18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

137. mál, launaskattur

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég gleymdi því í ræðu minni áðan og vildi ég fyrir hvern mun ekki láta það niður falla, það er kannski vegna þess hversu sjálfsagt mér þótti það, að taka skýrt fram að ég tek á alla lund undir þá beiðni og þær spurningar sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði beint til hæstv. ráðherra, bæði iðnrh., sjútvrh. og fjmrh., einmitt um þetta efni, áhrif frv. um hækkaðan launaskatt. Ég vildi nánar hnykkja á spurningunum, ekki síst vegna þessara nýju viðhorfa frá því í október. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að frv. hefur vafalítið eins og fleiri frv. af þessu tagi átt sér nokkuð langan meðgöngutíma hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkum sem eru þrír, stórir og margmennir, og þess vegna ekkert óeðlilegt þó að þetta taki nokkuð langan tíma. En þegar þetta kemur síðan út úr þeirri meðferð allri skapast allt í einu ný viðhorf. (Forseti: Ég vil geta þess þó að ég sé á engan hátt að hindra ræðumann í ræðu hans að hæstv. iðnrh. hefur beðið sér hljóðs, en að sjálfsögðu heldur hv. ræðumaður áfram máli sínu.) Ég þakka þessar upplýsingar, hæstv. forseti. Það er einmitt ágætt því að þetta snertir verksvið allra þessara þriggja ráðherra svo sannarlega. Það er einmitt þetta atriði sem ég var að reyna að leggja áherslu á. Það eru þessi nýju viðhorf og það atriði að nýju viðhorfin gera það enn þýðingarmeira en áður að menn spyrni við fótum varðandi þá áætlun sem frv. um hækkaðan launaskatt ber með sér.