18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir brtt. sem ég flyt við 206. mál á þskj. 342, frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Nú er þar fyrst til að taka að ég styð frv. og skrifa undir nál. fjh.- og viðskn., með þeim fyrirvara þó að ég áskil mér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt. og flyt þær á sérstöku þingskjali. Ég tel að frv., svo langt sem það nær, sé til bóta í flestum eða öllum greinum og lýsti reyndar þegar yfir stuðningi við það við 1. umr. málsins hér í deildinni. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað sjá gengið lengra og tekið betur á fleiri hlutum sem varða skattlagningarreglur fyrirtækja og flyt því sérstakar brtt. um meðferð þeirra frádráttarheimilda sem ekki er tekið á í frv. hæstv. ríkisstjórnar sem hæstv. fjmrh. talaði fyrir. Ég hef þar hliðsjón af frv. sem þrír hv. þm. Alþb. í Ed. hafa lagt fyrir þingið og nokkuð var vitnað til við 1. umr., en ég kaus þó vegna þeirra jákvæðu þátta sem eru í frv. ríkisstjórnarinnar að falla frá þeim hluta brtt. eða þeim hluta frv. sem snertir sömu frádráttarliði og tekið er á í frv. hæstv. ríkisstjórnar.

Það er að vísu svo að í frv. þm. Alþb. er gengið lengra og tekið með öðrum hætti t.d. á því að færa niður matsverð vörubirgða. Það er gert ráð fyrir að það gerist í áföngum á fjögurra ára tímabili en ekki í tveimur stökkum eins og frv. hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir. Sömuleiðis er þar tekið á útistandandi viðskiptaskuldum, það er tekið á fyrningarreglum og fleiru.

Fyrsta brtt. mín á þskj. 342 lýtur að því að taka inn ákvæði um niðurfærslu á heimildum til að draga tap á útistandandi viðskiptaskuldum frá tekjuskatti og yrði það gert með því að heimilt yrði að færa niður útistandandi viðskiptaskuldir um allt að 4% á árinu 1988, allt að 3% á árinu 1989 og allt að 1% á árinu 1990 en þá falli heimildir samkvæmt þessum tölulið niður.

Ég geri ráð fyrir því að þetta sé eitt af þeim ákvæðum sem hæstv. fjmrh. hefur hugsað sér að taka til meðferðar í áframhaldandi endurskoðun þessara skattlagningarreglna fyrirtækjanna, en hér er lögð til ákveðin aðferð, ákveðinn valkostur boðinn, hvernig þrepa mætti niður þessar heimildir og ætti það þá ekki að koma mjög illa við fyrirtækin þar sem þau hefðu þennan aðlögunartíma.

2. till. lýtur að breytingum á 52. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt og er um það að setja inn mjög skýr ákvæði um að óheimilt sé að draga persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess frá skatti og að ríkisskattstjóri skuli gefa út reglur árlega um takmörk samkvæmt þessum tölulið sem gætu hugsast sem einhvers konar þak eða hlutfall af veltu eða rekstrarumfangi fyrirtækjanna sem afmarkaði það með mjög skýrum hætti hversu háar upphæðir væri eðlilegt að færa undir tiltekna eyðsluliði af þessu tagi. Það er öllum kunnugt og kemur m.a. skýrt fram í skýrslu þeirri sem unnin var og lögð fyrir Alþingi fyrir einum tveimur árum um skattsvik að þetta er ein af þeim holum sem mikið vantar á að gert sé fyrir í núverandi skattalöggjöf og meðferð framtalsmála og sama á við um 2. liðinn, þ.e. seinni lið 2. brtt., um að annar liður bætist við 52. gr. laganna, 5. liður, um risnu og hann er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Risnu nema hún sé sannanlega í þágu fyrirtækisins“, þ.e. risnu er óheimilt að draga frá tekjum nema hún sé sannanlega í þágu fyrirtækisins. „Ríkisskattstjóri setur reglur um risnukostnað fyrirtækja eftir stærð þeirra og veltu með hliðsjón af markaðsstöðu fyrirtækjanna. Við ákvörðun sína skal ríkisskattstjóri gæta þess sérstaklega að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess færist aldrei á kostnað fyrirtækisins.“

