg líka áherslu á annað meginatriði frv., að um sé að ræða valddreifingu frá ráðuneyti til skólastjórna og til skólastjóra, kennara og nemenda. Það er sem sagt aukið sjálfsforræði hvers skólasamfélags hvað varðar innra starf skólans, skólastjórnin skipuð fulltrúum kennara, nemenda og annarra starfsmanna, og það er þessi aðili, skólastjórnin, sem kýs skólastjórann og ræður kennara. Eins og kunnugt er er þessum málum skipað af hálfu menntmrn. í dag, reyndar að tillögu heimamanna. En hér er gert ráð fyrir að flytja þetta vald alfarið yfir til fræðsluumdæmanna.

Ég minnist þess, þegar ég var menntamálaráðherra fyrir bráðum áratug, hve óhemjumikið starf lá í því að setja og skipa kennara og skólastjóra. Það voru um 1600 bréf sem gefa þurfti út á hverju ári, yfirleitt í þríriti, og það var ekki lítill tími sem í það fór að ganga frá þessum málum.

Ég var strax þeirrar skoðunar þá og er það í enn ríkara mæli nú að miðstýring af þessu tagi, að ekki sé hægt að ráða kennara að skóla úti á landi án þess að undirskrift ráðherra komi til, heyri liðinni tíð til og sé ekki í takt við tímann.

Ég vil til viðbótar geta þess að sú kostnaðarskipting sem frv. gerir ráð fyrir er í fullu samræmi við tillögur sem fjölmennur hópur sveitarstjórnarmanna sendi menntmrh. fyrir tveimur árum, en þessi hópur hafði þá starfað um skeið og í honum voru fulltrúar ýmissa framhaldsskóla víðs vegar að af landinu ásamt nokkrum sveitarstjórnarmönnum. Þessi hópur hafði mjög víðtæk samráð um stefnumótun varðandi kostnaðarskiptingu og ég tel víst að ákvæði frv. séu því í fullu samræmi við viðhorf og skoðanir sveitarstjórnarmanna víða um land að ekki sé meira sagt.

Auðvitað er ljóst að sú tillaga sem frv. gerir ráð fyrir þarf ekki endilega að vera sú eina rétta sem til greina kemur, en það er í öllu falli tillaga og tilhögun sem nýtur víðtæks stuðnings meðal sveitarstjórnarmanna. Og með því er vissulega mikið fengið því að samþykkt þessa máls, þ.e. framhaldsskólafrv., hefur löngum strandað á ósamkomulagi um þessa hlið málsins.

Í frv. eru ákvæði um fullorðinsfræðslu og fjarnám. Það er gert ráð fyrir að Námsgagnastofnun gegni hlutverki fjarkennslumiðstöðvar og annist öflun og gerð námsefnis til fjarkennslu, svo sem myndbanda, hljóðbanda, tölvuforrita og prentaðs máls, en að Ríkisútvarpið annist útsendingu efnis til fjarkennslu eftir því sem þörf krefur. Í hverju fræðsluumdæmi yrði þá starfrækt ein fjarkennsluútstöð þar sem best þætti henta að mati fræðsluráðs. Enn má nefna það ákvæði frv. að mynduð sé svonefnd óháð eftirlitsnefnd þriggja manna er fengi það hlutverk að gera reglubundna úttekt á starfi og stöðu framhaldsskólans. Slík greiningarvinna gerð af mönnum með sérþekkingu í skólamálum gæti orðið til mikils stuðnings fyrir rannsókna- og tilraunastarf í hverjum skóla og þannig stuðlað að æskilegri þróun framhaldsmenntunar í heild.

Herra forseti. Ég legg á það áherslu að með þessu frv. er leitað jafnvægis milli miðstýringar og valddreifingar. Þannig er gert ráð fyrir að yfirstjórn menntmrn. felst einkum í samræmingu á námi með setningu rammanámsskrár, með fjárlagaáætlunum fyrir skólastigið í heild og með eftirliti og jafnframt hafi ráðuneytið forgöngu um umbætur í starfi framhaldsskólans, svo sem varðandi rannsókna- og tilraunastarf, samningu námsefnis eftir því sem þörf krefur og setningu reglugerða um einstaka þætti skólastigsins, en að öðru leyti sé valdið fært út til landshlutanna. Það er sem sagt ein veigamesta skipulagsbreytingin sem felst í þessu frv. að færa verkefni til lýðkjörinna fræðsluráða, sem ætlað er margþætt hlutverk, og þeim til aðstoðar yrðu síðan uppeldismálaþing í umdæmunum sem haldin væru ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti.

Ég held að varla verði um það deilt að dregist hefur úr hömlu að setja heildarlöggjöf um framhaldsskólann. Það er enginn vafi á að vanræksla löggjafans hefur tafið æskilega þróun framhaldsmenntunar og jafnframt valdið margs konar vandkvæðum og óvissu varðandi starfsemi og rekstur þessara skóla. Ég legg á það áherslu að lokum að frekari töf á því að hafist verði handa um skipulega uppbyggingu framhaldsmenntunar mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir skólastarf í landinu og alla þá sem leggja stund á framhaldsnám.

Við alþýðubandalagsmenn höfum margoft áður hreyft þessum málum hér á Alþingi, oft á tíðum einir flokka. Ég hef orðið var við að hugmyndir okkar hafa fengið mjög góðan hljómgrunn meðal skólamanna víðs vegar um land.

Ég vona að flutningur þessa frv. ýti á eftir því að hv. alþm. túki þessi mál föstum tökum og afgreiði löggjöf um framhaldsskólann og legg svo að lokum til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.