18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2609 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

198. mál, tollalög

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Í upphafi, til upplýsingar fyrir hv. 2. þm. Vestf., er kannski rétt að geta þess að við innflutning ber að geta uppruna vöru þannig að þó að einhver ákveðinn framleiðandi kaupi við skulum segja fataefni frá Kóreu og flytji það til Englands og framleiði þar úr því skyrtur ber engu að síður að geta uppruna efnisins og ekki er hægt að tolla það undir EFTA-skilmálum. Auðvitað eru reyndar til misheiðarlegir framleiðendur en þeir eru sem betur fer fáir og kemst yfirleitt alltaf upp um þá.

Hitt er líka rétt hjá honum að staðir hafa verið skírðir upp til að komast inn á markað. Það þekkja kannski margir dæmið um það þegar Japanar vildu komast inn á eldspýtnamarkaðinn og skírðu litla eyju Svíþjóð þannig að þeir gætu sett á sína eldspýtustokka „Made in Sweden“, þannig að þetta er allt til staðar.

Frv. sem er til umræðu, frv. til laga um breytingu á tollalögum frá 30. mars 1987, er að mörgu leyti hið besta mál. Hér er á ferðinni langþráð breyting og um leið leiðrétting á úr sér gengnum tollalögum sem allir er að innflutningi standa og eitthvað koma nálægt tollskýrslugerð, þar með talið starfsfólk tollstjóraembættis, hljóta að fagna alveg sérstaklega. Má segja að hér sé verið að stíga eitt skrefið enn til hagræðingar við innflutning. Ég segi eitt skrefið enn vegna þess að stórt skref var einnig stigið þegar ákvörðun um afnám bankastimplunar var tekin. En því miður var það skref ekki tekið nema til hálfs þar sem hinn almenni innflytjandi á varla möguleika á því að nýta sér þann kost við innflutning á vöru.

Ég tel reyndar, herra forseti, að það væri ekki óeðlilegt að viðskrh. væri hér í salnum þegar bankamál eru til umræðu. Ég treysti því hins vegar að samráðherrann, hæstv. fjmrh., svari þá fyrir hans hönd.

Að vísu skipta tollayfirvöld sér ekki lengur af því hvort aðflutningsgjöld eru bankastimpluð eða ekki, þ.e. hvort búið sé að greiða vöruna í banka áður en til tollmeðferðar kemur. Að þeim punkti og ekki lengra nær hið nýfengna „frelsi“, þar sem gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands virðist framfylgja reglugerð frá árinu 1979 þar sem óheimilt er að leysa inn vörur án þess að hafa greitt þær eða sett tryggingu fyrir greiðslu áður. Áður en hið svokallaða afnám bankastimplunar kom til sögunnar varð innflytjandi að framvísa bankastimpluðum aðflutningsskjölum svo að tollmeðferð og afhending vöru gæti farið fram.

Og hverju munar nú afnám bankastimplunar fyrir innflytjanda? Nú fer sami innflytjandinn með sín skjöl óbankastimpluð til tollmeðferðar og fær vöruna tollafgreidda, en þar með er ekki sagan öll því að nú hvílir refsivöndur gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands yfir honum. Greiði hann ekki vöruna svo að segja samdægurs á hann yfir höfði sér að vera settur út af sakramentinu, þ.e. á svartan lista, og að öll gjaldeyrissala verði stöðvuð til viðkomandi. Þannig má segja að afnám bankastimplunar breyti aðeins því að í staðinn fyrir að fara í banka og greiða vöruna fyrir tollafgreiðslu er farið í bankann og varan greidd eftir tollafgreiðslu. Fyrir innflytjendur sem undir slíka meðferð falla var betur heima setið en af stað farið hvað afnám bankastimplunar varðar. Þar af leiðandi nýtast hagstæðir samningar sem innflytjandi getur náð við erlenda umboðsaðila sína ekki sem skyldi vegna fyrrnefndrar reglugerðar sem hlýtur hreinlega að hafa gleymst að taka tillit til þegar ákvörðun um afnám bankastimplunar var tekin.

