18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

137. mál, launaskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það sætir nokkrum tíðindum að við erum að ræða mál sem mælt var fyrir af hæstv. fjmrh. og hann er hér fjarverandi er 2. umr. um málið fer fram.

Við 1. umr. var hér einnig hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., sem nú er genginn í salinn, og ég beindi til þeirra þriggja, hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., ákveðnum spurningum í sambandi við það mál sem hér er til umræðu, frv. til l. um breytingu á lögum um launaskatt, en hæstv. ráðherrar höfðu ekki fyrir því að svara einu einasta orði þeim fsp. sem fyrir þá voru lagðar við 1. umr. málsins, þó að rúmur tími væri til þess hér í hv. deild og fundatíma hennar ekki lokið, og hæstv. fjmrh. hljóp úr sal að ræðu minni lokinni og ég hef ekki séð mikið af honum síðan. Ég bið virðulegan forseta að gera ráðherranum viðvart, en hann er kominn hér í gættina og fagna ég því og kannski hefur hæstv. fjmrh. þá fyrir því hér við umræðuna að koma inn á þau efni sem ég ræddi hér sl. miðvikudag þegar málið var til 1. umr. í deildinni.

En það er vissulega ánægjulegt að hæstv. ráðherrar þeirra atvinnugreina eru hér viðstaddir sem þetta mál snertir alveg sérstaklega. Og við erum að ræða hér stærsta málið í rauninni. Við erum að ræða hér um efnahagslegt samhengi í atvinnulífi á Íslandi og álögur á atvinnuvegina og við getum ekki farið frá þessu máli og lokið þessari umræðu nema hæstv. ráðherrar, og best væri nú að hæstv. forsrh. legði þar eitthvað af mörkum líka sem stýrimaður á skútunni eða eigum við að segja kapteinn, geri okkur grein fyrir því með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að tryggja rekstrarstöðu undirstöðuatvinnulífs í landinu miðað við þær horfur sem dregnar hafa verið fram af ráðgjafarstofnunum ríkisstjórnar, Þjóðhagsstofnun, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. vék hér að með splunkunýja álitsgerð í höndunum frá Þjóðhagsstofnun um þessi efni, en ég vitnaði í ræðu minni sl. miðvikudag til greinargerðar Seðlabanka Íslands frá 7. des. 1987 um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum og ætla ekki að fara að endurtaka þær niðurstöður sem ég vitnaði til og liggja fyrir í þeirri grg. í von um að hæstv. ráðherrar, sem nefndir hafa verið, hafi fyrir því að gera þingdeildinni grein fyrir því með hvaða hætti þeir hyggjast bregðast við þeim erfiðleikum sem steðja að útflutningsframleiðslu og samkeppnisiðnaði í landinu.

Gengisbreytingartilefnið til lækkunar íslenskrar krónu í samanburði við það sem var fyrir átta árum er að mati Seðlabanka Íslands eitthvað á bilinu 11–15%, mismunandi eftir stöðu einstakra greina, og hún er glæfralegust í ullariðnaðinum þar sem staðan er nærri því þriðjungi lakari með tilliti til tekna og allrar stöðu en var fyrir nokkrum árum, en þyngra vegur vissulega staðan í sjávarútvegi, í útflutningi fiskafurða og hjá fiskvinnslunni, enda banka nú forstöðumenn samtaka fiskiðnaðarins upp á hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. og spyrja: Hvað ætlið þið að gera? Á þetta að sigla svona áfram? Við erum ekki að panta gengislækkun, sagði einn talsmaður fiskvinnslunnar, fiskiðnaðarins um daginn eftir að hafa rætt við hæstv. forsrh., en við viljum vita hvað ríkisstjórnin ætlar að gera til leiðréttingar á þessari stöðu þannig að atvinnuvegina reki ekki í strand, beri ekki upp á sker. Við hljótum hér á Alþingi þegar við erum að ræða frv. hæstv. fjmrh. um stórauknar álögur á þessar greinar, sem ætlast er til að Alþingi samþykki hér fyrir jól, að fá um það skýr svör: Hvað er það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera ef hún heldur fast við sína fastgengisstefnu? Og það er allt á sínum stað. Hún getur gert það. En hún verður þá að grípa til einhverra aðgerða væntanlega. Hæstv. viðskrh. skilur það samhengi væntanlega, fyrrv. og raunar verandi forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar því að hæstv. ráðherra heldur þeirri stöðu enn þá að vera með embætti forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar á bakinu svona til vara, og hann ætti að geta sem einn helsti ráðgjafi hæstv. fjmrh. lagt hér orð í belg og útlistað með hvaða hætti hann leggur til og Alþfl., sem á þessum málum heldur með Sjálfstfl., efnahagsráðuneytunum, hvernig þeir ætta að bregðast við þessari stöðu. Og síðan eru það hæstv. ráðherrar þessara greina sem eru þolendur að þessum álögum sem hér er verið að leggja til. Hvernig gerist það að þeir ætla að standa að því. Framsfl. með ábyrgð á sjávarútvegsmálunum og Sjálfstfl. með ábyrgð á iðnaðinum, útflutningsiðnaði og samkeppnisiðnaði, sem er í bullandi hallarekstri eftir því sem Seðlabanki og Þjóðhagsstofnun upplýsa okkur, hvernig ætla þessir hæstv. ráðherrar að réttlæta það fyrir sjálfum sér og fyrir þeim sem þeir ættu að vera að horfa til út frá sjónarhóli sinna ráðuneyta að frv. af þessu tagi gangi í gegn á hv. Alþingi á meðan ekki er búið að skýra fyrir okkur til hvaða ráða ríkisstjórnin ætlar að grípa?

