18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2648 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

198. mál, tollalög

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér leiðrétta þá hugsanaskekkju sem það hlýtur að vera hjá hæstv. viðskipta- og bankamálaráðherra að tímalengdin sem tekið hefur að útbúa þetta frv. geri þörfina svo brýna að það þurfi að vinna það svo hratt hér í þinginu að ekki finnist nægilegur tími til að vinna verkið vel. Það skal til þess vanda sem lengi á að standa. Þar af leiðandi er það öfugmæli hjá hæstv. ráðherra að haga orðum sinum á þann hátt sem hann gerði. Það er flausturslegt að heyra það koma frá ábyrgasta aðila í einum málaflokki. Og breytingarnar þurfa ekki að gerast skjótt. Það verður að athuga þær vel, gaumgæfilega. Það er betra að taka til þess tíma en að hrófla málum af.

Ég harma ummæli hæstv. ráðherra um greiðslufrestinn vegna þess að hann er ekki eins flókinn í lögum og ráðherra gaf til kynna. Það er afskaplega einfalt að afnema þennan skatt og Seðlabankinn á ekkert að koma þar nálægt. Þegar ríkisstjórnin er búin að taka ákvörðun og Alþingi að ákveða að afnema bankastimplun er bankastimplun þar með afnumin og Seðlabankanum kemur það ekki meira við. Það hefur ekkert með það að gera hvort tölvuskráning hjá tollstjóra þarf að breytast eða breytast ekki. Þetta er fyrirsláttur sem er rökleysa.

Ef allt sem hugsað er á jörðu finnst í íslensku máli, hvað þá með tollskrána? Það er líka rökleysa því að hún á að vera á íslensku. Það gengur ekki upp neitt að því sem hæstv. ráðherra sagði.

Hitt vil ég segja til fjmrh. hæstv.: Það var engin nefnd skipuð af mér sem ráðherra fjármála sem hét skattsvikanefnd. Það var orð sem hv. þm. og formaður Alþfl. á þeim tíma, núv. hæstv. ráðherra fjármála, gaf þeirri nefnd vegna þess að hann óskaði eftir að sérstaklega yrðu rannsökuð skattsvik og yrði tekið inn í þá rannsókn eða athugun hverju söluskattur mundi skila í heild sinni ef engin undanþága væri á neinu, engu. Það var niðurstaðan sem fjmrn. undir minni stjórn skilaði á sínum tíma. Það sem þá var talið að hægt væri að innheimta var um 10 milljarðar kr. og það kallaði hv. þáv. þm. skattsvikaupphæðina. Það var sem sagt ósk Alþfl. þá að rannsaka hve mikið mætti innheimta í söluskatt ef lagður yrði skattur á allt það sem var undanþegið söluskatti á þeim tíma.

En hæstv. ráðherra gerði tilraun til að svara mínum spurningum um hvernig hann ættaði að standa við þær fullyrðingar að nú mundi söluskatturinn innheimtast betur en áður vegna þess að nú kemur hann á fleiri vörutegundir en áður var. Niðurstaðan var þrír punktar, þrjú svör.

Sú fyrsta á að vera auðskilin. Það á að sjá til þess að fólk sem hefur unnið með söluskatt í áratugi fari loksins að skilja hvað söluskattur er og þá líklega um leið að því beri að skila honum því hann hefur haldið því fram að sumir héldu honum eftir.

Síðan er hugsanlegt að taka upp innsiglaðar sjóðvélar eins og í Bandaríkjunum. Ég verð að segja það hér að ég keypti Newsweek í einni verslun í Ameríku og þar þurfti ég að borga söluskatt aukalega, en ég keypti Times í annarri verslun vegna þess að Times var ekki til í þeirri fyrri og þar sleppti hún mér við söluskattinn. Innheimtan er ekki alveg traust. Ég spurði þá hvort hún tæki ekki söluskatt af blaðinu eins og hefði verið gert í hinni búðinni. Svarið var: Það tekur enginn eftir því. Það er ekki alveg víst að þessar sjóðvélar vinni einar 100% að innheimtunni. „Det skal to til“, sagði einhver.

Svo er þriðja og síðasta atriðið og má segja næstsíðasta atriðið. Það er að tollþjónustan tæki upp eftirlit eftir að hennar verkefni lýkur, verkefni sem hún hefur nú ekki með að gera. Það er sem sagt ekkert ákveðið.

Síðan er bætt upplýsingaþjónusta.

Svarið er, af þessum fjórum punktum sem hæstv. ráðherra gaf að dæma, á ekki að gera neitt. Það hefur ekkert verið gert sem styður þær fullyrðingar hæstv. fjmrh. að innheimta söluskatts verði væntanlega miklu betri en hún hafi verið áður.