19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Hæstv. forseti. Hér er á dagskrá frv. til l. um matarskatt sem er satt að segja að mínu mati einn ljótasti bletturinn á efnahagsstefnu núv. ríkisstjórnar og er þá langt til jafnað að ætla sér að leggja söluskatt á matvörur.

Ég hyggst ræða málið aðallega út frá tveimur forsendum. Í fyrsta lagi: Hvaða áhrif er hugsanlegt að þetta hafi á þann veigamikla þátt efnahagsmála á næsta ári sem eru kjarasamningar og staðan á vinnumarkaðnum? Og í öðru lagi hyggst ég ræða þetta út frá þeirri forsendu: Er endilega nauðsynlegt að ganga þannig frá þessu máli að aðeins sé um eina álagningarprósentu veltuskatts af þessu tagi að ræða? Hefði ekki verið hugsanlegt að vera með fleiri prósentur við álagningu þessa skatts?

Og þá fyrst varðandi þá spurningu hvaða áhrif er líklegt að þetta hafi á kjarasamninga og stöðuna á vinnumarkaðnum á næsta ári. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir fyrir nokkrum dægrum að það væri óhjákvæmilegt að grípa til umtalsverðra efnahagsráðstafana a árinu 1988, í upphafi þess árs. Hann sagði reyndar: Fljótlega verður gripið til efnahagsráðstafana.

Hæstv. utanrrh. segir í viðtali við blað sitt Tímann í dag, með leyfi forseta: „Raunvaxtaokrinu verður að linna.“

Hæstv. viðskrh. segir í viðtali við fréttastofu útvarps fyrir tveimur kvöldum: „Markaðslögmálin verða að fá að hafa sinn gang“, þannig að hann er andvígur því að gripið verði til ráðstafana til að lækka vexti.

Forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir í viðtali við Tímann í dag að spá Seðlabankans um hækkandi raungengi krónunnar á næsta ári og lækkandi verðbólgu sé vitleysa og lýsir því jafnframt yfir: „Útflutningsatvinnuvegirnir þola ekki til lengdar þessa gengisskráningu.“

Það er m.ö.o. ljóst að hinar efnahagslegu forsendur þeirra ákvarðana sem hér er verið að taka eru allar ákaflega veikar. Hæstv. fjmrh. sagði þegar hann var spurður: Ertu að tala um gengislækkun? „Ég er ekki að tala um hefðbundna gengislækkun.“ Og við spurðum hann þá að því hvað væri óhefðbundin gengislækkun og þá fsp. ítreka ég í ítarlegri grein um efnahagsmál sem ég birti í Morgunblaðinu í dag og hef ekki fengið svör við þeim spurningum enn þá hvað er óhefðbundin gengislækkun, en hæstv. ráðherra svaraði að það væru tvær leiðir sem hann sæi til að koma í veg fyrir hefðbundna gengislækkun á næsta ári. Önnur er sú að stuðla að góðu andrúmslofti gagnvart aðilum vinnumarkaðarins, stuðla að jákvæðri niðurstöðu kjarasamninga, eins og hæstv. ráðherra komst að orði, og í öðru lagi að hafa áhrif á þróun peningamarkaðarins þannig að þar yrði ekki um frekari kollsteypur að ræða.

Ég flutti þá um nóttina rök fyrir því að núv. ríkisstjórn hefði lokað þessum leiðum, í fyrsta lagi því að ná góðu andrúmslofti gagnvart aðilum vinnumarkaðarins og í öðru lagi því að tryggja lækkun vaxta vegna þess að viðskrh. eða vaxtamálaráðherra, raunvaxtaokursmálaráðherra ríkisstjórnarinnar neitar því algerlega að það komi til greina að grípa beint inn í vaxtaákvarðanir. Hér erum við komin að meginmáli því sem hér er á dagskrá, þ.e. frv. um matarskatt, en ég er sannfærður um það að ekkert mál mun hafa eins slæm áhrif á stöðu mála á vinnumarkaði gagnvart verkalýðshreyfingunni á næsta ári, ekkert mál mun hafa verri áhrif á þá þróun en frv. um matarskatt.

Það hefur komið í ljós að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar úr öllum stjórnmálaflokkum hafa lýst sig andvíga matarskattinum. Það á við um alþýðubandalagsmenn, það á við um alþýðuflokksmenn í verkalýðshreyfingunni, það á við um menn úr Sjálfstfl. sem eru í forustusætum í verkalýðshreyfingunni og til marks um það eru bréf sem Alþýðusamband Íslands hefur aftur og aftur skrifað ríkisstjórninni varðandi matarskattinn á þessu ári.

