18.12.1987
Efri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2536 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. félmn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. félmn. um frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984, sbr. lög nr. 54/1986 og lög nr. 27/1987.

Nefndin hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess. Með frv. eru ekki gerðar grundvallarbreytingar á húsnæðislánakerfi því sem komið var á vorið 1986. Þó er tekið fyrsta skrefið til að koma því jafnvægi á í húsnæðiskerfinu sem að er stefnt í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Heildarendurskoðun þessa kerfis hlýtur að verða næsta skref í máli þessu með tilliti til fenginnar reynslu og fjölda ábendinga sem fram hafa komið innan þings og utan.

Frv. mun létta nokkuð á kerfinu með því að veittar eru heimildir til að skerða lán til þeirra er eiga fyrir fullnægjandi húsnæði og veita slíkum aðilum lán á lakari kjörum en þeim sem skipa forgangshópinn. Kemur í því efni hvort tveggja til greina að stytta lánstíma og hækka vexti. Einnig gerir frv. ráð fyrir að unnt verði að færa í forgangsröð nokkurn hóp fólks sem á íbúð fyrir en býr í raun vegna þrengsla eða sérstakra erfiðra fjölskylduástæðna við síst betri kost en ýmsir sem ekki eiga íbúð fyrir.

Loks gerir frv. ráð fyrir heimild til að synja þeim um lán sem eiga fyrir fleiri en eina íbúð.

Mikilvægasta grein frv. er þó fyrir margra hluta sakir 2. gr. þess. Þar er kveðið á um breytta skipan varðandi svör Húsnæðisstofnunar til umsækjenda. Með þeirri tilhögun sem frv. gerir ráð fyrir er komið í veg fyrir að útgáfa svonefndra lánsloforða Húsnæðisstofnunar verði áfram sú uppspretta efnahagslegra þrenginga og hækkunar á fasteignamarkaðnum sem verið hefur. Auk þess er stofnuninni ekki gert að skuldbinda sig fjárhagslega nokkur ár fram í tímann.

Frá sjónarmiði almennrar efnahagsstjórnar er hér um mjög mikilvægt atriði að ræða þó hitt sé rétt að með þessu móti fá umsækjendur ekki jafnskjótt og áður örugga vitneskju um hvenær þeir fá lán sín afgreidd. Það er galli sem þó vegur ekki upp kosti þessarar breytingar.

Í þeirri heildarathugun í húsnæðislánakerfinu sem nefndin telur nauðsynlegt að ráðast í eru nokkur atriði öðrum fremur sem brýnt er að tekin verði til athugunar.

Í fyrsta lagi ber að nefna nauðsyn þess að tryggja fjárhagsstöðu húsnæðislánakerfisins til frambúðar þar sem nú er sýnt að vaxtamunur er orðinn meiri en talið hefur verið að kerfið þyldi. Raunar er brýnt að þegar verði gerðar ráðstafanir til að minnka þann mun sem er á teknum og veittum lánum Húsnæðisstofnunar. Ákvörðun um það er á valdi ríkisstjórnarinnar og kallar ekki á lagabreytingu.

Í öðru lagi þarf að kanna hvort grundvöllur geti verið fyrir því að flytja hluta verkefna Húsnæðisstofnunar yfir í bankakerfið með samningum við lífeyrissjóði og bankastofnanir. Í þessu sambandi kemur til athugunar með hvaða hætti húsnæðisbætur í skattkerfinu geti komið í stað niðurgreiðslu vaxta. Jafnframt er rétt að kanna að nýju hugmyndir um að binda lán Húsnæðisstofnunar við einstaklinga í stað íbúða og hvort komið geti til greina að skipta heildarlánsfé milli kjördæma í samræmi við lánveitingar lífeyrissjóða í einstökum kjördæmum. Einnig væri þarft að kanna möguleika á sérstökum lánaflokkum til styttri tíma en almennt gerist og með breytilegum kjörum til að koma til móts við þarfir einstakra hópa sem ekki þurfa á stórum lánum til mjög langs tíma að halda. Æskilegt er að þessari heildarendurskoðun ljúki fyrir upphaf næsta þings.

Minni hl. mun skila séráliti, en stendur þó að brtt. í nál. meiri hl. sem raunar er leiðrétting á villu sem slæddist inn við prentun málsins. Brtt. er sú að niðurlag 1. málsl. 3. gr. orðist svo: og skulu fyrrnefnd lán afgreidd í sömu röð og umsóknir berast þegar íbúðir verða veðhæfar.

Í gildandi lögum og frv. eins og það var lagt fram var talað um „og/eða“, en hér er gerð tillaga um að það verði „þegar“ til þess að taka af öll tvímæli.

Undir álitið rita Guðmundur H. Garðarsson, formaður, Valgerður Sverrisdóttir, Jóhann Einvarðsson, Halldór Blöndal og Karl Steinar Guðnason.