Eins og ég var að segja nýtast ekki hagstæðir samningar við erlenda umboðsaðila né heldur hæfileikar innflytjandans til samningagerðar. Þetta þýðir í mörgum tilfellum að innflytjandinn verður að leita á náðir innlendra lánastofnana til að fjármagna innflutning sinn þegar hann hefði í raun átt að hafa möguleika á að nýta sér áunninn greiðslufrest frá umboðsaðila sínum. Á tímum fastgengisstefnu þýðir þetta verulegt tap vegna verðlagsþróunar innan lands þar sem allt verðlag fýkur upp á við á meðan gengið helst stöðugt eða jafnvel stórlækkar eins og dollarinn undanfarið.

Nei, innflytjandi verður að nota sér innlendar lánastofnanir með þeim afarkjörum sem allir þekkja. Og hver borgar svo þegar upp er staðið? Það er að sjálfsögðu neytandinn sem borgar. Það er á honum sem allt bitnar og kemur fram í hækkandi vöruverði og minnkandi kaupmætti.

Ég hvet því hæstv. viðskrh. til að gjóa nú augunum í áttina að innflutningsversluninni með það fyrir augum að leiðrétta það misræmi sem nú er hvað snertir óbankastimplaða aðflutningspappíra og leyfðan greiðslufrest.

Þá ber að geta þess að aðrar reglur gilda fyrir samkeppnisiðnaðinn í landinu og ber að fagna því að ráðamenn skynji nauðsyn þess að veita iðnaðinum einhverja vernd og aðstoð, en það verður þó að gera án þess að misbjóða öðrum aðilum með því að verða þess valdandi að hagstæðustu verðsamningar náist ekki, samningar sem þjóðin öll mundi njóta góðs af í lækkuðu vöruverði.

Fagna ber í meginatriðum þeim breytingum sem nú er verið að boða á tollalögum og tolltöxtum og þá sérstaklega samræmingu tollskrárinnar við það fyrirkomulag sem ríkjandi er innan Evrópubandalagsins og Norðurlandanna. Þetta mun m.a. hafa það í för með sér að deilumálum innflytjenda og tollyfirvalda um tollflokkun vara mun fækka verulega.

Þá er vert að fagna því að nú getur innflytjandi fengið reikninga frá erlendum umbjóðanda sínum tollmerkta að utan og treyst á að sömu tollnúmer gildi hérlendis. Þetta er til mikillar hagræðingar bæði fyrir innflytjandann og tollyfirvöld.

Eitt stærsta sporið sem stigið er með frv. er að sjálfsögðu lækkun hárra tolla og um leið afnám vörugjalds á hátollavöru sem mun leiða til allt að 50% lækkunar á vöruverði á þeim vörum sem hæstu gjöldin hafa borið. Afleiðingin verður vonandi sú að verslun með þær vörur færist að mestu leyti inn í landið þar sem hér er mikið til um þær vörur að ræða er landinn gjarnan kaupir erlendis vegna hinna háu aðflutningsgjalda hérlendis. Allar efasemdaraddir um að lækkun aðflutningsgjalda skili sér ekki í lækkuðu vöruverði hjá kaupmönnum eru fullyrðingar sem eru gripnar úr lausu lofti eins og tíminn mun leiða í ljós. Engu að síður hefur verðlagsstjóri lýst því yfir að hann og embætti hans muni fylgjast grannt með framvindu mála og gera reglulegar verðkannanir kaupmönnum til aðhalds og neytendum til góðs.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Borgaraflokksins í hv. Ed. lögðu fram brtt. við frv. Þær tillögur voru m.a. um það að fella niður tolla af kornvöru, þ.e. hinum geysivinsæla morgunverði barnanna, corn flakes, einnig um niðurfellingu tolla af neyðarblysum og neyðartöskum, svokölluðum first aid-töskum sem öll heimili í landinu ættu að eiga. Á slíka tillögu var ekki hlustað hvað sem segja má um aðrar brtt. þeirra. Og ég verð að segja það eins og er að í mínum huga er alveg sama hvaðan gott kemur svo framarlega sem það kemur. En hér inni á hinu háa Alþingi er frekar samþykkt það sem verra er ef það aðeins kemur úr réttri átt og er það í mínum huga til skammar og viðgengst slíkur hugsunarháttur hvergi annars staðar í þjóðfélaginu. Ég mun því ekki eyða tíma Alþingis í að endurflytja þessar brtt. en áskil mér þó allan rétt til þess að flytja þær eða aðrar brtt. á síðari stigum þessa máls.

Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 10. des. sl., nánar tiltekið í viðskiptablaði Morgunblaðsins, segir í fyrirsögn að hér hafi átt sér stað erfið fæðing en barnið sé hins vegar efnilegt. Yfirljósmóðir við þessa mjög svo erfiðu fæðingu var hæstv. yfirráðherra Sjálfstfl., Víglundur Þorsteinsson, eins og hv. þm. Svavar Gestsson kallaði hann og sjálfsagt er rétt. Í umræddri grein kemur fram að iðnrekendur hafa skotið líflínu til ríkisstjórnarinnar, línu sem var nógu sterk til að draga hina þrjá sundurleitu stjórnarflokka að landi. En það er ekki allt sem sýnist því að öllu líklegra er að iðnrekendur hafi þarna verið að skjóta líflínu til bjargar eigin skinni eins og svo glögglega má sjá þegar tollskráin er skoðuð þar sem greinilega kemur í ljós að hlutur iðnrekenda er langt frá því að vera fyrir borð borinn.

Almenningur í landinu má vissulega ekki gleyma því í jólakveðjum sínum til iðnrekenda að þakka þeim nú kærlega fyrir 25% söluskatt í stað 22% söluskatts eins og áformað var þar til þeir skutu út líflínunni títtnefndu því það var fyrir orð iðnrekenda sem ákveðið var að söluskatturinn skyldi standa óbreyttur eða í 25% í staðinn fyrir 22%. Í staðinn voru upprunalegar hugmyndir um vörugjald á iðnaðarvörur og ýmsar aðrar vörur dregnar til baka. Var þetta m.a. gert með þeim rökum iðnrekenda að kaupmönnum væri hvort eð er ekki treystandi til að lækka vöruverð sitt um þrjú prósentustig. Ég segi eins og er að það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir kaupmenn, það álit sem iðnrekendur láta þannig í ljós á þeim.

Hæstv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson og hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson hafa báðir komið þessum skoðunum á framfæri við fjölmiðla og væri því fróðlegt að heyra álit þeirra á því hvort þeir telji meiri líkur til þess að kaupmenn lækki vöruverð þegar virðisaukaskatturinn verður tekinn upp um áramótin 1988–1989, en þá stendur víst til að hann verði einhverjum prósentustigum lægri en söluskattsprósentan 1988 þó að mín spá sé sú að hann verði síst lægri þegar til kastanna kemur, þó ekki væri nema vegna þeirra raka sem þeir beita nú, blessaðir ráðherrarnir, að kaupmönnum sé hvort eð er ekki treystandi til að lækka vöruverð í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Eða hvað getur breytt svo mikið áliti ráðherranna á kaupmönnum á einu ári að þeir ættu allt í einu að fara að taka upp á því að treysta þeim?

Nei, af minni reynslu af kaupmönnum er hér ódrengilega að þeim vegið og reyndar úr hörðustu átt. Nóg er að kaupmönnum vegið þó að ekki bætist æðstu menn viðskipta og fjármála í landinu í þann hóp og væru þeir menn að meiri ef þeir bæðu kaupmannastéttina velvirðingar á ummælum sínum og drægju þau til baka.

Það var einnig að tillögu iðnrekenda sem vörugjald var fellt niður af ýmsum glys- og glingurvarningi en sett á sælgæti, gosdrykki og tæki til heimilisnota í staðinn. Ég get alveg samþykkt vörugjaldið á gos og sælgæti en af hverju á tæki til heimilisnota? Það get ég ekki samþykkt. Heimilin eiga sem sagt að vera nógu góð til að greiða tolla og/eða vörugjöld af t.d. steyptum baðkörum, vöskum, ýmsum hreinlætistækjum, salernisskálum, þvottavélum, kæliskápum og ýmsum nauðsynjavörum á meðan steyptar hellur, múrsteinar og þess háttar er tollfrjálst. Skyldi þetta vera tilviljun, hæstv. fjmrh.?