Nú er það svo að auðvitað er ekki ætlast til þess í gildandi lögum að þessir liðir séu dregnir frá tekjum fyrirtækja, en hins vegar er það nokkuð ljóst að það er gert í allt of miklum mæli. Ég á því erfitt með að skilja hvers vegna menn hafa ekki fallist á það og tekið því í raun og veru fagnandi að setja slík afdráttarlaus ákvæði inn í lögin um tekju- og eignarskatt. Það getur aldrei verið verra að hafa þau þar inni til þess að styðjast við, m.a. í þeim tilgangi að ganga harðar fram í skatteftirliti, að tryggja að ekki sé um óeðlilegan frádrátt frá tekjum að ræða í þessu skyni. Engu að síður var, þegar hliðstæðar tillögur voru til umræðu hér á hinu háa Alþingi, ef ég man rétt, á síðasta vetri, lagst gegn því af ýmsum að setja þessi ákvæði inn, m.a. með tilvísun til þess að til stæði að endurskoða þessi ákvæði en fyrst og fremst þó vegna þess að þetta væri í raun ekki heimilt í dag, þ.e. það væri í raun alls ekki ætlast til þess að menn drægju risnu eða færðu sinn persónulega kostnað á reikninga fyrirtækja eins og skattareglur væru í dag. En ljóst er, sem sagt, að það er gert og því hlýtur spurningin að vera sú: Er mönnum nokkuð að vanbúnaði að setja slík afdráttarlaus ákvæði inn í skattalöggjöfina sem hljóta að verða til bóta þeim aðilum sem sjá eiga um eftirlit á þessu sviði?

3. brtt., herra forseti, er við 5. gr. frv. eða 72. gr. laganna og hún orðist svo:

„Tekjuskattur lögaðila, sbr. 2. gr., skal vera 52% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 62. gr."

Hér er lögð til breytt skattprósenta á lögaðila. Í frv. ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 45% af tekjuskattsstofni. Hér er lögð til 7% hærri tala eða 52% og skal það nú nokkuð rökstutt hvers vegna flm. leggur til þessa hækkun.

Þar er fyrst til að taka að auðvitað er hér um eftiráskatt á hagnað fyrirtækja að ræða og það þykir ekki óeðlilegt að nokkur munur sé á milli þeirrar skattprósentu sem fyrirtækin greiða af sínum nettótekjum, nettótekjum eftir á, og þeirrar skattprósentu sem lögð er á einstaklinga í staðgreiðslukerfi. Nú er rétt að hafa í huga að verðbólga er um og yfir 30% og ekki miklar líkur á að hún haggist þaðan, a.m.k. ekki niður á við á næstunni. Ljóst má því vera að eftirágreiddur skattur rýrnar talsvert af þessum sökum. Síðan hefur ræðumaður hugsað sér að flytja einnig brtt. við tekju- og eignarskattsákvæði einstaklinga sem felast í því einkum og sér í lagi að sett verði sérstakt hátekjuskattþrep á þá einstaklinga sem hærri hafa tekjurnar og það skattþrep yrði þá í samræmi við þá prósentutölu sem hér er lögð til, þ.e. ef þar yrði um 43–45% skatta að ræða, tekjuskatt og útsvar samanlagt, í hátekjuskattþrepinu, þá væru aftur komin á sambærileg hlutföll og nú eru lögð til annars vegar í frv. hæstv. ríkisstjórnar um tekjuskatt á fyrirtæki og hins vegar tekjuskatt á einstaklinga. Síðan er það svo að sá eðlismunur, sem er á skattlagningu fyrirtækja annars vegar og skattlagningu einstaklinga hins vegar, gerir að mínu mati það að verkum að talsverður munur á þessum tveimur skattþrepum getur verið fyllilega réttlætanlegur. þ.e. sá grundvallarmunur að tekjuskattur einstaklinga er brúttóskattur, greiddur af öllum þeirra tekjum, svo til án frádráttarheimilda eins og gert er ráð fyrir í staðgreiðslulögum. Sá skattstofn mun breikka verulega við gildistöku laga um staðgreiðslu þannig að hann verður í raun enn meiri brúttóskattur af öllum þeim tekjum sem einstaklingar fá í hendur heldur en áður var. En tekjuskattur fyrirtækja er jú, eins og margoft hefur verið nefnt, nettóskattur, skattur af nettóhagnaði fyrirtækjanna eftir að allar frádráttarheimildir og allar rekstrarþarfir fyrirtækjanna hafa verið uppfylltar með eins rýmilegum hætti og forráðamönnum þeirra þykir þurfa. Og þar með er auðvitað um hreinan hagnað að ræða sem er allt annars eðlis, er allt annað hugtak að mínu mati í skattalegu tilliti heldur en brúttótekjur einstaklinga.

