19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Júlíus Sólnes vildi heyra mat mitt á því hvort fjmrh. byggist við stórauknum tekjum umfram áætlun fjárlaga á næsta ári og þá hversu miklum. Við komum m.ö.o. aftur að sama hlutnum.

Hv. þm. vitnaði til blaðaviðtals í Morgunblaðinu, sem var að vísu stutt og snubbótt, þar sem það var haft eftir fjmrh. að mat á áætluðum tekjum af þessum nýju tekjuöflunarfrv. væri óvenjulega nákvæmt. Það er rétt. Það er unnt að meta það af nokkurri nákvæmni, meiri nákvæmni en oft áður, vegna þess að skattstofnarnir sjálfir eru betur og nákvæmar skilgreindir en verið hefur. Þetta breytir ekki því að það er veruleg óvissa um framvindu efnahagsmála á næsta ári. Það liggur alveg í augum uppi. Sú óvissa er um mjög stórar stærðir. Hún er t.d. um forsendur fiskveiðistefnu. Það er óvissa um verðlags- og verðbólguþróun þannig að fyrst og fremst slíkir þættir, verðbólgan, geta auðvitað fært samkvæmt reynslu allar áætlanir úr skorðum, en það breytir ekki raungildi þeirrar stærðar.

Hv. þm. vék einnig að því að hæstv. utanrrh., sbr. viðtal við dagblaðið Tímann í dag, væri að frýja sig ábyrgð af stefnu ríkisstjórnarinnar og mundi sennilega gera það í vaxandi mæli með vísan til þess að hann hefði verið mikið fjarverandi og lítinn þátt tekið í þeim ákvörðunum sem búa að baki, m.ö.o. ekki tekið þátt í að móta stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er rétt að hæstv. utanrrh. hefur verið mikið fjarverandi að sinna sínum embættisskyldum, en það breytir ekki því að sem formaður Framsfl. fer það ekkert á milli mála að í stjórnarmyndunarviðræðum og í umræðum innan ríkisstjórnar hefur formaður Framsfl. markað sér þá stefnu að hann hefur afdráttarlaust lýst þeim skoðunum sínum að ef nokkuð væri ætti að ganga lengra í skattlagningarátt. Það kom skýrt og skilmerkilega fram í fjölmiðlum í sambandi við stjórnarmyndunarviðræður að því er varðaði undirbúning að fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar að formaður Framsfl. var eindregið þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin ætti að ganga lengra í skattlagningarátt en niðurstaðan varð. Þetta er svar við þeim fullyrðingum hv. þm. Júlíusar Sólness að ef hæstv. utanrrh. hefði verið meira í landinu hefði einhverra breytinga verið að vænta í þessa átt. Ég held að það sé byggt á röngum forsendum.

Að lokum virðulegi forseti. Það var áður í þessum umræðum vísað til mótmælasamþykktar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og tveir hv. ræðumenn hafa spurt sem svo: Hvaða áhrif munu þessar aðgerðir hafa á kjarasamninga? Munu þessar aðgerðir spilla fyrir kjarasamningum eða munu þær út af fyrir sig ekki hafa nein áhrif á þá eða jafnvel hugsanlega greiða fyrir þeim? Menn virðast vera búnir að gleyma því í þessum umræðum að niðurstaðan af þessum heildaraðgerðum að því er varðar hag fjölskyldna í landinu, heimilanna í landinu, meginniðurstaðan er sú að framfærslukostnaður heimilanna eins og hann er metinn breytist ekki, ekki nokkurn skapaðan hlut, og í annan stað að veigamiklir aðrir mælikvarðar á útgjaldaþætti heimilanna, þ.e. byggingarvísitala, lækka og að hin illræmda lánskjaravísitala, sem margir hallmæla og er mælikvarði á greiðslubyrði fólks, lækkar. Þess vegna spyr ég: Er einhver ástæða til að ætla að efnahagsráðstafanir sem fela það í sér að eyða halla á ríkissjóði, tryggja jöfnuð í ríkisfjármálum á næsta ári, sem verkalýðshreyfingin, talsmenn Alþb., þó ekki sé það nú sami hluturinn, hefur hvað eftir annað talið jákvætt markmið og lýst yfir stuðningi við — er líklegt að verkalýðshreyfingin bregðist við aðgerðum sem tryggja þennan trausta fjárhag ríkissjóðs án þess að raska útgjöldum heimilanna, meti það svo að hér sé verið að leggja stein í götu kjarasamninga?

Hversu oft hafa menn ekki spurt sem svo: Hvað ætlar ríkisstjórnin að leggja á borð með sér ef hún verður kvödd til þríhliða viðræðna um kjaramál? Hversu margir eru ekki þeir sem hafa lýst aðdáun sinni á þeim gerningi fyrrv. ríkisstjórnar að koma að slíku samningaborði sem þriðji aðili og leggja talsvert á borð með sér, lækkun skatta, lækkun tolla, breytingar einmitt á þessum þáttum til að greiða fyrir hófsamlegum kjarasamningum sem tryggðu vaxandi kaupmátt? Ég man ekki betur en t.d. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafi nefnt þetta sem dæmi um jákvæða aðgerð ríkisstjórnar sem hefði skilað árangri.

