21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

29. mál, framhaldsskólar

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. og öðrum þeim þm. sem hafa tekið til máls fyrir þeirra ábendingar og umræðuna í heild sem hefur verið mjög málefnaleg.

Það hefur komið fram í umræðunni dálitil vangavelta um það hvort þörf hafi verið á heildarlöggjöf um framhaldsskólastigið og hvort ekki hefði verið hætta á því ef um samræmingu hefði verið að ræða að afleiðingin hefði orðið einhvers konar einstefnuakstur í skólamálum sem hefði hindrað frjálsa þróun skólanna. Þetta er sannarlega sjónarmið sem á fullan rétt á sér. Ég vil þó leggja áherslu á að heildarlöggjöf um þessi efni þarf auðvitað alls ekki að fela í sér þessar hættur eins og raunar kom alveg réttilega fram hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, fyrrverandi menntmrh. Hún benti á að í frv., sem við höfum lagt hér fram, væri fyrst og fremst lögð áhersla á lágmarkssamræmingu. Það felur auðvitað í sér að við flm. höfum fullan hug á að tryggja frelsi skólanna. Við höfum fullan hug á því að tryggja hæfilegt svigrúm í skólakerfinu þannig að mismunandi gerðir skóla geti þróast. Og við höfum engan hug á því að þessir skólar verði allir steyptir í sama mót. Við viljum einmitt dreifa valdinu til fræðsluumdæmanna til þess að mismunandi sjónarmið fái sem best notið sín. Sjónarmið heimamanna mundu einmitt eiga þátt í því að skólar gætu þróast með mismunandi hætti og við fengjum reynslu af fleiri en einni tegund skóla. Það sem við leggjum hins vegar áherslu á í þessu sambandi er að það er nauðsynlegt að setja heildarlöggjöf um þetta efni til að afnema ákveðna mismunun sem er í kerfinu. Ég held að allir þeir sem hér hafa tekið til máls viðurkenni þetta. Það er mismunun gagnvart nemendunum, það er mismunun gagnvart verkmenntun annars vegar miðað við bóknám hins vegar og það er mjög veruleg mismunun gagnvart sveitarfélögunum. Jafnframt leiðir af samræmingu þeirri sem hér er gerð tillaga um að minni hætta er á því að nemendur rati inn í blindgötur og sem greiðastar leiðir skapast milli skóla. Þetta er í raun og veru kjarninn í því frv. sem við höfum lagt fram.

Herra forseti. Ég þakka svo að öðru leyti fyrir þessa umræðu.