18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2546 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég hef ritað undir nál. hv. fjh.- og viðskn. með fyrirvara sem ég geri nú grein fyrir. Skattlagning á tekjur í atvinnurekstri er vandmeðfarið og flókið viðfangsefni. Það hefur verið til athugunar í fjmrn. um nokkra hríð, bæði í tíð fyrrv. og núv. ríkisstjórnar.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar er vikið að nauðsyn þess að endurskoða þennan þátt í tekjuöflun ríkisins í framhaldi af þeirri heildarendurskoðun á tekjuöflun ríkisins sem unnið er að hér á Alþingi. Frv. tekur einungis á nokkrum þáttum þess máls.

Ég nefni þrjú atriði í frv. sem ég tel að þurfi að athuga nánar í þeirri heildarendurskoðun sem ég áðan nefndi.

Hið fyrsta er spurningin um það hvort rétt sé að afnema með öllu heimilaða birgðaniðurfærslu eins og frv. gerir ráð fyrir að verði á árinu 1989. Annað er álagningarhlutfall á tekjur í atvinnurekstri sem frv. gerir ráð fyrir að verði 45%. Í nál. sem meiri hl. nefndarinnar hefur látið frá sér fara er vikið að þeirri hugmynd að með þessar tekjur verði farið með nákvæmlega sama hætti og tekjur einstaklinga, þ.e. þar verði fundnar sömu prósentur, sem nú eru 35,2%, og síðan það fært upp með sömu vísitölu og þar er notuð. Ég tel rétt að þetta verði athugað nánar, enda heyrðist mér að hljómgrunnur væri fyrir því í nefndinni.

Í þriðja lagi tel ég rétt að athuga, fyrst hér eru til meðferðar ákveðin atriði í 74. gr. þessara laga, þegar vikið er að eignarskattsálagningu skuldabréfa og annarra slíkra verðmæta, hvort það sé endilega rétt að miða slíka eign við það nafnverð sem upp er gefið að viðbættum áföllnum vöxtum, verðbótum á höfuðstól. Ég held að það sé óhjákvæmilegt í þeirri endurskoðun á þessum málum sem fram undan er að reyna að taka með einhverjum hætti tillit til þeirra tilvika þegar slík bréf ganga kaupum og sölum með afföllum eins og nú mun vera orðið algengt. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til að leggja til breytingar á greininni eins og hún er núna og eins og nefndin gekk frá henni, en ég tel óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessum þætti og tel nauðsynlegt að við frekari athugun á málinu verði þetta atriði skoðað.

Ég mun að sjálfsögðu greiða frv. atkvæði mitt.