18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

137. mál, launaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég ætla einungis að undirstrika það sem ég var að segja áðan og erindi mitt hingað í ræðustól var eingöngu að vitna til þeirra gagna sem liggja fyrir um þessi mál. Ég rakti upplýsingar Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnunar. Það eru aðstæður sem blasa við mönnum. Það eru gögn sem menn hafa í höndunum um aðstæður í efnahagslífinu á Íslandi fyrir þessi áramót. Ég tók fyrst og fremst að mér að fara yfir þær yfirlýsingar og nefna dæmi um hvernig hæstv. ráðherrar hafa hagað orðum sínum undanfarna daga, m.a. hæstv. fjmrh. sem sagði í virðulegri Ed. og hefur staðfest það að innan tíðar væri óhjákvæmilegt að gera umtalsverðar efnahagsráðstafanir. Síðan var það ekki skýrt nánar. Það kom einnig fram eða hæstv. ráðherra kinkaði kolli við því að þar væri átt við aðrar ráðstafanir en þær sem fram ganga af fjárlögum og fjáröflunarfrv.

Ég gerði ekki mikið meira, hv. 5. þm. Reykv., en að benda á það og vekja á því athygli að þessar upplýsingar væru fyrir hendi og að hæstv. ráðherrar hefðu látið ummæli falla af þessu tagi. Ég tók eftir því, eins og hv. 5. þm. Reykv. hefur greinilega gert einnig, í kvöldfréttum Sjónvarpsins að hæstv. forsrh. hagaði orðum sínum með nokkuð öðrum hætti þar aðspurður um gengismál en hann hefur gert fram undir þetta.

Ég er alveg sammála hv. 5. þm. Reykv. um að það að boða fyrir fram ráðstafanir t.d. í gengismálum er óæskilegt og ekki heppilegt, en hitt er jafnalvarlegt og jafnvel enn óæskilegra að leyna Alþingi því ef þingbundin ríkisstjórn hefur á prjónunum ráðstafanir í efnahagsmálum. Ef slíku er haldið leyndu þegar Alþingi er sólarhringum saman að ræða efnahagsmál, að ganga frá fjárlögum, að undirbúa efnahagsstefnu næsta árs er það býsna alvarlegt að hæstv. ráðherrar eru svo í hinu orðinu að boða ráðstafanir sem grípa eigi til að því er virðist þegar Alþingi hefur lokið störfum og farið í jólaleyfi. Það hefur að vísu oft gerst. Fyrir því eru mörg slæm fordæmi. Það er vissulega rétt. En málið verður ekki betra við það. Það bætir ekki þann slæma málstað að þingbundnar ríkisstjórnir eiga ekki að sneiða fram hjá sínum þjóðþingum heldur þvert á móti að vinna með þeim og reyna að leggja þar ævinlega málin fyrir ef þess er kostur og líta á ráðstafanir sem gripið er til utan þingtíma, ég tala nú ekki um ef þeim fylgja bráðabirgðalög, sem hrein neyðarúrræði.