Hvað ætlar ríkisstjórn með tóman ríkiskassa að leggja á borð með sér? (Gripið fram í.) Hvað ætlar slík ríkisstjórn að leggja á borð með sér, með leyfi? Hverjir eru það sem hafa uppi kröfur um að ríkisvaldið komi inn í slíka samninga til að greiða götu skynsamlegra kjarasamninga? Er það rétt eða er það ekki rétt að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafi lýst þessu sem jákvæðu á sínum tíma? (EKJ: Þorsteinn Pálsson var einhver besti fjmrh. sem Ísland hefur haft.) Einmitt. Þá vitum við það. Einkum og sér í lagi vegna þess að þetta var gert. Þá förum við að sjá málin í nýju ljósi. Það var sem sagt hinn jákvæðasti þáttur. Það var haldið uppi kröfum um að ríkisvaldið eigi hlut að kjarasamningum og geri þá eitthvað slíkt.

Sömuleiðis er verið að segja: Á ríkisstjórnin að gera eitthvað til að bæta starfsskilyrði atvinnuveganna? Já, já, hún getur átt mikinn þátt í því. Hún getur gert það bæði að því er varðar skattlagningu og hún getur gert það að því er varðar önnur starfskjör. Hún getur t.d. haft viss áhrif í þá átt að reyna að stuðla að bættu jafnvægi á peningamarkaði. Það er ýmislegt sem ríkisstjórn getur gert til að draga úr raunvaxtastigi. Þannig er ekki alveg ljóst að samkvæmnin sé mikil í þessari gagnrýni. Ég held að þegar menn meta þetta í heild sinni séu þessar aðgerðir, að stuðla að jöfnuði í ríkisfjármálum og gera það með kerfisbreytingu sem raskar ekki út gjöldum heimilanna, engan veginn af hinu illa eða líklegar til að spilla kjarasamningum, fjarri því. Það eru bara kokhreysti og gífuryrði en innihaldslaus orð.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson segir: Það vantar meira frjálsræði á peningamarkaðnum. Það er meira stjórnlyndi ríkjandi í þeim málum hér á landi en víðast hvar annars staðar. Að sumu leyti er það, já. Gallinn er hins vegar fyrst og fremst sá að við höfum engan fjármagnsmarkað hér sem stenst neinn samanburð við fjármagnsmarkað annarra þjóða, því miður. Hann er hreinlega ekki til. Og ef menn vildu byggja hann upp hygg ég að við yrðum sammála um það, hv. þm. og ég, að það eigi að gera með því að samræma starfsskilyrði með almennum reglum en ekki með því að mismuna aðilum eftir því um hvaða rekstrarform er að ræða. Það liggur alveg ljóst fyrir að bankakerfi sem slíkt lýtur almennum starfsreglum hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Þar eru lagaákvæði sem skylda bankakerfið bæði að því er varðar bindiskyldu, lausafjárhlutfall o.fl. Þessar almennu reglur gilda ekki um verðbréfamarkaðinn og ekki um ávöxtunarfyrirtæki þannig að það er ósköp eðlilegt að þegar þessum nýju aðilum eru búin hagstæðari skilyrði er vöxturinn þar, en jafnframt er líka alveg ljóst að sú stofnun sem á að fást við upplýsingaöflun á grundvelli slíkra upplýsinga, a að taka ákvarðanir og móta stefnu, Seðlabankinn, hefur ákaflega ótakmarkaðar og lélegar upplýsingar að gefa um þennan fjármagnsmarkað. Ef við lítum í vesturátt, lítum til Bandaríkja Norður-Ameríku, þá er alveg ljóst að upplýsingaskylda til stjórnvalda um þróun mála á peningamarkaði og lánsfjármarkaði við bankakerfi, á verðbréfamörkuðum og í kauphöllum er miklum mun meiri og strangari en það sem hér tíðkast.

Og á annað má einnig líta, að að því er varðar skattlagningu á tekjum af fjármagni væri ég prýðilega sáttur við að gera ekkert annað en að fylgja í einu og öllu ríkjandi skattalögum í Bandaríkjunum og upphefja þann mun sem nú er gerður á tekjum manna eftir því hvort þær eru sóttar til vinnuframlags eða vegna eigna. Þetta gat í íslenskri skattalöggjöf er m.a. einn partur af skýringunni á því hvers vegna fjármagnsmarkaðurinn hér er galinn.

Ég er enginn sérstakur talsmaður ofstjórnunar eða bákns. Ég er enginn vildarvinur Seðlabankans. Ég hef ekki lýst skoðunum á því að sú stofnun sé eitthvert þýðingarmikið stjórntæki í peningamálum. Þvert á móti er ég að lýsa þeirri skoðun minni og ég hef tekið undir það á opinberum vettvangi, t.d. á spástefnu Stjórnunarfélags Íslands þar sem besta erindi sem var flutt var gagnrýni Tryggva Pálssonar landsbankastjóra á þá stofnun og á markaðinn í heild. Þetta er ekkert persónubundið. Þetta styður bara þau rök, sem ég flutti áðan, að það væri mikil nauðsyn á því að ekki bara líta á starfsskilyrði atvinnuveganna, ekki bara reyna að ná lendingu með skynsamlegum kjarasamningum heldur að taka þennan ófullkomna svokallaða fjármagnsmarkað til heildarendurskoðunar, endurskoða um hann lagarammann, setja um það almennar stjórnreglur og tryggja að hann starfi í einhverju samræmi við aðra þætti peningakerfisins.