19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

Frumvarp um söluskatt

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég reikna með því að hér verði rætt um frv. til l. um breytingar á lögum um söluskatt, 3. umr., en gert hafði verið ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. útvegaði ákveðnar upplýsingar varðandi útreikning á tekjuforsendum fjárlaga fyrir árið 1988 þegar eða áður en sú umræða færi fram. Ég mundi leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta að hún kannaði hvort hægt er að fjmrh. komi til fundar við deildina og geri grein fyrir rannsóknum sínum og embættismanna sinna á þessu máli eða þá að frv. til lánsfjárlaga, sem hér mun vera einnig á dagskrá, yrði tekið fyrir áður ef vill. Ég óska eftir því að hæstv. forseti kanni hvort möguleikar eru á því að hæstv. fjmrh. komi á fund deildarinnar hið fyrsta.