18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari birtist að nokkru í þeim orðum sem ég lét falla hér við 1. umr. um þetta mál þess efnis að hér er verið að taka á skattlagningu fyrirtækja með silkihönskum á meðan stöðugt þrengir að almennu launafólki.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur lagt fram brtt. á þskj. 342. Því miður gildir nú hið sama um þær og frumvarpakássu hæstv. ríkisstjórnar að þær eru svo nýjar í mínum augum að ég treysti mér tæplega til að styðja þær allar fyrirvaralaust, þó flestar reyndar. Mér sýnist raunar og heyrðist á máli hv. flm. hér áðan að þær séu flestar athygli og stuðnings verðar. Þær munu byggðar á frv. hv. þm. Alþb. í Ed. En ég verð að viðurkenna að ég hef ekki skoðað það svo glöggt að ég kunni þar alveg saman að bera. Þessar brtt. voru a.m.k. ekki svo ég muni kynntar og ræddar í nefndinni, en það má reyndar ekki skoðast sem nein ásökun af minni hálfu á hv. flm. Þar eru málin ekki beint rædd í neinum rólegheitum þessa dagana.