18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

137. mál, launaskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þann úrskurð sem hæstv. forseti var að kveða upp. Ég skildi það svo að hann væri að ítreka þá niðurstöðu sína að 2. umr. um þetta mál væri lokið. Þessu mótmæli ég. Ég talaði einu sinni við 2. umr., gekk þar eftir svörum frá hæstv. ráðherrum, alveg sérstaklega hæstv. fjmrh. Hvar er hann? Er hann að ganga úr sal? Og svör fengust ekki. Þetta var gert af öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar og hæstv. ráðherra svaraði ekki. Og við þær aðstæður áður en umræðu lauk bað ég um orðið um þingsköp til að ganga eftir áliti virðulegs forseta á því hvort það væri eðlilegt að hans mati að halda áfram umræðunni eða taka undir þá kröfu, sem fram hafði komið frá hv. 4. þm. Norðurl. e., að umræðunni yrði frestað á meðan farið yrði yfir málin og gengið eftir því hvort hæstv. ráðherrar ætluðu sér að taka þátt í umræðunni eða ekki.

Ég geri kröfu til þess að þessum fundi verði frestað á meðan úr því verður skorið með athugun á því sem hér gerðist við lok þessarar umræðu og að teknu tilliti til þinglegra hefða hér hvort úrskurður forseta sé eðlilegur og fái staðist og áskil mér rétt til að ræða hér þingsköp í framhaldi af því.