18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

137. mál, launaskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. flutti dágóða ræðu við 1. umr. þessa máls. Lýsti þar réttmætum áhyggjum sínum af afkomuhorfum, einkum og sér í lagi í fiskvinnslu, að óbreyttum skilyrðum. Ræða hans í hið seinna skipti var öllu rýrari. Hann kvartaði undan því að fjmrh. hefði vikið frá hinni fyrri umræðu. Á því voru skýringar sem hv. þm. voru fullkunnar, m.ö.o. að fjmrh. þurfti að víkja sér í Ed. til að mæla þar fyrir öðrum frv. Skýringin á því var hvorki óvirðing við hv. þingdeild né þm. sjálfan né efni málsins.

Hv. þm. vill fá yfirlýsingar frá fjmrh. eða einhverjum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til að rétta hlut fiskvinnslu eða bæta starfsskilyrði atvinnuveganna. Því er óhætt að svara játandi, en um leið verður því miður að segja sem svo að þær hugmyndir eru ekki á því stigi að það sé unnt að gera nákvæma grein fyrir þeim né heldur er það réttmæt krafa að staðurinn eða stundin sé þessi ræðustóll á þessari stundu í tilefni af umræðum um þetta mál. Ég læt mér nægja að segja að ríkisstjórnin deilir að sjálfsögðu áhyggjum hv. þm. og þar á meðal hv. stjórnarandstöðuþm. af starfsskilyrðum fiskvinnslunnar eins og nú er komið. Það er rétt að það hafa orðið umskipti til hins verra og það er jafnframt rétt að innan skamms tíma verður að grípa til aðgerða til að bæta þessi starfsskilyrði. Til þess eru ýmsar leiðir færar. Aðgerðirnar tengjast líka horfum á samkomulagi milli aðila vinnumarkaðar um nýja kjarasamninga. Þau mál eru á viðkvæmu umræðustigi og ekki vert að lýsa þeim hugmyndum, sem þar er verið að ræða, nánar hér og nú.

Þessi umræða hefur um of verið í því fari að sumir hagsmunaaðilar hafa ósköp einfaldlega verið að panta gengisfellingu. En ég legg áherslu á orðið „sumir“ vegna þess að það er alveg ljóst og hefur komið skýrt fram, m.a. nýlega í fjölmiðlum, að mjög margir áhrifamiklir talsmenn fiskvinnslunnar í landinu hafa ekki trú á hefðbundnum gengislækkunum, hafa áréttað að þeir telji það vera aðgerð sem sé fyrir fram dæmd til að vera skammæ, skila takmörkuðum árangri um skamman tíma. Það þurfi að leita annarra leiða.

Það hefur frá upphafi verið ljóst að sú leið, sem ríkisstjórnin valdi, að hafna þessum gengislækkunarpöntunum sumra háværra hagsmunaaðila og halda fast við stöðugleika í gengi væri vandrötuð leið.

Aðgerðir, sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og eru nú að stórum hluta til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi, skila ekki árangri með skjótvirkum hætti eins og pennastriksaðgerð eða „hókus pókus“-aðgerð eins og gengislækkun. Vonirnar um árangur byggðust á því að það tækist með samræmdum aðgerðum í ríkisfjármálum og peningamálum að draga svo mjög úr því mikla þensluástandi sem ríkt hefur og hemja svo þær verðbólgutilhneigingar sem gætir mjög sterklega að það dragi úr verðbólgu þegar líða tekur á næsta ár. Til þess að það dæmi gengi upp var ljóst frá upphafi að ekki mátti mikið út af bera í ytri skilyrðum og í annan stað að takast þyrfti samkomulag í kjaramálum sem byggði á því að menn reyndu sameiginlega að varðveita áunninn kaupmáttarauka, að menn reyndu að leiðrétta fyrst og fremst kjör þeirra sem lítt eða ekki hafa notið launaskriðs, en síðan tækist samkomulag um að umsamdar kjarabætur þessara aðila færu ekki upp allan launastigann. Það er ekki fjarri sanni að haldi slíkar forsendur, ef ytri skilyrði hefðu haldist en ekki versnað og ef kjarasamningar tækjust með þessu móti voru góðar horfur á því að þessi hin vandrataða leið bæri að lokum betri og meiri árangur en hin gamalkunna gengislækkunarskottulækning.