Þá má benda á það misræmi sem fram kemur í tollskránni milli fyrirtækja annars vegar og heimila hins vegar þar sem fram kemur að flest nauðsynlegustu tæki til reksturs skrifstofu eru tollfrjáls með öllu og skal ég nefna nokkur dæmi:

Áprentuð umslög og bréfsefni lækka úr 50% tolli og 30% vörugjaldi í 0%. Reiknivélarúllur lækka úr 35% tolli og 24% vörugjaldi í 0%. Skjalakassar og skrifstofubúnaður lækkar úr 80% tolli og 24% vörugjaldi í 0%. Ritvélar lækka úr 35% tolli og 24% vörugjaldi í 0%. Fjölritunarvélar lækka úr 35% tolli og 24% vörugjaldi í 0%. Símar, telex og telefax lækka úr 40% tolli og 30% vörugjaldi í 0%. Ljósritunarborð lækka úr 50% tolli og 24% vörugjaldi í 0%. Ritvélaborðar lækka úr 80% tolli og 30% vörugjaldi í 0%. Þarna er um gríðarlegar lækkanir að ræða og ég tel að þarna hefði mátt fara bil beggja og fella niður tolla og vörugjald af ýmsum vörum sem nauðsynlegar eru heimilum og halda í staðinn eftir einhverri tollheimtu af áðurnefndum vörum sem aðallega eru til afnota í fyrirtækjum.

Ég fyrir mitt leyti sem innflytjandi allt að því að ég settist hér inn á þing gæti vel fallist á að greiða einhver aðflutningsgjöld af ofangreindum vörum ef það mætti verða til þess að tollar af vörum til heimila lækkuðu á móti. Talandi um misræmi er ekki úr vegi að benda á að smokkar eru samkvæmt tollskránni tollfrjálsir en snuð og túttur, sem eru í sama kafla, eru hins vegar tolluð. Ekki er ég þar með að draga úr nauðsyn þess að verði á smokkum sé haldið niðri nú á dögum hins alræmda sjúkdóms alnæmis en get þó ekki stillt mig um að benda á þetta ósamræmi innan sama kaflans í tollskránni og vænti þess að ráðamenn hugi nú að framtíð Íslands, m.a. með því að fella niður öll aðflutningsgjöld af snuðum og túttum fyrir blessuð börnin.

Þá eru gjöld af tækjum til töfrabragða og sjónhverfinga felld niður og er það væntanlega gert með tilliti til sparnaðar í ríkisrekstrinum þar sem ljóst er að ráðamenn muni þurfa mikið á slíkum tækjum að halda á næstunni. Einnig eru nú tollfrjálsir ýmsir kostulegir hlutir eins og t.d. múlasnar, búnaður fyrir járnbrautir og sporbrautir, geimför, skotvagnar fyrir geimför og margir aðrir kostulegir hlutir og opnast nú greinilega ýmsir möguleikar fyrir fríska innflytjendur. Og ekki má gleyma sjónaukum sem nú eru tollfrjálsir, hvort heldur þeir eru fyrir bæði augun eða annað og er reyndar furðulegt að slíkt sé ekki nefnt einnig hvað varðar vasaklúta, hvort þeir eru fyrir aðra nösina eða báðar.

Hæstv. forseti. Ég vil fara fram á það við hv. fjh.og viðskn. að þegar hún fer yfir frv. athugi hún möguleikana á því hvort ekki megi, þar sem gert er ráð fyrir að innheimta vörugjald af vöru sem stendur í 0% A-tolli, fella vörugjaldið niður og taka þess í stað upp samsvarandi tollun. Bæði er þetta til hagræðis þar sem því færri sem vörugjaldsflokkarnir eru, því betra.

Það er hins vegar skoðun mín að fella eigi algerlega niður innheimtu vörugjalds. Þeim tekjum sem því er ætlað að skapa má hins vegar afla með venjubundinni tollun, annaðhvort á sömu tollnúmer eða, ef það hentar ekki í ákveðnum tilfellum, með hærri tollprósentu á öðrum tollskrárnúmerum.

