18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

137. mál, launaskattur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Þessi ræða, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. var að klára hér í ræðustól, er þess eðlis að það er alveg útilokað að forsrh. eða aðrir ráðherrar sitji og hlusti á hana og segi ekki neitt og svari ekki. Áttar fólkið í landinu sig á því hvað hv. þm. var að gefa í skyn? Það má segja að hann hafi verið að taka undir það sem ég er búinn að vera að segja í ræðustól alveg frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum. Daglega hafa verið hækkanir á ýmsum vörutegundum, allt eru þetta meira og minna innfluttar vörur. Það þarf ekki hagspakan mann eins og hæstv. fjmrh. eða viðskipta- og bankamálaráðherra til að segja fólkinu að gjaldeyririnn í þessum vörum, sem kostar meira frá einum degi til annars, kostar meira í dag en hann kostaði í gær, beri ekki í sér gengislækkun frá degi til dags. Gengið er að falla daglega og það er ekki nema eðlilegt. Ég var mjög ánægður með að ég heyrði að forsrh. hefði ekki viljað gefa upplýsingar um hvort það hafi átt að fella gengið eða hvort gengið yrði áfram fast. Hingað til hefur hann alltaf sagt: Gengið er fast, og ekkert hvikað frá því. Nú vill hann ekkert segja, jafnvel þótt það væri aðeins klukkutími í að hann felldi gengið.

En síðasti ræðumaður, hv. 4. þm. Norðurl, e., gefur í skyn að ríkisstjórnin undirbúi að fella gengið þegar Alþingi fer heim í jólafrí og hefur allan fyrirvara á afstöðu sinni og málflutningi ef það verður gert í fjarveru Alþingis og óvænt og ráðherrar sitja undir slíkum fullyrðingum og ætlast til þess að hæstv. forseti slíti fundi eða umræðum án þess að nokkur af ábyrgustu aðilum þingsins og þjóðarinnar, ríkisstjórnin sjálf, svari fullyrðingum og upplýsingum sem koma frá einum leiðtoga stjórnmálaflokks. Þetta gengur ekki.

Ég tek undir hans orð, því ég geri ekki ráð fyrir að þau séu töluð út í loftið án upplýsinga, og óska eftir því að einhver, mér er alveg sama hver er, einhver úr ríkisstjórninni komi upp í ræðustól og svari virðulegum formanni þingflokks Alþb., hv. 4. þm. Norðurl. e. Það er stórt mál, sem varðar hvert einasta mannsbarn með þjóðinni, ef gengið verður fellt óvænt. En ef hann hefur upplýsingar, sem kom fram óbeint í hans orðum, óska ég eftir að ríkisstjórnarmenn, ráðherrar, svari einhverjir.