18.12.1987
Efri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75 frá 1981, með síðari breytingum.

Frv. þetta er annað frv. um breytingar á þessum lögum sem mælt er fyrir á þessu þingi. Fyrra frv. var um skattlagningu einstaklinga og var í tengslum við upptöku staðgreiðslu skatta á launatekjur einstaklinga. Þetta frv. fjallar hins vegar um skattlagningu fyrirtækja.

Í fjárlögum fyrir árið 1988 er gert ráð fyrir að tekjuskattur fyrirtækja á því ári verði um 150 millj. kr. hærri en hann er áætlaður skv. óbreyttum skattalögum.

Með frv. þessu eru lagðar til breytingar sem tryggja eiga þá tekjuöflun auk þess sem þær eru skref í þá átt að einfalda skattlagningu fyrirtækja með niðurfellingu frádráttarliða.

Frv. þetta fjallar um breytingar á ákvæðum sem snerta afskriftir birgða í árslok, framlög í fjárfestingarsjóði, bifreiðakostnað og breytt skatthlutfall. Auk þess í fimmta lagi sem hér er lagt til að framlengja ekki heimild til skattfrjáls framlags í varasjóð. Enn fremur eru í frv. ákvæði er varða meðferð verðbóta á verðtryggðar eignir og skuldir.

Til athugunar var einnig að gera breytingar á þeirri reglu að heimilt sé að afskrifa útistandandi viðskiptaskuldir og færa hina afskrifuðu fjárhæð til gjalda. Niðurstaðan varð þó sú að ekki þótti að sinni fært að gera breytingar í þessu efni. Nokkuð öðru máli gegnir um afskriftir skulda en birgða sem breytt yrði með lögum þessum. Um mat á birgðum gilda frjálslegri reglur sem gera fyrirtækjum kleift að haga mati birgða í samræmi við raunveruleg verðmæti. Skuldir yrðu hins vegar metnar á fullu verðgildi ef afskriftareglan yrði felld út jafnvel þótt vitað sé að af þeim verði afföll. Varhugavert má þess vegna telja að gera fyrirtækjum þannig að ofmeta eignarstöðu sína og ekki rétt gagnvart lánveitendum sem eiga í því tryggingar og öðrum viðskiptamönnum sem hagsmuna eiga að gæta.

Þar sem unnt reyndist að ná þeim auknu tekjum sem ráð var fyrir gert, 150 millj. kr. og rúmlega það, með þeim breytingum öðrum sem í frv. felast varð að ráði að láta mál þetta, afskriftir skulda, bíða til frekari athugunar í framhaldi af endurskoðun á skattlagningu fyrirtækja. Þær fjárhæðir sem kunnar eru frá álagningu 1987 og þetta frv. snerta eru þessar:

1. Álagður tekjuskattur fyrirtækja var 1590 millj. kr.

2. Framlög í fjárfestingarsjóði 724 millj. kr.

3. Framlög í varasjóði 236 millj. kr.

Þá er talið að vörubirgðir í árslok 1986, sem hafa áhrif á skattlagningu 1987, séu metnar á um 33 milljarða kr. Auk þess að breyta frádráttarliðum er skatthlutfall lækkað til samræmis við lækkað skatthlutfall einstaklinga. Hluti atvinnurekstrartekna, þ.e. hjá einstaklingum með rekstur, sameignarfélögum og fleiri aðilum er skattlagður hjá einstaklingum sem tekjur þeirra. Í þeim tilvikum verður skatthlutfallið hið sama og hjá öðrum einstaklingum, 35,2% í staðgreiddum skatti, þ.e. tekjuskattur og útsvar.

Tilgangur þessarar lækkunar á skatthlutfallinu er sá að koma í veg fyrir að rekstrarform fyrirtækja hafi mikil áhrif á skattgreiðslur eða skattgreiðslur á það rekstrarform sem menn kynnu að vilja laga þá að breytilegum skattareglum. Þar eiga önnur sjónarmið að ráða. Því er talið rétt að samræma hlutföllin eftir því sem unnt er. En sá er munur á að skattar fyrirtækja eru greiddir eftir á af því að þeir miða við hlutfall af hagnaði við ársuppgjör í lok árs. Þykir því hæfilegt að ætla þeim að greiða 45% af tekjum sínum í skatt. Þá er höfð hliðsjón af verðbólgu eins og hún hefur verið að undanförnu, en ekki unnt að útiloka að nokkur munur á raunverulegu skatthlutfalli geti verið fyrir hendi ef verðbólga breytist verulega frá því sem verið hefur. En kjarni málsins er þessi: Í eftirágreiddum skatti getur skattálagningarhlutfallið verið hærra þótt það í reynd reynist síðan vegna verðbólgu vera sambærilegt og lægra hlutfall í staðgreiðslu.

