18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

137. mál, launaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins örfá orð við 3. umr. Það er í raun búið að ræða þetta mál nokkuð ítarlega fyrr í dag og þarf svo sem ekki mjög miklu við að bæta, nema þá varðandi það sem var nokkuð talað um í sambandi við stöðu þeirra atvinnugreina sem hér er lagt til að leggja á launaskatt, gengismál og stöðu íslensku krónunnar. Það mál er víða til umræðu, m.a. í fjölmiðlum þar sem hæstv. ráðherrar og ýmsir aðrir mektarmenn láta eitt og annað gáfulegt frá sér fara. Það hefur fyrst og fremst verið boðskapur og erindi ráðherra, hvort sem heldur er í ræðustól á hinu háa Alþingi eða í fjölmiðlum, að fullyrða að það komi ekki til mála og standi ekki til að breyta fastgengisstefnunni, hún sé það sem skuli vera hvað sem tautar og raular. En svo læðast með í máli manna og ræðum dálítið kyndugar tvíræðar setningar, og hæstv. iðnrh. er höfundur nokkurra slíkra undanfarna daga, um að samt sé eitthvað í vændum. Ég hef það eftir hæstv. fjmrh., sem að vísu lét þau orð falla annars staðar en á þessum vettvangi, mér skilst í umræðunni í hv. Ed., að „fljótlega verði að gera umtalsverðar efnahagsráðstafanir“ — umtalsverðar efnahagsráðstafanir. Er þetta ekki rétt með farið? (Fjmrh.: Jú, jú.) Já, hæstv. fjmrh. Þá hef ég skilið það svo að það séu aðrar ráðstafanir en þær skattaráðstafanir og fjárlagaráðstafanir sem þingið er að vinna með. Það er eitthvað alveg annað, eitthvert „leyndó“ sem ekki er til umræðu og ekki er á dagskrá Alþingis. Og ég vil áður en þetta ágæta frv., sem er svo sem ekki svo ágætt, fer héðan út úr deildinni og verður að lögum frá Alþingi láta koma skýrt fram að það er bágborin frammistaða af hæstv. ráðherrum, talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum, ef lagðar eru hér álögur á útflutningsatvinnuvegina í ljósi þeirrar rekstrarstöðu sem þar er, í ljósi þeirra erfiðleika sem þar er við að glíma, bæði í sjávarútvegi og útflutningsiðnaði, þegar fyrir liggja gögn eins og skýrsla þessi frá Seðlabanka Íslands: Greinargerð um þróun og horfur í peningamálum og gjaldeyrismálum og gengismálum. Þar er í aftasta kafla allmerkileg samantekt um stöðu þessara mála, um samkeppnisstöðu greinanna og um gengishorfur eða e.t.v. ætti að segja áhrif þess ef fastgengisstefnunni verður haldið til haga og hún verður við lýði t.d. út allt næsta ár að breyttu breytanda miðað við hvernig efnahagsmálin líta út. Þar er, virðulegur forseti, allmerkilega hluti að finna, t.a.m. um samkeppnisstöðu hinna einstöku atvinnugreina. Það kemur þar fram að ef vísitala samkeppnisstöðu er sett á 100 árið 1979 fór hún hæst á árunum 1983–1986 í 110–115–120 stig, mismunandi eftir því hvort átt er við allan útflutning, sjávarútveg eða útflutningsiðnað. En núna er þessi sama vísitala miðað við 100 1979 komin niður fyrir 70 stig fyrir samkeppnisiðnað. Þar hefur ekki orðið nein smáræðisbreyting á.

