19.12.1987
Neðri deild: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

197. mál, vörugjald

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Um þetta frv. gildir hið sama og um mörg önnur þingmál, að það þarf grandskoðunar við sem enginn tími er síðan gefinn til. Ég verð að segja að mér finnst það ómaklegt af hæstv. ráðherra að kalla það kvartanir þótt hv. þm. vilji fá tíma til vandaðra vinnubragða.

Frv. sem hér um ræðir er fylgihnöttur tollafrv. og enn einn fylgihnötturinn og sínu verstur og hættulegastur er svo söluskattsfrv. sem væntanlegt er frá Ed. einhvern tíma á þessu ári. Um vörugjaldsfrv. sem hér er til umræðu er hið sama að segja og um tollafrv. að það færi best á því að endursenda hæstv. ríkisstjórn þetta frv. með jóla- og nýársóskum og fela henni að skoða þessi þingmál aftur með tilliti til ýmissa athugasemda sem komið hafa fram hjá alþm. og ýmsum aðilum í þjóðfélaginu því að eins og hv. 5. þm. Vesturl. sagði í umræðum um tollafrv. er engin goðgá að fresta þessari lagasetningu t.d. til 1. febrúar svo nægur tími gefist til að skoða þessi mál og færa til betri vegar það sem þörf er á. En sjálfsagt ansa meirihlutamenn ekki slíku. Þeirra vilji stendur til að keyra þetta í gegn á þessu ári hvort sem við náum því fyrir jól eða ekki.

Ég mun að sjálfsögðu leita eftir stuðningi meðnefndarmanna minna í fjh.- og viðskn. við þær brtt. sem þingkonur Kvennalistans í Ed. lögðu fram við afgreiðslu málsins þar. Þær brtt. fela í sér að fella sykur og sætindi undir vörugjaldsálagningu og er það að sjálfsögðu í samræmi við þá margnefndu manneldisstefnu sem ég fór um nokkrum orðum í umræðum um tollafrv.

Því miður hefur nánast enginn tími gefist til að fá upplýsingar og fréttir hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur af starfi fjh.- og viðskn. Ed. og umfjöllun um þetta mál í Ed. og þeirri nefnd sem hafði málið með höndum. Vel má vera að í þeirri umfjöllun hafi margt komið fram sem ástæða væri til að ræða hér. En það verður þá að bíða seinni tíma þegar hv. nefndarmenn hafa farið yfir öll þessi mál lið fyrir lið.

Ég verð þó að segja að ef stjórnarliðar ætla að láta kné fylgja kviði og rusla þessu í gegn á þessu ári ásamt tollafrv. og söluskattsfrv. get ég ekki staðið að slíkri afgreiðslu. Hér er um svo stór mál að ræða að það er algert lágmark að fá einhvern tíma til að skoða þau.

Ég sé ástæðu til þess í þessu sambandi að taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. e. sem hann lét falla í umræðum um tollafrv. þegar hann rifjaði upp veru sína í samgn. Nd. á síðasta kjörtímabili. Þar var ekki verið að gefa eftir með vinnubrögðin hvað sem tímanum leið. Um það get ég borið. Hv. 6. þm. Norðurl. e. lét ekki neinn þrýsting ráðherra á sig fá og fór yfir hvert einasta frv. lið fyrir lið. og má hann vel eiga þann heiður.

Að svo mæltu segi ég ekki meira um þetta frv. í þessari umræðu.