18.12.1987
Efri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. minni hl. félmn. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60 frá 1984, sbr. lög nr. 54 frá 1986 og 27 frá 1987, sem er frá minni hl. félmn., en undir nál. skrifar auk mín hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson.

„Í kjölfar kjarasamninga á vinnumarkaði í febrúar 1986 voru samþykktar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem þó náðu aðeins til hluta lánakerfisins og voru reyndar samþykktar með þeim fyrirvara, sem fram kemur í nál. meiri hl. þáv. félmn. á þskj. 1017 á 180. löggjafarþingi, að húsnæðislánakerfið yrði tekið til gagngerðrar endurskoðunar með sérstöku tilliti til félagslegra íbúða, leiguíbúða, íbúða fyrir aldraða, öryrkja og námsmenn svo og með því að kanna leiðir til að koma til móts við þá sem hafa lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til. Slík endurskoðun hefur enn ekki farið fram og verður því að líta á breytingar á núgildandi lögum sem bráðabirgðalausn til að leysa úr brýnasta vandanum nú vegna þeirra fjölmörgu umsókna sem liggja hjá Húsnæðisstofnun.

Frv. hefur það að markmiði að tryggja betur forgang þeirra sem eru í brýnni þörf fyrir lánafyrirgreiðslu, draga úr sjálfvirkni í útlánum og fjárþörf húsnæðislánakerfisins og draga úr þenslu á fasteignamarkaði. Með frv. er ekki verið að gera grundvallarbreytingar á húsnæðislánakerfinu, en endurskoðun er nauðsynleg í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af núgildandi lánakerfi.

Frv. gerir ráð fyrir að færa í forgangshóp þá sem eiga ófullnægjandi íbúð og þurfa að skipta um húsnæði af fjölskylduástæðum. Þetta er mikilvæg breyting vegna þess að margar stórar fjölskyldur eru oft í mun erfiðari aðstöðu en ýmsir sem eru að byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinn. Sjálfsögð er sú breyting á núgildandi lögum að takmarka rétt þeirra sem eiga margar íbúðir eða miklar eignir. Enn fremur telur minni hl. að þeir sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn svo og þeir sem eru að stækka við sig vegna ófullnægjandi íbúðarhúsnæðis eigi að hafa rétt til lána hjá Húsnæðisstofnun með lágum vöxtum. Þeir sem búa við góðar húsnæðisaðstæður ættu að fá lán með annars konar kjörum annaðhvort hjá Húsnæðisstofnun eða bönkum.

Í 2. gr. frv. er lagt til að hætt verði að gefa bindandi svar um lánstíma og lánsupphæð fyrr en a.m.k. einu ári áður en lán er veitt. Hins vegar fái menn svar innan þriggja mánaða frá umsókn um það hvort þeir eigi rétt á láni. Undirrituð óttast að sú tilhögun komi ekki í veg fyrir verslun með þá pappíra sem fólk fær í hendur eins og tíðkast hefur í einhverjum mæli með þau lánsloforð sem fólk fær nú. Því ætti ekki að gefa nein svör um lán fyrr en endanlegt svar um lánstíma og lánsupphæð liggur fyrir og flytja undirrituð brtt. þess efnis á sérstöku þskj."

Undir þetta nál. rita, eins og áður var sagt, Guðrún Agnarsdóttir og Svavar Gestsson.

Brtt. er á þskj. 337 og er svohljóðandi: "

Við 2. gr. Greinin orðist svo:

Í stað 1. málsl. 6. mgr. (verður 7. mgr.) 12. gr. laganna komi tveir nýir málsliðir er orðist svo:

Umsækjendur, sem ekki uppfylla skilyrði laga þessara um lánveitingu skv. 13., 14., 18. og 25. gr., skulu innan þriggja mánaða frá því að umsókn er lögð inn fá svar ef um synjun er að ræða. Endanleg svör um afgreiðslutíma láns og lánsfjárhæð berist eigi síðar en ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu.“

Meginástæðurnar fyrir því að við höfum lagt fram þessa brtt. eru tvær. I fyrsta lagi leggjum við til að einungis þeir sem ekki fá lán fái afdráttarlausa tilkynningu um synjun. Þetta er vonandi mikill minni hluti þeirra sem sækja um lánin. Þeir hafa það því alveg á hreinu að þeir hafa fengið synjun og hafa bréf upp á það. Hins vegar: Þeir sem eiga eftir að fá lán en ekki er ákveðið enn þá hvenær þeir fá lán fá ekkert bréf í hendurnar. Þeir fá engan pappír frá Húsnæðisstofnun sem mögulegt er að veðsetja eða selja eins og gert hefur verið á hinum svokallaða gráa markaði með talsvert miklum afföllum. Því er þetta meira öryggi, ef svo má segja, ef einungis eru sendar tilkynningar til þeirra sem fá synjun. Á sama tíma sparar þetta mikla fyrirhöfn hjá Húsnæðisstofnun og minnkar álag þar sem ekki þarf að senda út tilkynningar nema til þeirra sem eru í minni hluta og fá synjun. Við teljum því að þessar brtt. séu til bóta og berum þær fram við málið. Við vonum að þær fái jákvæða umfjöllun og að málinu verði síðan hraðað í gegnum deildina til að tryggja að það geti orðið að lögum sem fyrst.