Það eru enn fremur viss rök, herra forseti, að með því að skattleggja hagnað lögaðila má ætla að að einhverju leyti komi til skattlagningar afraksturinn af því góðæri sem þjóðin hefur búið við eða a.m.k. ákveðin svið í þjóðfélaginu hafa búið við undanfarin ár. Ég held að tekjuskattur af lögaðilum sé í því efni miklu réttlátara tæki en ýmsar aðrar aðferðir sem beitt er eða á að fara að taka upp, eins og launaskattur. Því það er þó ekki verið að leggja skatta á aðra lögaðila, önnur fyrirtæki en þau sem skila hagnaði. Og þau fyrirtæki, sem skila svo miklum hagnaði eða hafa skilað hagnaði um langt árabil, þau eiga ekki uppsafnaðar frádráttarheimildir og geta ekki komist hjá því að greiða skatt þrátt fyrir aðrar frádráttarheimildir.

Ég sé því ekki eftir því þó þessi tekjuskattsprósenta lögaðila sé nokkuð há og sambærileg við tekjuskattsgreiðslur tekjuhæstu einstaklinganna. Það er á þeim grundvelli og í því samhengi sem hér er lögð til hækkun á tekjuskattsprósentu lögaðila upp á 7% frá því sem gert er ráð fyrir í frv. hæstv. ríkisstjórnar.

Fjórða till. varðar aftur útistandandi skuldir og heimildir til frádráttar eða niðurfærslu á þeim og er sambærileg við 1. gr. og í raun og veru efnislega fylgiskjal með henni.

Fimmta brtt, er um að ný gr. bætist við og fjallar um að skattrannsóknarstjóri skuli á hverju ári láta fara fram rannsókn á bókhaldi og skattskilum a.m.k. 100 fyrirtækja, sem ákveðin verða skv. útdrætti á nöfnum þeirra. Stuðlað skal að því að fyrirtækin og einstaklingar með rekstur geti gengið að því vísu að skattskil þeirra verði rannsökuð reglulega.

Hér er sem sagt lögð til sú nýbreytni að það verði ekki handahófskennt og ráðist af verkefnum eða annríki hjá skattrannsóknarstjóraembættinu á hverjum tíma hversu mörg fyrirtæki eru tekin til skoðunar, útdráttar, á hverju ári.

Ég held að það væri mjög virkt aðhaldstæki í þessum efnum ef menn vissu fyrir fram að tiltekinn fjöldi framteljenda í þessum hópi yrði tekinn til rannsóknar. Og það ítarlegrar úttektar. Talan 100 er þarna valin með það í huga að það sé viðráðanlegt verkefni fyrir skattrannsóknarstjóraembættið að taka slíkan fjölda til meðferðar. Líka vegna þess að það er þó nokkur prósenta af þeim aðilum sem gera upp skatta sína með þessum hætti og ætti að duga til þess að menn reikni með því sem talsverðum möguleika að röðin komi að þeim á hverju ári. Slíkar aðferðir eru víða tíðkaðar erlendis með skipulögðum hætti og hafa borið ágætan árangur.

Hér á landi virðist því miður sem aðstæður, annríki og mannafli og aðrar slíkar ytri kringumstæður hafi oftast ráðið mestu um það hversu vel skattrannsóknarstjóri eða aðrir embættismenn innan skattkerfisins hafa komist til að sinna þessum verkefnum. Stundum meira, stundum minna. Það er reyndar svo að sums staðar erlendis er nánast allt skattaeftirlit byggt upp á slíkum skyndikönnunum og útdráttum. Menn jafnvel sleppa því með öllu að fara ofan í skattaframtöl einstaklinga þar á milli. Byggja einungis á slíkum „stikkprufum“ sem stundum er sagt. Út af fyrir sig er ég ekki fjarri því að slíkt aðhald gæti verið virkara og markvissara, að taka til mjög rækilegrar skoðunar tiltekinn hundraðshluta eða tiltekinn útdrátt fyrirtækja og jafnvel einstaklinga, sem skila inn skattframtölum, og létta hins vegar annríki af sömu aðilum með því hreinlega að láta nægja annaðhvort enga eða mjög lauslega yfirferð á skattframtölum annarra. Þeirra sem ekki verða fyrir sérstakri könnun í hvert skipti.

