21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

43. mál, leyfi til slátrunar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég blanda mér í þessa umræðu af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að ég tel að þetta mál eigi að leysa án lagasetningar, það verði að beita öllum ráðum til þess að það verði gert. Í öðru lagi vegna þess að hér er hafin þörf umræða um valdsvið dýralækna og verk þeirra sem hafa vissulega verið umdeild hér á landi á undanförnum árum.

Ég vil geta þess að að mínu mati hefur þetta mál borið að með mjög óvenjulegum hætti, vægast sagt, og það á sér fáa samnefnara í þingsögunni. Ég hef nokkrar áhyggjur af lagasetningu af þessu tagi. Í fyrsta lagi vegna þess að fordæmið er afleitt. Málið á hins vegar að fá þinglega meðferð og ég mun stuðla að því eins og ég get.

Ég hygg að fréttir af svona máli til samkeppnisaðila okkar á matvælamarkaði í útlöndum yrðu vel þegnar, bæði fyrir þá sem eru í samkeppni um kjötsölu og líka þá sem eru í samkeppni um fisksölu. Ef það fréttist til samkeppnisaðilanna að löggjafarvaldið á Íslandi hafi sett sérstök lög gegn þeim aðilum og þeim stofnunum í þjóðfélaginu sem fara með heilbrigðis- og hollustumál getur það orðið stóralvarlegt og ég held að menn ættu að hyggja dálítið meira að þessum þætti en þeir hafa gert.

Í þriðja lagi: Hér er að vissu leyti á afmörkuðu sviði gengið gegn lögum sem þingið sjálft hefur sett og reglugerðum sem ráðuneyti hafa sett. Það er ekki heldur gott fordæmi.

Í fjórða lagi langar mig að benda á að hér hefur afstaða neytenda ekkert verið rædd. Menn hafa talað um að þetta yrði áfall fyrir sauðfjárrækt o.s.frv. En hvað segja neytendur og samtök þeirra um þetta mál? Þeirra álits hefur ekki verið leitað, en það verður væntanlega gert.

Ég verð að segja að reynsla mín af störfum tiltekinna dýralækna hefur ekki verið slík að ég hrópi húrra. Ég hef á hinu háa Alþingi barist gegn því valdi sem hér hefur verið nefnt ýmsum nöfnum, m.a. í tilviki Skúla Pálssonar á Laxalóni, þegar við Vilmundur heitinn Gylfason áttum í harðri baráttu við þessi sömu yfirvöld, en fengum þingið til að samþykkja, með skoðun allshn. Sþ. á sínum tíma að gera eitthvað í því máli. Niðurstaðan var sú að þar hefði verið beitt valdníðslu. Embættismenn hefðu beitt valdníðslu. Það var þingleg greinargóð meðferð á tilteknu máli.

Ég hef líka reynslu af því að hið háa Alþingi hefur fengið til meðferðar, eða þingflokkar hér inni, frv. til l. um breytingar á lax- og silungsveiðilögum, 76. gr. þeirra laga, um innflutning á lifandi fiski. Vegna orða dýralæknis, sem taldi sig hafa sérþekkingu á fisksjúkdómum og fiskræktarmálum og lagði til við ákveðinn þingflokk að þetta mál yrði ekki samþykkt, dagaði það uppi. Reynsla mín af þessum mönnum er kannski ekkert betri en þeirra sem hér fara fram með frv.

Engu að síður er ég þeirrar skoðunar að þetta mál eigi að leysa með samningum. Ég hef áhyggjur af því að ef Alþingi Íslendinga samþykkir frv, á borð við þetta verði þingið sér til skammar, svo einfalt er þetta mál í mínum huga. Ég bendi mönnum á það vegna þess sem ég sagði í upphafi að umræðan um heilbrigðis- og hollustumál, ekki bara í sláturhúsum á Íslandi heldur í allflestum fiskverkunarstöðvum, frystihúsum og hvar sem litið er, er mjög þörf. Ég hef aflað mér upplýsinga um það í morgun hvernig ástandið á þessu sviði er og það er ekki gott. Það er engan veginn gott. Þingið hefði nú kannski eitthvað betra fyrir stafni ef það ræddi þau mál í heild sinni. Hér er á ferðinni geysilega viðkvæmur málaflokkur sem verður að fara með af mikilli varfærni. Og ég geri það að lokaorðum mínum, herra forseti, að hvetja til þess, ef þess er nokkur kostur, að þeir menn sem núna deila reyni á grundvelli þeirra hugmynda sem komið hafa fram frá Framleiðsluráði landbúnaðarins að ná samkomulagi um þetta mál. Ég mun aldrei styðja að því að frv. af þessu tagi fari í gegnum hið háa Alþingi. Mér fyndist það sjálfum mér til skammar og þinginu til skammar.