21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

29. mál, framhaldsskólar

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir minn hlut fagna því að þetta frv. skuli vera lagt fram nú og sérstaklega hversu snemma það er lagt fram á þessu þingi. Enn fremur vil ég lýsa sérstakri ánægju minni yfir orðum hæstv. menntmrh. af þessu tilefni. Þau gefa vissulega vonir um að nú dragi til tíðinda á þessum vettvangi.

Eins og fram kemur í 1. gr. þessa frv. til l. um framhaldsskóla eru nú liðin 13 ár frá setningu laga um skólakerfi, nr. 55 frá 1974. Allan þann tíma hefur verið gert ráð fyrir og raunar beðið eftir lagasetningu Alþingis um framhaldsskóla hliðstæðri þeirri sem sett var um grunnskóla 1974. Ég hef ekki tölu á þeim lagafrumvörpum sem lögð hafa verið fyrir þingið um þetta efni þennan tíma, en þau eru mörg. Flest hafa þau verið flutt af menntamálaráðherrum, en gjarnan undir lok ferils þeirra og hafa trúlega þess vegna fráleitt orðið útrædd.

Flm. þessa frv. hreyfa því hér miklu nauðsynjamáli þar sem vissulega er brýnt orðið að marka stefnu til verulegrar framtíðar. Nú er það auðvitað svo að framvindan á þessu sviði hefur ekki staðið kyrr, eins og hefur raunar fyrr komið fram í umræðum þennan röska áratug. Öðru nær. Sjaldan hefur líklega önnur eins gróska verið í málaflokki eins og uppbyggingu skóla á framhaldsskólastigi þennan tíma. Og 44. gr. þessa frv. ber þess órækt vitni að ekki færri en röskir tveir tugir gildandi laga og lagabálka snerta þetta svið.

En það sem gerir lagasetningu í þessu efni einmitt brýna er hve mikils ósamræmis gætir í þeim lögum sem í gildi eru, eins og raunar kom fram í máli hæstv. menntmrh. áðan. Sérstaklega hefur verið tilfinnanlegur aðstöðumunur þeirra sveitarfélaga sem hafa unnið að uppbyggingu og rekstri fjölbrautaskóla á grundvelli laga nr. 21 frá 1977 miðað við aðstöðu þeirra sem notið hafa ríkisrekinna og ríkisbyggðra menntaskóla án nokkurra skuldbindinga fyrir viðkomandi sveitarfélög. Ég tel því þann tillöguflutning sem hér er uppi hafður meira en tímabæran, hvort sem hér eru fundin þau réttu lausnarorð í allri grein eða ekki. Um það vil ég ekki dæma. M.a. hef ég vissar efasemdir um útfærslu stjórnunarþáttar í þessu frv.

En eitt merkasta atriði sem hér er hreyft að minni hyggju og í rauninni tímanna tákn er VIl. kaflinn, um fræðslu fullorðinna og fjarnám. Ég tel í grundvallaratriðum rétt að fella þessa tvo mikilvægu þætti fræðslustarfseminnar, sem vissulega er enn þá allt of lítið sinnt hér á landi, að hinu almenna fræðslukerfi með vafalaust mun skilvirkari árangri en annars yrði.

Í 8. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Nám í framhaldsskólum skal hlíta lágmarkssamræmingu. "

Af því tilefni langar mig til að geta þeirrar skoðunar minnar að mér hefur einmitt þótt verulega skorta á samræmingu og raunar ekki síður eftirlit með árangri starfsins á framhaldsskólastigi miðað við þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í eftirlit og samanburð um starfsárangur á grunnskólastiginu. Ég efast hins vegar um að 39. gr. X. kafla þessa frv. nái því markmiði sem ég hef hér í huga.

En kjarni þessa máls er hins vegar sá að það hlýtur að vera námsframboðið og möguleikar nemendanna sem skipta mestu máli. Það skiptir höfuðmáli að þar sé sótt fram á þann veg að reynt sé að ná þeim markmiðum sem best gerast með öðrum þjóðum. Til þess eigum við líka að hafa alla burði.

Annars sýnist mér í margri grein að hér sé skynsamlega á málum tekið og ég vil fyrir minn hlut þakka hv. flm. frumkvæðið.