Í bréfi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands til verðandi forsrh. dags. 7. júlí 1987 segir svo, með leyfi forseta:

„Á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands í dag var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma:

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er tekið á ýmsum atriðum, sumt jákvætt og annað miður. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands harmar að ekki skuli í skattheimtu stefnt að því að knýja þá efnameiri til aukins framlags til sameiginlegra þarfa. Sérstaklega mótmælir verkalýðshreyfingin því að ákveðin skuli ný skattheimta á matvöru. Slík ákvörðun gengur þvert á þá stefnu verkalýðshreyfingarinnar að bæta kjör þeirra tekjulægstu.“

22. október sendi miðstjórn Alþýðusambands Íslands enn frá sér yfirlýsingu varðandi þetta mál. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands í dag: Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ítrekar fyrri mótmæli sín gegn nýjum skatti á matvörur. Það er rangt að íþyngja heimilum lágtekjufólks með auknum álögum í stað þess að láta þá sem betur mega sín axla réttmætan hlut af kostnaði við sameiginlegar þarfir.“

10. og 11. október birtust þær fréttir að ríkisstjórnin hefði í huga að auka enn álögur skv. nýframlögðu fjárlagafrv. og í tilefni af því skrifaði forseti ASÍ forsrh. bréf, dags. 12. okt. 1987, afrit sent fjmrh., utanrrh. og fjölmiðlum. Í þessu bréfi forseta Alþýðusambandsins til forsrh. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjölmiðlar bera okkur nú þær fréttir að ríkisstjórnin hafi þegar tekið og sé í þann mund að taka ákvarðanir um stórfelldar nýjar álögur á almenning. Af því tilefni hlýt ég að minna á að í bréfi ríkisstjórnarinnar 6. des. sl. til samningsaðila segir m.a.:

„Stjórnvöld munu í verðlagningu á opinberri þjónustu og skattlagningu fylgja þeirri stefnu að hækkanir verði í heild ekki umfram almenna verðlagsþróun. Verð á áfengi og tóbaki fellur þó ekki undir þessa skilgreiningu.“

Það liggur fyrir að töluverðan hluta þeirrar verðhækkunar sem staðfest var um fyrri mánaðamót umfram það sem áætlað var við gerð samninga í desember má rekja til verðhækkana á vettvangi hins opinbera og til nýrrar skattheimtu. Ákvarðanir stjórnvalda áttu því stóran beinan þátt í þeim verðbótum sem óhjákvæmilegar voru um síðustu mánaðamót. Af 5,65% hækkuninni 1. okt. má rekja 1,92% til hækkana á opinberri þjónustu og aukinnar skattheimtu undangenginna mánaða og er hækkun áfengis og tóbaks þá ekki talin.

Enn eru nærri þrír mánuðir eftir af yfirstandandi samningstíma og engin rauð strik eru fram undan. Sú verðhækkun sem nú verður fæst því ekki bætt í kaupi fyrr en með nýjum kjarasamningum. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar í þessu er því enn meiri en ella væri. Það leikur ekki vafi á því að rangar ákvarðanir af þessu tagi og almennt aðgerðarleysi stjórnvalda hafa veikt tiltrú fólks á því að raunhæft sé að treysta loforðum ríkisstjórnarinnar. Ef þær ákvarðanir, sem nú er rætt um, fara fram er líklegt að það traust verði að engu. Verkalýðshreyfingarinnar bíður þá ekki annar kostur en að leggja þungann á beinar kauphækkanir og sjálfvirkt vísitölukerfi.

Það samningsform sem samkomulag náðist um á síðasta ári gerir tilkall til þess að allir aðilar standi við sitt. Það virðist æ skýrar koma í ljós að af þeim þremur aðilum sem öxluðu ábyrgð með samningunum á síðasta ári hefur verkalýðshreyfingin ein staðið við sitt. Við þær aðstæður verður ábyrgðartilfinningin að ábyrgðarleysi.

Ég minni enn á bréf ríkisstjórnarinnar frá því í desember sl. og geri tilkall til þess að málið verði tekið til endurskoðunar. Sérstaklega hlýt ég að minna á skyldur stjórnvalda gagnvart þeim sem minnst bera úr býtum í þessu þjóðfélagi og munu verða verst úti ef áformaður matvöruskattur verður að raunveruleika. Áformuð hækkun matvöru um næstu mánaðamót gæti leitt til 1,3% hækkunar á framfærslukostnaði meðalheimilis og um 2% hækkunar á framfærslukostnaði lágtekjufólks. Ef enn kæmi til 10% hækkunar á matvörum um næstu áramót yrði hækkun framfærslukostnaðar um enn 2,3% hjá meðalheimili, en um 3% hjá heimilum lágtekjufólks.“