En þar sem ég þykist þess fullviss að á slíkt verður ekki hlustað fer ég vinsamlega fram á að þegar tollskráin verður prentuð til almennrar dreifingar verði þess gætt að bætt verði við einum dálki á eftir a- og e-lið, þar sem fram komi hvort vara fellur undir vörugjald eða ekki. Gæti það væntanlega þá heitið v-liður.

Þá er einnig nauðsynlegt að viðhalda þeirri merkingu sem er í núgildandi tollskrá, þ.e. að stjarna er sett við tollnúmer þar sem innflytjanda ber skylda til að tilgreina stykkjafjölda vöru á aðflutningsskýrslu.

Ég vil einnig hvetja hæstv. fjmrh. til að taka til gaumgæfilegrar athugunar ytri tolla, þ.e. tolla t.d. frá Bandaríkjunum og reyndar aðallega frá Bandaríkjunum, og athuga vel hvort ekki er hægt að lækka þá en gæta þess þó að samræmi sé á tollheimtu okkar á vörum frá Bandaríkjunum og á vörum sem við seljum til Bandaríkjanna og má nefna sem dæmi ullarvörur.

Hæstv. forseti. Ég vil segja það að í megindráttum er ég nokkuð sáttur við frv. og tel það vissulega spor í rétta átt þó að auðvitað megi endalaust deila um tollun hinna ýmsu vörutegunda, misræmi milli flokka, hvar skuli taka vörugjald og hvar ekki o.s.frv. Ég treysti því hins vegar að tollskráin verði í stöðugri endurskoðun og bendi á að auðvelt ætti að vera að gera lagfæringar á tollskránni samhliða gildistöku virðisaukaskatts um áramótin 1988–1989.

Ég vil hins vegar gagnrýna það harðlega að þm. skuli ekki vera gefinn fullnægjandi tími til að fara yfir og kynna sér jafnviðamikið frv. og hér er lagt fram. Það hlýtur að vera hugsanlegur möguleiki að fresta gildistöku frv. þó ekki væri nema til 1. febr. 1988 þannig að þingheimi gæfist betri tími til að kynna sér málið, t.d. í jólaleyfinu, enda eru engin sérstök rök fyrir því að lögin þurfi endilega að taka gildi um næstu áramót. Vissulega þýðir þetta það að einnig yrði að fresta gildistöku frv. um vörugjald.

Og talandi um vörugjald væri ekki úr vegi að spyrja hæstv. fjmrh. okkar hvers vegna ekki er sett á eitt vörugjald heldur tvö og á ég þá við 25% heildsöluálag sem reikna á ofan á vörugjaldið við innflutning. Hvernig á að reikna þetta út á tollskýrslu? Á fyrst að reikna út 14% og taka síðan 25% heildsöluálag ofan á það? Eða er meiningin að reikna vörugjaldið út frá 17,5%? Og ef svo er, því í ósköpunum er þá ekki einfaldlega sagt að vörugjald skuli vera 17,5%? Því þennan skrípaleik? Hvað er verið að gera með slíkri aðgerð? Er ekki aðeins verið að slá ryki í augu almennings?

Það má einnig spyrja hæstv. fjmrh. hvort fjmrn. sé ekki hér að segja heildsölum og öðrum innflytjendum að lágmarksheildsöluálagning í landinu eigi að vera 25%.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað þýðir 25% heildsöluálagningin á 14% vörugjaldið í beinhörðum peningum? Hvaða tekjum skilar þetta eitt og sér?

Ýmis gjöld hafa verið felld niður en ég er hérna með í hendinni þann lista yfir aukagjöld sem tekin eru í tolli í dag og mér sýnist að enn standi eftir 8–9 gjöld. Ýmist eru þetta beinar tollheimtur eða eyrnamerktar tekjur fyrir aðra sjóði, ég þekki það ekki alveg svo vel. En mig langar að spyrja ráðherra hvort komið hafi til greina að fella út jöfnunargjaldið einnig? Ef ekki, hvort hætta sé á að sá stofn verði breikkaður og það lagt á ný tollnúmer.

Hæstv. forseti. Ég er búinn.