19.12.1987
Neðri deild: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2657 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

197. mál, vörugjald

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er greinilegt að ræður gerast nú svo stuttorðar og gagnorðar að það er vissara að bregða sér ekki langt frá. Ég reyni kannski að taka mér það til fyrirmyndar og verða stuttorður og gagnorður. Reyndar hef ég verið það í allan dag að því er ég tel og flestir aðrir sem hafa tekið þátt í ánægjulegum umræðum sem staðið hafa nú um nokkra hríð með hléum frá því kl. 10 í gær að morgni dags.

Nú er komið til umræðu frv. til laga um vörugjald. Það er hluti af skattapakkanum, jólapakkanum mikla sem sennilega verður lengi í minnum hafður á Íslandi, hvort sem honum verður gefið eitthvert aðventunafn eða hvort hann verður skírður í höfuðið á helsta guðföður, hæstv. fjmrh. Það er verkefni fyrir orðhaga menn að dunda sér við yfir hátíðarnar að finna þessari miklu skattasúpu, þessum mikla skattapakka eitthvert hæfilegt nafn. Ég tel að þar sem þessi skattaumræða rennur saman yfir sólarhringamörk og stendur þar með í bókstaflegri merkingu sólarhringunum saman sé erfitt að setja upphaf og setja endi. Í raun og veru verður aðeins gert hlé á skattaumræðunni þó lokið verði umræðu um þetta frv. því fleiri eru í vændum og það á einnig eftir sína vegferð hér og 2. og 3. umr. bíða betri tíma.

Ég get vísað í þær ræður nokkrar sem ég hef flutt um skattapakkann í heild sinni og einstök mál hans. Hér er í sjálfu sér á ferðinni mjög skylt frv. því næstsíðasta sem hér var rætt, frv. um breytingu á tollalögum, og getur flest hið sama átt þar við. Afstaða stjórnarandstöðunnar í Ed. var hin sama til þessa frv., þ.e. að leggja til að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að láta vinna frv. betur. Í því felst að menn taka ekki efnislega afstöðu og eru alls ekki endilega að segja að þeir séu efnislega andvígir frv. En þeim búningi sem það birtist í og þeim vinnubrögðum sem eru þar viðhöfð kyngir stjórnarandstaðan ekki og leggur til að ríkisstjórnin kalli málin til sín að nýju eða fái þau til sín og vinni þau betur og leggi þau fram að nýju eða önnur afkvæmi þeirra í betra tómi.

Það er eitt sem ástæða væri til að inna hæstv. fjmrh. eftir og mætti hann gjarnan svara nú eða þá síðar áður en það er um seinan. Það er mikilvægi þess að þessar kerfisbreytingar í tollamálum og vörugjaldsmálum og jafnvel fleiru eigi sér stað um áramót - eða nauðsyn þess. Málunum er stillt þannig upp hér á hinu háa Alþingi að það sé nánast lífsnauðsyn að þessar breytingar allar gangi í gegn og verði að lögum fyrir áramót og taki þegar gildi. En það vita kunnugir að oft og iðulega hefur ákvæðum um söluskatt og jafnvel fleiri anga þessara mála verið breytt innan árs eða á miðjum árum. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti fært að því einhver gildari rök en „af því bara“ að það sé nauðsynlegt að öll þessi mál verði afgreidd fyrir áramót. Er ekki hugsanlegt, hæstv. ráðherra, t.a.m. að einhver af þessum tengdu frv. bíði og öðlist gildi einn eða tvo mánuði inni á hinu nýja ári? Breytir það í sjálfu sér miklu þó eldri ákvæði giltu einn eða tvo mánuði í viðbót? Vissulega vita menn um vandkvæði þess að boða svona breytingar með löngum fyrirvara. Það er æskilegt að sjálfsögðu að þær geti gengið fljótt fyrir sig. En hitt er líka mikilvægt og æskilegt að vinnubrögðin séu ekki stórlega ámælisverð og að Alþingi, löggjafarvaldið, setji ekki niður við það að afgreiða málin með ófullnægjandi hætti.

Herra forseti. Ég ætla að hafa þessi orð fá og vísa til fyrri ræðuhalda um skattamálin, einkum og sér í lagi tollamálin, og geyma mér þá efnislega og ítarlega umfjöllun um þetta sérstaka frv., þennan sérstaka lið sem þyrfti eiginlega að tölusetja í skattapakkanum. Það þyrfti að búa til sérstök þingskjalanúmer sem væru þá númerin í skattapakkanum því að það er erfitt að dreifa þessum skattafrv. innan um önnur þskj. Það væri æskilegast að það væri sérstök töluröð fyrir skattamálin. Þá væru það kannski a- og b-flokkar og 1, 2, 3, 4 og 5 o.s.frv.

En þetta er frv. til l. um vörugjald. Það kemur að sjálfsögðu til skoðunar í hv. fjh.- og viðskn. Þetta er ekki jafngeysilega erfið og mikil og tormelt lesning og tollafrv. er, en þó er þetta mál sem er ekki auðvelt að nálgast með hraðlestri. Það eru t.d. talnaraðir miklar, á bak við hverjar eru vöruflokkar og vöruheiti sem ekki koma fram í frv. Sá sem lítur á svona plagg í fyrsta sinn er því litlu nær.

Ég hef í raun engu við þetta að bæta, herra forseti. Ég kann varla við að gera stífar kröfur um að hæstv. fjmrh. fari einu sinni enn í ræðustólinn. Ég hef gert talsvert af því að brýna hann þangað upp í dag. En þó er það fyrst og fremst þetta sem ég hefði haft gaman af því að fá að heyra um örfá orð: Hver eru helstu rökin fyrir því að slíkar breytingar verði allar að fara saman og taka gildi um áramót? Eru ekki möguleikar á því að fresta t.a.m. gildistöku einhverra af þessum ákvæðum þannig að Alþingi geti þá annanna vegna og aðstæðna lagt þá hluti til hliðar í samkomulagi bæði stjórnar og stjórnarandstöðu og tekið sér það fyrir hendur að skoða þau mál betur við hægari aðstæður á nýbyrjuðu ári? Ekki mundi standa á þeim sem hér talar að leggja það til í sínum flokki að menn kæmu þá saman til starfa að nýju eftir áramót fyrr en ella ef það mætti verða til þess að sæmilegra samkomulag gæti orðið um meðferð málanna.