Og það eru fleiri dæmi, sem eiga eftir að koma upp á borð hæstv. ríkisstjórnar, sem tengjast þessu.

Það er ósamið við launafólkið, við launamenn í landinu. Það fer ekki mikið fyrir viðræðum við launafólkið í þessum greinum sem ekki hefur fleytt neinn rjóma af góðæri undanfarinna ára. Þessar greinar eru í miklum erfiðleikum við að halda vinnuaflinu í samkeppni við þær greinar atvinnulífs sem hirt hafa góðærið og fest það í verðbréfum, braski og steinsteypu fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Hlutinn af vanda sjávarútvegsins, hlutinn af vanda fiskvinnslunnar í landinu er að henni helst ekki á fólki vegna þess að hún er ekki samkeppnisfær í launamálum. Fólkinu er boðið betra í öðrum greinum við aðrar aðstæður sem margir telja betri, betri vinnuskilyrði, í skrifstofum og bönkum og hvað það nú heitir, þjónustustarfsemin, og hjá hinu opinbera, en fyrst og fremst þó hjá einkageiranum, einkafyrirtækjum. Þangað leitar fólkið, en notast er við eða eftir er í vinnslustöðvunum eldra fólk, unglingar sem hlaupa til í aukavinnu, en fólk á besta starfsaldri leitar gjarnan til annarra greina þar sem meiri uppskeru er von, enda hefur það meiri tök á að hreyfa sig en þeir sem eldri eru. Hér er sannarlega dökkt í álinn eins og málin liggja fyrir að mati þeirra ráðgjafarstofnana sem vitnað hefur verið til og við óskum eftir því hér, talsmenn Alþb., að hæstv. ráðherrar svari hér fyrir sig, geri okkur grein fyrir því hvernig þeir ætla að leysa þann hnút sem þeir eru að herða með þeim frv. sem hér er verið að leggja fram og ræða við 2. umr. Og þar er nú ekki verið að skammta jafnt. Þar er ekki verið að leiðrétta stöðuna með tillliti til atvinnugreinanna því að við ræddum hér sl. miðvikudag frv. hæstv. fjmrh. um skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði þar sem gert er ráð fyrir óbreyttu hlutfalli, óbreyttum álögum á þá starfsemi sem hefur haft aðstöðu til að fleyta rjómann í góðæri liðinna missira.

Ég skal, virðulegur forseti, ekki lengja mál mitt nú í von um að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því út frá hvaða forsendum hann leggur þessi mál hér fyrir til samþykktar, til hvaða aðgerða hæstv. forsrh. hyggst grípa og hans ríkisstjórn til að leiðrétta þá stöðu sem við blasir hjá undirstöðuatvinnulífi í landinu og geri okkur grein fyrir því út frá þeim forsendum m.a., sem hann hefur lýst hér margoft úr þessum ræðustól, að ríkisstjórnin haldi fast við sína gengisstefnu. En þá hlýtur eitthvað annað að koma til. Og vænt þætti mér um ef hæstv. ráðherrar atvinnuvegaráðuneytanna, iðnrh. og sjútvrh., lýstu inn í þetta samhengi út frá sínum sjónarhóli og þeirra atvinnugreina sem þeim er ætlað að vinna fyrir, a.m.k. að fylgjast með hvernig ganga.