18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2545 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti fjh.- og viðskn. sem hefur athugað frv. Á fund nefndarinnar komu Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóri og Indriði Þorláksson skrifstofustjóri. Álitsgerð barst frá Verslunarráði Íslands.

Nefndin taldi athugunarefni að skatthlutfall verði hið sama og hjá einstaklingum, þ.e. 35,2%, og verðtrygging með lánskjaravísitölu og telur nefndin að hyggja beri að því við þá endurskoðun sem fyrirhuguð er á lögum um skattlagningu fyrirtækja.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Undir þetta rita Páll Pétursson, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Matthías Bjarnason og með fyrirvara Geir H. Haarde, Kristín Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Brtt. sem liggja fyrir á þskj. 320 er í fyrsta lagi að 2. gr. orðist svo sem þar segir. Orðalag var ekki nákvæmt í 2. gr. frv. og leggjum við til að því verði breytt þannig að 1. tölul. hljóði svo:

„Skip og skipsbúnaður, svo og fólksbifreiðar fyrir færri en níu menn sem ekki falla undir 4. tölul.: 10%.“

Í öðru lagi leggjum við til að 3. gr. verði breytt og að í stað orðins „einkabifreiðum“ komi: „fólksbifreiðum fyrir færri en níu menn, öðrum en leigubifreiðum.“ Ekki er um efnisbreytingar að ræða, heldur nákvæmara orðalag og teljum við að því feng.

Þá er rétt að geta þess og sérstaklega með tilliti til orðaskipta sem urðu hér í upphafi fundar um þingsköp að á tveimur stöðum í þingskjalinu þarf að víkja við orðum, þ.e. tilvitnanir eru ekki nákvæmar. Í 4. gr. stendur: „þegar frá tekjum hafa verið dregnar þær fjárhæðir sem um ræðir í 1.-9. tölul.“ Rétt tilvísun er 1.–10. tölul. Í öðru lagi á upphaf 7. gr. að vera svo: 2. málsl. 1. mgr. 76. gr. orðist svo, sem þar segir. Það er sem sagt á tveimur stöðum sem tilvísanir eru ekki nákvæmar, en þetta mun hafa verið leiðrétt í gula heftinu og geta menn þá séð um hvað er að ræða. (KJóh: Það vantar hvergi bandstrik.) Bandstrik eru hins vegar held ég öll á sínum stað.