Það getum við auðvitað metið út frá reynslunni. Af sjálfsagðri kurteisi við hv. þm. ætla ég að spara mér að rifja upp þá dapurlegu reynslusögu. Sú reynslusaga er honum mætavel kunn frá þeirri tíð er hann sat í ríkisstjórnum sem reyndu þessa leið, þessa undanlátssömu gengislækkunarleið er hafði hinar hrikalegustu afleiðingar, ekki hvað síst fyrir sjávarútveginn. Þær leiddu til gífurlegrar rýrnunar á eigin fé fyrirtækja í sjávarútvegi. Þær leiddu til gífurlegrar skuldasöfnunar fyrirtækja í sjávarútvegi, svo mikillar reyndar að stöðugleiki gengis undanfarin ár og stórlega bætt staða sjávarútvegs vegna aukins afla, hækkandi verðlags og minnkandi tilkostnaðar hefur ekki dugað til að bæta þann skaða sem af hlaust á árunum 1980–1983. Allir þeir sem reynslu hafa af þessum rekstri staðfesta því að þá leið, sem farin var á þessu tímabili, gerir enginn óvitlaus maður að endurtaka. Að sönnu hlusta ég með virðingu á áhyggjutal hv. þm. og mundi með glöðu geði hlusta á ráðgjöf hans ef einhver væri, en þá ráðgjöf að feta þá slóð sem þá var fetuð afþakka ég í fullri vinsemd.

Ef spurt er: Hver eru áform ríkisstjórnarinnar að því er varðar breytingar á starfsskilyrðum útflutnings- og samkeppnisgreinanna, hver eru áform ríkisstjórnarinnar að því er varðar hlutdeild þeirra að kjarasamningum og hver eru áform ríkisstjórnarinnar að því er varðar nánari útfærslu á stjórnun í peningamálastefnu og á lánsfjármarkaði? þá er ekki með sanngirni hægt að krefjast þess að þau svör verði mælt hér af munni fram úr þessum ræðustóli í tilefni af þessu frv. Hitt er ljóst að fyrstu skrefin, sem ríkisstjórnin hefur stigið að treysta fjárhag ríkissjóðs, koma honum aftur á traustan grundvöll, eru liður í heildaráætlun og á þeim grunni má byggja mikið í framtíðinni. En þessar aðgerðir leysa ekki allan vanda, það var vitað frá upphafi, og ríkisstjórnin er reyndar ekki ein og sér fax um að leysa þennan vanda. Við eigum það í opnu og valddreifðu þjóðfélagi undir öðrum aðilum líka að dæmið gangi upp og þá á ég ekki hvað síst við verkalýðshreyfinguna, aðila vinnumarkaðarins, viðbrögi3 atvinnurekenda og þeirra sem ráða búi í atvinnulífinu sjálfu. Þetta hefur frá upphafi verið vitað.

Að því er þetta frv. sjálft varðar og starfsskilyrði í fiskvinnslu, þá er það svo, eins og fram kom í framsöguræðu minni, að þessi launaskattur á fiskvinnsluna, sem mun skila e.t.v. um 100 millj. kr. á næsta ári, skiptir ekki sköpum fyrir starfsskilyrði fiskvinnslunnar. Það má áætla, miðað við októberverðlag, að brúttótekjur í fiskvinnslu hafi verið um 15,5 milljarðar kr. þannig að þessi skattlagning ein út af fyrir sig er um 0,25% af veltu fyrirtækja í greininni og að því er varðar útgerð er ástæðulaust að hafa áhyggjur af greiðsluþoli hennar. Það er umhugsunarefni fyrir menn sem telja sig málsvara fyrst og fremst launþega, verkalýðshreyfingar, sólíalisma og ég veit ekki hvað og hvað ef menn rjúka alltaf upp til handa og fóta og taka undir kröfugerð t.d. atvinnurekenda um óbeinan ríkisstuðning, t.d. í því formi að fella niður skattheimtu, í stað þess að íhuga hvort ekki væri eðlilegra að gera þær kröfur almennt til atvinnulífsins í landinu að það leggi fram sinn skerf, standi undir sínum hlut af tiltölulega sanngjarnri skattheimtu, en ríkisstjórn, sem ber ábyrgð auðvitað á hagstjórn og efnahagsmálum, reyni að stýra þeim málum eftir almennum reglum án þess að grípa til skottulækninga af því tagi. Dæmið um starfsskilyrði atvinnuveganna er m.ö.o. miklu stærra og viðameira en það að þetta mál skipti sköpum og ég er ekki sannfærður um að það sé rétt leið að rjúka til og fella niður tiltölulega lág en sanngjörn gjöld, tiltölulega öruggur tekjustofn þetta, enda mundi það engu breyta í þessu heildardæmi.

Að lokum, herra forseti. Umræður um efnahagsmál eru góðra gjalda verðar og þarfar og alveg ástæðulaust að víkja sér undan þeim. Þær hafa sinn stað og þær hafa sinn tíma. Umræða um starfsskilyrði atvinnuveganna, um væntanlega kjarasamninga eða um aðrar aðgerðir í efnahagsmálum í framhaldi af traustari ríkisfjárhag er viðameiri en svo að það sé með sanngjörnum hætti hægt að gera það að kröfu að þessi ræðustóll hér og nú sé rétti vettvangurinn, enda var það auðheyrt af máli ræðumanns, hv. 2. þm. Austurl., að fyrir honum vakti nú ekki ítarleg eða vel undirbúin umræða heldur er hann þrátt fyrir allt, því miður, að tefja tímann með tiltölulega innihaldslitlu hjali.