18.12.1987
Efri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

197. mál, vörugjald

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég hélt að einhver þeirra sem flytja þessa brtt. mundi taka til máls og gera grein fyrir henni, en ef svo er ekki, þá skal ég taka það að mér. Hér mun vera um það að ræða að bæta við nokkrum tollnúmerum í frv. til l. um vörugjald til þess að koma á einhverri vernd fyrir steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki.

Hér er verið að laga til það sem hv. meirihlutaþm. hér í hv. deild hafa uppgötvað á síðasta snúning og er það vel að þeir tóku eftir þessu áður en þeir misstu málið frá sér niður í hv. Nd. Það er ekki víst að það hefði gengið eins greiðlega að fá þessar breytingar inn þar því að þá hefði málið væntanlega þurft að koma aftur til okkar í Ed.

En það er nú svo að þetta er eitt af hinum mikilvægu frv. um tekjuöflun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í hv. Ed. Var það upplýst við 1. umr. að vörugjaldinu er ætlað að leggja til 1600 millj. kr. í ríkissjóð. Nú hafa verið gerðar allmiklar breytingar á þessu frv. til 1. um vörugjald og væri gaman að fá að heyra það hjá hæstv. fjmrh. hvað vörugjaldið, með þeim breytingum sem þegar eru ýmist samþykktar eða hafa verið lagðar til í hv. Ed., mun gefa af sér af tekjum í ríkissjóð. Það er nefnilega ansi fróðlegt að lesa Morgunblaðsgrein í blaðinu í morgun þar sem hæstv. fjmrh. heldur því fram að tekjuáætlun ríkissjóðs hafi aldrei verið eins nákvæm og nú. Það er ekki alveg í samræmi við það sem hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson hélt fram í mjög athyglisverðri þingræðu hér í Ed. á næturfundi sællar minningar fyrr í vikunni, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að þessi áætlun hæstv. fjmrh. og embættismanna fjmrn. væri í raun og veru svo óljós að hugsanlega yrðu tekjur ríkissjóðs margir milljarðar umfram það sem þeir hafa ættað.

Hér er aðeins eitt dæmið enn til sönnunar fyrir því að þessi tekjuáætlun er, eins og hv. 8. þm. Reykv. gat um í ræðu sinni, mjög ónákvæm. Það er búið að gera það miklar breytingar á vörugjaldinu að það er mjög óljóst hvað vörugjaldið mun nú gefa af sér í ríkissjóð og væri gaman að fá svör hæstv. ráðherrans við því hvað hann og hans embættismenn nú ætla að vörugjaldið leggi til í ríkissjóð.

Það er ekki ástæða til þess að fara frekar inn á efnislegar breytingar á frv. til l. um vörugjald eða fara að koma með nýjar. Fjarri mér að gera það. Ég vil þó aðeins hér undir lokin draga í efa ágæti þess að vera að leggja vörugjald á innflutta steinull og glerull. Það má vel vera að einhverjum finnist nauðsynlegt að vernda steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki. Má vera. Ég held að hún sé ein dæmigerð framkvæmd sem er byggð á vitlausum forsendum. Það hefði aldrei átt að byggja þessa verksmiðju. Allar áætlanir um þessa verksmiðju eru byggðar á sandi. Þessi verksmiðja átti aldrei neinn rétt á sér. Það er verið að leggja út í framleiðslu sem er næsta vonlaus fyrir okkur Íslendinga að reyna við. Það hefði verið betur að reyna ýmsa aðra möguleika til að gera atvinnulíf okkar fjölbreyttara heldur en fara út í samkeppni við hinar stóru fyrirtækjasamsteypur í nágrannalöndunum sem framleiða ódýra glerull og steinull.

En látum það vera. Ég vildi aðeins koma inn á það hér undir lokin að ég tel að það liggi alveg ljóst fyrir að það er ekkert hæft í þeim fullyrðingum hæstv. fjmrh. að tekjuáætlun ríkissjóðs sé hin nákvæmasta sem hefur verið lögð fram nokkru sinni. Ég held þvert á móti að aldrei hafi það verið óljósara hverjar tekjur ríkissjóðs verða með þeim tekjuöflunarfrv. sem hér hafa verið til umræðu í hv. deild.