Aftar í skýrslunni frá Seðlabankanum eru töflur yfir raungengi krónunnar. Hvernig skyldi það vera? Ef við miðum við raungengið 100 árið 1980 stendur það núna við árslok 1987 nálægt 110 hvort sem heldur er miðað við afstæðar verðvísitölur eða afstæðan launakostnað. Og hvað þýðir fastgengisstefnan áfram út allt næsta ár ef verðlagsþróun að öðru leyti verður svipuð og Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun gera ráð fyrir? Hún þýðir, hæstv. iðnrh., að raungengi krónunnar verður komið yfir 120 stig miðað við afstæðar verðvísitölur og 117 stig miðað við launakostnað. Þetta er mikil breyting á einu ári svo ekki sé talað um þróunina til að mynda frá 1980. Það þarf að fara langt aftur í tímann ef menn ætla að finna hliðstæður um hátt raungengi íslensku krónunnar. E.t.v. þarf að fara aftur til 1926, í eitt af fáum skiptum í Íslandssögunni þegar raungengi krónunnar var hækkað með allmiklum afleiðingum og umræðum eins og þeir sem lesið hafa sögu Sjálfstfl. þekkja.

Breyting þessarar gengisstöðu er umtalsverð. Ef við tökum bara síðustu ársfjórðunga hafa auðvitað orðið mestar breytingar þar. Förum í samkeppnisstöðu útflutningsins og skoðum breytinguna frá þriðja ársfjórðungi 1986. Hún er þá 109 miðað við 100 1979, en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að á sama ársfjórðungi tveimur árum síðar, þ.e. á þriðja ársfjórðungi 1988, verði hún komin í 83,9. Og enn verri eru horfurnar fyrir útflutningsiðnaðinn sem hæstv. iðnrh. ber nú einkum og sér í lagi fyrir brjósti. Þar er staðan þannig að ef samkeppnisstaða útflutningsiðnaðarins er sett á 100 árið 1979 er hún líka nálægt 100 á þriðja ársfjórðungi ársins 1986 en stefnir niður í 70 á þriðja ársfjórðungi næsta árs. Það er breyting um rúm 30% niður á við á tveimur árum og þar af um meira en 15% á einu ári.

Svipaða sögu og þó ekki alveg jafnsvarta er að segja af samkeppnisiðnaðinum og útflutningsgreinunum í heild sinni. Það eru þessar upplýsingar, herra forseti, sem gera að verkum að það er ósköp snautlegt hjá hæstv. ráðherrum að vera með glósur í fjölmiðlum og tvíræðar setningar í ræðustól um að það verði að grípa til efnahagsráðstafana og það verði að gera þetta og hitt, sem aldrei fæst þó útskýrt hvað er, á sama tíma og þeir vilja láta afgreiða lög um nýjar álögur á atvinnugreinarnar sem hér er verið að ræða um, á sama tíma og alþm. hafa í höndunum upplýsingar af því tagi sem hér hefur verið vitnað til í dag, bæði frá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka, um þá bullandi erfiðleika sem við er að glíma, um þær horfur sem eru og gera öllum mönnum ljóst að þessi fastgengisstefna án annarra ráðstafana þá a.m.k. gengur ekki upp. Hún er reyndar þegar komin í strand fyrir löngu. Það gefur auga leið að það er ekki hægt á örfáum missirum að horfa upp á stöðu samkeppnisgreina eða útflutningsiðnaðarins versna um 30% án þess að það hafi einhver áhrif.

Hæstv. iðnrh. var að tala um það hér í dag að eitt og eitt fyrirtæki fari kannski á hausinn en ég er nú ansi hræddur um að það geti orðið eitthvað alvarlegra sem gerist ef hæstv. ríkisstjórn á ekki einhver betri ráð í pokahorninu en hún leggur fyrir Alþingi. Það er ljót og leiðinleg venja þegar við blasir að grípa þarf til aðgerða í efnahagsmálum að draga það fram yfir þann tíma að Alþingi, löggjafarsamkoman, er farið heim, þar sem slík mál eiga eðli málsins samkvæmt að ræðast og ákvarðast, og grípa svo til einhverra geðþóttaráðstafana með bráðabirgðalögum. Það er ljót og leið venja. Og standi það til er a.m.k. alveg klárt að sá sem hér talar vill hafa fullan fyrirvara á fyrir sjálfs sín hönd og Alþingis gegn slíkum vinnubrögðum.