18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

198. mál, tollalög

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu né halda ræðustólnum lengi frá hv. 5. þm. Reykv.

Ég vil alveg sérstaklega fagna því að hæstv. viðskrh. hyggst taka á og afnema algerlega bankastimplun sem er mikið hagsmunamál fyrir innflutningsverslunina alla.

En ég vil segja það vegna hinnar íslensku tungu sem fram á að koma á tollskýrslum í dag, og ég verð að segja að ég dáðist að framburði hæstv. ráðherra hérna rétt áðan, að það er þannig að hafir þú ekki reiðubúna þýðingu á þeim hlut sem þú setur á tollskýrslu færðu hana einfaldlega í hausinn aftur. Hún fær ekki tollafgreiðslu. Þess vegna hlýtur það að skjóta skökku við að sjálf tollskráin skuli vera með útlendum nöfnum. Það getur ekki annað verið.

Hæstv. fjmrh. talar um að menn séu að slá sér á brjóst og gera sig breiða og hefur oft sagt að menn séu að slá pólitískar keilur í hinum og þessum málum. Ég verð að segja alveg eins og er að ef einhver slær pólitískar keilur þessa dagana er það hann sjálfur þegar hann talar um nýju tollskrána. Hann á sennilega hvað minnstan þáttinn í henni sjálfur af öllum þeim ráðherrum sem þar hafa komið nálægt.

Og rétt í lokin spurði ég hæstv. ráðherra að því hvað þýddi 25% heildsöluálag í beinhörðum peningum, hvað aflar það mikilla tekna fyrir ríkissjóð? Ég hef ekki fengið svar við því enn þá.