Áhrif þessa frv. á skattheimtu af fyrirtækjum og breytingar varðandi varasjóði hefur verið metið þannig miðað við árið 1987:

1. Gera má ráð fyrir að þrátt fyrir takmörkun á framlögum í fjárfestingarsjóði muni hluti þess fjár sem áður rann í varasjóð verða lagður í fjárfestingarsjóð. Giskað er á að um helmingur þess skili sér sem skattstofn eða 118 millj. Skattur af því fé yrði þá 45% af þeirri upphæð eða 53 millj. kr.

2. Niðurfærsla á verði vörubirgða mun lækka um 1650 millj. kr. Ekki má reikna með að öll sú fjárhæð skili sér sem skattstofn þar sem hluti birgða er hjá aðilum sem sýna rekstrartap. Matsreglur vörubirgða eru þannig að óvissa er um niðurstöður þessara breytinga. Hér er reiknað með því að skattstofninn hækki um 660 millj. kr. og að aukinn skattur verði þar af leiðandi tæpar 300 millj. kr.

3. Þá má ætla að lækkun skatthlutfalls úr 51% í 45% lækki skattgreiðslur um 187 millj. kr. Alls eru tekjuáhrif þessa frv. því sem hér segir: 1. Hækkun vegna varasjóðs 53 millj. 2. Hækkun vegna birgða 300 millj. 3. Lækkun vegna breytts skatthlutfalls 187 millj. Nettóbreyting: hækkun á tekjum um 165 millj. kr.

Ekki þarf að gera ráð fyrir breyttri skattheimtu miðað við álagningu 1987 vegna ákvæða um kaup- og fjármagnsleigu bifreiða þar sem um er að ræða tiltölulega nýtt fyrirbæri, fjármögnunarform sem ekki hafði mikil áhrif fyrr en á þessu ári. Framangreindar tekjutölur eru áætluð álagning. Samkvæmt reynslu má gera ráð fyrir að innheimta á fyrsta ári verði 122 millj. Miðað við verðbreytingar til 1988 má þó gera ráð fyrir rúmlega 160 millj. kr. tekjuöflun vegna þessara breytinga á árinu 1988.

Í 31 gr. laga um tekju- og eignarskatt er ákvæði þess efnis að sem rekstrargjöld til frádráttar tekjum fyrirtækja megi einungis draga frá kostnað sem gengur til að afla tekna, tryggja og viðhalda eignum. Ákvæði þetta er að efni til afdráttarlaust en þarfnast nánari útfærslu í reglugerð þar sem m.a. verði tekið á skattalegri meðferð risnu og annarrar einkaneyslu, svo og einkaafnota bifreiða. Með því yrði stefnt að bættri framkvæmd og eftirlit auðveldað. Í þessu efni má t.d. nefna að í ríkisstjórnartíð Schluyters í Danmörku hefur nýlega verið tekin upp sú regla að viðurkenna einungis 25% af framlögðum reikningum vegna slíkrar neyslu við skattlagningu fyrirtækja, en í því felst veigamikil breyting, nefnilega sú að sönnunarbyrðin færist frá skattyfirvöldum við að meta í hverju einstöku tilviki hvort viðkomandi útgjöld eru í reynd til öflunar tekna eða viðhalds eigna. Sá mælikvarði víkur þar með fyrir þeirri einföldu reglu að einungis hluti slíkra útgjalda er viðurkenndur. Til álita kom að taka upp slíkar reglur hér, en það varð ekki niðurstaðan að því er varðar lagafrv. sjálft. Hins vegar er samkomulag um að reglugerðin um útfærslu á þessum þætti þarfnist breytinga sem taki af vafa um túlkun og markatilfelli. Viðfangsefni slíkrar reglugerðar yrði þá að tryggja að einkaneysla, hvort heldur er eigenda eða einstakra starfsmanna, verði færð til frádráttar skattskyldum tekjum fyrirtækis nema að því leyti sem slík einkaneysla er hlunnindi eða ígildi launa og samkvæmt því þá gefin upp og skattlögð hjá þeim sem nýtur. Til álita kom í þessu samhengi að setja í lög takmörkun á frádráttarbærri risnu við tiltekið hlutfall af slíkum kostnaði sem bókfærður er.

Í frv. þessu er hins vegar gert ráð fyrir ákvæði um skattalega meðferð á kaupleigu og fjármagnsleigu á einkabifreiðum, en slík öflun bifreiða hefur færst mjög í vöxt. Ákvæðið miðar að því að mismunandi fjármögnunarform hafi ekki áhrif á skattgreiðslur og er til staðfestingar yfirlýsingum sem gefnar voru á liðnu sumri um breytingar í því efni.

Herra forseti. Frv. þetta um skattlagningu fyrirtækja er flutt af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi af þörf á auknum tekjum í ríkissjóð og í annan stað af nauðsyn á samræmingu jaðarskatts einstaklinga og fyrirtækja og mismunandi fyrirtækjaforma. Frekari endurskoðun á tekjuskattsmálum fyrirtækja er viðamikið verkefni sem kemur síðar til kasta Alþingis sem og samræming slíkrar endurskoðunar og skattalegrar meðferðar á fjármagns- og eignatekjum.

Herra forseti. Ég legg til að þessu máli verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.