Og Alþýðusamband Íslands lét ekki hér við sitja. Enn var gerð samþykkt á sambandsstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands, sem haldinn var dagana 30. nóv. og 1. des. sl., og í niðurstöðum sambandsstjórnar fundarins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sambandsstjórnarfundur Alþýðusambands Íslands, haldinn dagana 30. nóv. og 1. des. 1987, ítrekar mótmæli miðstjórnar Alþýðusambands Íslands vegna áforma stjórnvalda um skattlagningu matvara um næstu áramót. Skattlagning matvöru kemur óhjákvæmilega harðast niður á þeim sem tekjulágir eru og nota stóran hluta tekna sinna til matvörukaupa. Sambandsstjórn krefst þess að ríkisstjórnin hætti við öll áform um matarskatt og að felldar verði niður ... (Forseti: Buldi við brestur.) Buldi við brestur, já og björgin klofnuðu. Út gekk matarskatturinn holdi klæddur. (Gripið fram í.) Ég var að lesa mótmæli Alþýðusambands Íslands við matarskatti og hef lesturinn á ný þar sem fjölgað hefur í salnum:

„Sambandsstjórnarfundur Alþýðusambands Íslands, haldinn dagana 30. nóv. og 1. des. 1987, ítrekar mótmæli miðstjórnar ASÍ vegna áforma stjórnvalda um skattlagningu matvæla um næstu áramót. Skattlagning matvöru kemur óhjákvæmilega harðast niður á þeim sem tekjulágir eru og nota stóran hluta tekna sinna til matvörukaupa. Sambandsstjórn krefst þess að ríkisstjórnin hætti við öll áform um matarskatt og að felldar verði niður þær álögur sem þegar hafa tekið gildi. Nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga munu þau spilla frekar en orðið er fyrir samkomulagsmöguleikum á vinnumarkaði.“

Hér hef ég, hæstv. forseti, vitnað í fjórar samþykktir Alþýðusambands Íslands sem gerðar hafa verið frá 7. júlí sl. til að mótmæla hugmyndum, áformum og síðan ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um álagningu matarskatts. Það er alveg augljóst mál að þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar eru til þess fallnar að spilla fyrir eðlilegu andrúmslofti á milli aðila vinnumarkaðarins á næsta ári. Það er alveg óhjákvæmilegt. Fólk hlýtur á næsta ári að reyna að verjast þeim ofboðslegu álögum sem ríkisstjórnin er að leggja á almenning þessa dagana sem eru reyndar svo hrikalegar að einstakir stjórnarþm. hafa brotist út úr stjórnarliðinu, hafa hrist af sér handjárnin og neita að hlýða.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að rifja líka upp í þessu sambandi, virðulegi forseti, að að er aftur og aftur sagt í bréfum Alþýðusambands Íslands að ekki einasta sé hugmyndunum mótmælt heldur er það sagt fullum fetum að nái þær fram að ganga muni það verða til þess að spilla fyrir möguleikum á vinnumarkaðnum á næsta ári. Hérna er þess vegna um að ræða í mínum huga storkun, ögrun við samtök launafólks í landinu. Ég trúi því ekki að þessi ögrun eða storkun sé sett fram vísvitandi til að kalla fram neikvæðar niðurstöður, en ég tel að það sé nauðsynlegt við 3. umr. þessa máls í þessari virðulegu deild að vekja athygli á þessari staðreynd og vara við því sem hér er að gerast. Það er hrikalegt að það skuli vera formaður Alþfl. sem beitir sér fyrir því að leggja á matarskatt, kemur þannig aftan að kjósendum sínum, en hann sagði engum frá því fyrir kosningarnar í vor að hann ætlaði að byrja sinn feril á því að leggja á matarskatt.

Hæstv. fjmrh. hefur síðan notað þau rök í þessari umræðu allri að í raun og veru sé nauðsynlegt að vera með eina söluskattsprósentu, það sé óhugsandi að vera með tvær eða fleiri, t.d. mismunandi á nauðsynjar og svo aðrar vörur. Hvernig má vera að það er ekki hægt að koma þessu við á Íslandi þegar það er þannig í öllum löndum Evrópubandalagsins nema líklega Danmörku að um er að ræða mismunandi söluskatts- eða virðisaukaskattsprósentu? Hæstv. fjmrh. fékk ákveðið tilfelli á dögunum og minnti á fyrri ræður frá því fyrir kosningarnar þegar hann allt í einu fann hjá sér þörf fyrir að ráðast að Evrópubandalaginu. Ekki tek ég upp hanskann fyrir Evrópubandalagið. En ég verð að segja alveg eins og er að maður sem býr í því glerhúsi efnahagsmála sem hæstv. fjmrh. er í hefur ekki efni á því að lýsa því yfir að Evrópubandalagið sé gjaldþrota. Það geta kannski einhverjir gert en ekki hæstv. núv. fjmrh.