Slíkt eftirlitskerfi eða aðhaldskerfi er þekkt víða að og víðar en úr skattakerfinu. Ég nefni sem dæmi t.d. eftirlit í ýmsum almenningsflutningatækjum, bæði hér og erlendis, þar sem mönnum er í sjálfsvald sett hvort þeir kaupa sér aðgöngumiða eða hafa tilskilin réttindi til að ferðast með viðkomandi farartækjum. Það er ekki gáð að því í hverri einstakri ferð hvort þeir hafa upp á vasann slíkan farmiða en við og við kemur eftirlitsgengi, fer í gegnum vagnana og tekur þá hvern einasta mann til skoðunar og því fylgja háar sektir ef menn reynast ekki hafa réttindi til þess að vera staddir á viðkomandi stað eða að vera að ferðast með viðkomandi farartæki.

Það má nefna tollskoðun skipa í þessu sambandi. Hún er í mörgum tilfellum mjög lausleg, en inn á milli koma sérstakar sveitir manna og taka þá til rækilegrar skoðunar viðkomandi aðila. Það ku heita „græna gengið“ eða „svarta gengið“, ég man nú ekki alveg litina í því sambandi. En það er sem sagt eftirlit af því tagi sem ég tel að komi fyllilega til greina að taka upp í meira mæli í skattakerfinu íslenska, í og með vegna þess að það kostar mikinn mannafla og mikla peninga að gera sæmilega yfirferð á öllum skattframtölum í landinu. Og það er veruleg hætta á því að ef menn dreifa kröftum sínum með þeim hætti að fara lauslega yfir hvert einasta framtal án þess að hafa þá á móti tíma til að taka einhvern hluta þeirra til rækilegrar skoðunar, þá náist ekki það markvissa eftirlit á þessu sviði sem nauðsynlegt er að keppa að. Hvort sem menn mundu gera það með því að hafa fyrir fram ákveðinn fjölda sem kæmi til skoðunar eða með einhverjum öðrum kerfisbundnum hætti, þá held ég að þetta sé aðferð sem menn hljóti að skoða mjög vandlega, enda er það mat margra fróðra aðila um skattamál að einhvers konar eftirlit af þessu tagi væri tímabært og raunhæft að taka upp.

Herra forseti. Við ræddum nokkuð þetta frv. hæstv. ríkisstjórnar um tekjuskatt og eignarskatt hér við 1. umr., ég og hæstv. fjmrh., og ég ætla ekki að fara að endurtaka þá umræðu alla. Ég fagnaði því að sjálfsögðu að hæstv. ráðherrann var tekinn til við að breyta skattareglum á einhverjum öðrum en almenningi og það stóð ekki á því að daginn eftir kom svo frv. um breytingu á lögum um launaskatt hér inn í deildina þannig að hæstv. ráðherra ætlar ekki að láta sitja við það eitt að breyta eitthvað tekjuskattareglum fyrirtækja. Ég hefði auðvitað gjarnan viljað sjá hæstv. ráðherra ganga ofurlítið vasklegar fram, ekki síst í ljósi þeirra miklu fyrirheita sem hann gaf þjóðinni fyrir síðustu kosningar og á sl. tveimur árum um þau afrek sem hann hygðist vinna á þessu sviði. Í því ljósi er auðvitað pappírinn fremur rýr, en hann er þó skref í rétta átt og ber að fagna því að a.m.k. á þessu sviði miðar ráðherranum ofurlítið áfram en ekki bara aftur á bak eins og því miður virðist nú vera raunin á víða annars staðar. Alla vega bar ekki mikið á því í ræðum ráðherrans á sínum tíma að til stæði af hans hálfu að auka skattheimtu á matvælum í landinu um 51/2 milljarð. En hér eru lagðar til álögur á fyrirtækin sem ku eiga að skila í ríkissjóð um 160 milljónum á næsta ári og er allt gott um það að segja.

Ég vona það og treysti því að hæstv. ráðherra standi við sínar yfirlýsingar um að hann muni beita sér fyrir heildarendurskoðun skattlagningarákvæða fyrirtækjanna. Slík endurskoðun er orðin mjög brýn. Um það vitnar margt, ekki síst sú skýrsla sem dreift var hér á Alþingi um skattsvik. Við í Alþb. höfum lagt fram ítarlegar sundurliðaðar tillögur um það hvernig eigi að standa að því í framtíðinni að fækka frádráttarheimildum fyrirtækjanna og setja skattlagningarreglur þeirra á sambærilegan grunn við einstaklingana. En eins og kunnugt er, og þarf ekki að ítreka í hv. þingdeild, þá er hér til meðferðar staðgreiðslufrv. sem á að afnema flestallar frádráttarheimildir einstaklinga. Það hlyti því að vera tímaskekkja ef ekki fylgdi í kjölfarið, og auðvitað helst samhliða, sambærileg einföldun á tekjuskattareglum lögaðilanna eða fyrirtækjanna í landinu.