Hæstv. fjmrh. og efnahagsstefna hans eru gjaldþrota. Það er kjarni málsins, útflutningsatvinnuvegirnir með stórkostlegum halla, gengi krónunnar valt, viðskiptahallinn eykst, verðbólga er vaxandi, raunvextir hafa aldrei verið hærri, ríkisstjórnin gerir tillögu um að hækka erlendar lántökur núna samkvæmt máli sem við ræðum hér á eftir um 500 millj. kr. Þessi stefna er gersamlega gjaldþrota. Ríkissjóður sem núna á að sýna hinn fína jöfnuð, gott að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, er bygging sem er reist á sandi vegna þess að það er aldrei hægt að reka ríkissjóð af neinu viti nema atvinnu- og efnahagslíf í landinu gangi með eðlilegum hætti. Það er nefnilega þannig með ríkissjóð að hann er hluti af efnahagskerfinu og peningarnir verða ekki til þar. Þeir verða til úti í þjóðfélaginu af vinnu lifandi fólks í þessu landi. Þess vegna er ríkissjóður sem sýnir kannski fínar tölur við afgreiðslu fjárlaga með allt annað í steik, ef ég má nota það orð með leyfi hæstv. forseta. Slíkur ríkissjóður gerir enga stoð vegna þess að því aðeins er skynsamlegt og nauðsynlegt að vera með ríkissjóð réttum megin við strikið að það sé hluti af heildarákvörðun í efnahagsmálum þar sem allt er tekið fyrir í einu. Gengið verður að vera traust, útflutningsatvinnuvegirnir verða að vera traustir, verðlagsþróunin verður að vera í eðlilegu standi og vaxtaþróunin verður að vera önnur en sú sem hún er. Auk þess verður að standa þannig að málum að eðlilegar aðstæður geti skapast á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er eins og að tala við grjót að ræða þessi mál við hæstv. fjmrh. vegna þess að hann er sennilega búinn að gleyma þessum fræðum öllum. En sumt af þessu, sem hér hefur verið flutt, var stundum flutt af honum hér áður, áður en hann lenti þarna í Arnarhvoli. Ég hef satt að segja sjaldan séð mann taka öðrum eins hamskiptum á jafnstuttum tíma. Það er satt að segja alveg með ólíkindum hvað þessi kerfiskvörn er fljót að mala menn undir sig, jafnvel eldhuga, hugsjónamenn sem þykjast eiga ráð undir rifi hverju á þeim degi þegar þeir ganga með stefnuskrána sína inn í Arnarhvol. Áður en varir er allt annað komið út úr þeim hvoli en fór inn í hann.

Að lokum, virðulegi forseti, þó það væri hægt að ræða margt fleira um þessi mál, en það er nú einu sinni þannig að við í stjórnarandstöðunni höfum ekki verið að halda uppi málþófi. Ég vil sérstaklega mótmæla yfirlýsingum stjórnarliða um að einstakir þm. stjórnarandstöðunnar hafi verið að halda uppi málþófi. Vandi þinghaldsins hefur verið óreiðan í ríkisstjórninni á undanförnum dögum.

En víkjum þá að því sem ég ætla að nefna að lokum og það er þetta: Ég fór fram á það við hæstv. fjmrh. að þegar kæmi að 3. umr. söluskattsmálsins legði hann fyrir upplýsingar um talnagrundvöll skattlagningarinnar árið 1988. Ég hef satt að segja, hæstv. forseti, ástæðu til að ætla að þar séu maðkar í mysunni. Ég hef rökstuddan grun um að sumar þær tölur sem sýndar eru í frv. sem liggja fyrir segi ekki allan sannleikann. (EKJ: Heldur hvað?) Ég hef rökstuddan grun um það, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, eins og þú reyndar veist, að þessar tölur segi ekki í öllum tilvikum allan sannleikann og menn séu að taka inn í ríkissjóð mun stærri upphæðir en sagt er.

Svo vill reyndar til að það frv. sem ég á við er ákveðið frv. um tekjuskatt á fyrirtæki og mér líkar það satt að segja heldur vel að ríkisstjórnin standi sig sæmilega í því og er tilbúinn að hjálpa fjmrh. áleiðis með þetta mál, enda eru það mest gamlar tillögur frá mér sem hann flytur þar. Mér þykir vænt um að hann skuli koma með það hér inn í þingið og ég veit að Sjálfstfl. þykir vænt um það líka. En ég spyr um þennan talnagrundvöll, hver hann er, og ég óska eftir því að það komi fram í þessari umræðu áður en málið fer út úr þessari deild. Þetta er stærsti skattapakkinn, 5750 millj. kr. takk, og það er alveg lágmark að allar reikningslegar forsendur þessara mála liggi fyrir áður en málið fer héðan út úr þessari virðulegu deild.