19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Hæstv. forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað og hafin er af stjórnarliðum, einkum hæstv. fjmrh., að inn í þennan sal verði kvaddir fleiri ráðherrar, þ.e. hæstv. forsrh., sem er efnahagsmálaráðherra ríkisstjórnarinnar, og sömuleiðis hæstv. utanrrh. sem hefur eitt og annað við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að athuga, einkum og sér í lagi hæstv. viðskrh. Ég tel hugsanlegt að sú umræða, sem þeir eru aðilar að, færi fram undir liðnum lánsfjárlög mín vegna, en ég tel að hér hafi fallið svo stór orð, hér hafi verið gefnar svo alvarlegar yfirlýsingar um efnahagsákvarðanir á næsta ári af hæstv. fjmrh. að það sé aldeilis óhjákvæmilegt að þau mál verði rædd í þessari deild í dag.

Hér hafa menn ekki verið að spara við sig orðin. Hér hafa menn talað um verkalýðshreyfinguna og ályktanir hennar sem í fyrsta lagi kokhreysti, öðru lagi gífuryrði og í þriðja lagi innihaldslaust hjal. (Fjmrh.: Þau orð áttu við ummæli í ræðu hv. 7. þm. Reykv. sem nú stendur í ræðustólnum.) Það kom ekki fram þannig, hæstv. ráðherra, og vertu ekki að reyna að snúa þig út úr með þessum hætti. (Fjmrh.: Það var alveg skýrt.) Óstjórnlega er þetta ódýrt. Eftir að Karvel er búinn að skamma hæstv. ráðherra reynir hann að draga í land með þeim hætti. Var hæstv. ráðherra að skamma Albaníu en ekki Kína? (Fjmrh.: Ég var að svara þér.) (HBl: Samtöl eru bönnuð í ræðustólnum.) Samtöl eru ekkert bönnuð í ræðustólnum af hv. þm. úti í sal svo lengi sem forseti lætur þau líðast og auk þess finnst mér sjálfsagt að menn fái að talast pínulítið við í þessari notalegu deild, Ed. Alþingis.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að yfirlýsingar verkalýðshreyfingarinnar um að þessar ákvarðanir mundu spilla fyrir kjarasamningum væru kokhreysti, gífuryrði og innihaldsleysi. (Fjmrh.: Útúrsnúningur.)

Það er rangt, hæstv. ráðherra, og ég geri ráð fyrir því að ráðherrann geti fengið að svara í ræðustólnum og býð upp á að gera hlé á máli mínu meðan hæstv. ráðherra gerir grein fyrir sinni afstöðu ef hann svo kýs. (Gripið fram í: Það er gott boð.) Ef ráðherrann vill koma í stólinn býðst ég til þess, hæstv. forseti, að það verði gert hlé á máli mínu. Ég vil ekki tæma ræðutíma minn eða ræðurétt í þessari umferð heldur opna fyrir þennan möguleika ef hæstv. fjmrh. vill tala, vill tala öðruvísi en úr stólnum, varinn af stólnum. (Forseti: Eins og fram hefur komið í máli þm. er eðlilegra að einn tali í einu þó að forseti amist ekki við örlitlum orðaskiptum undir ræðuhöldum. En ef ekki biðja aðrir um orðið eða gert verður hlé á máli hv. 7. þm. Reykv. hvet ég hann til að halda áfram máli sínu.) Ég er fús til þess, hæstv. forseti, að halda áfram máli mínu því að ég hef ýmislegt að segja í framhaldi af ummælum hæstv. fjmrh. áðan.

Það er annars sérkennilegt hvernig ráðherrann reynir að snúa sig út úr gífuryrðum sínum því að það voru fleiri en ég sem skildu orð hans svo að hann væri með þessum hætti að ráðast á verkalýðshreyfinguna. Ég tók ekki betur eftir en að varaformaður Verkamannasambands Íslands teldi sig til þess knúinn að standa upp á eftir ráðherranum og lýsa því yfir að þetta væru sérkennileg orð af hæstv. fjmrh., ekki til þess fallin að greiða fyrir kjarasamningum og heldur ekki til þess fallin að greiða fyrir því erfiða þinghaldi sem við núna stöndum frammi fyrir.

Það er athyglisvert ef hæstv. fjmrh. hefur skilið orð sín einn á þann veg, sem hann nefndi, að hann hafi verið að veitast að þeim sem hér stendur, en allir aðrir í deildinni skildu þau a hinn veginn, að hann væri að ráðast á verkalýðshreyfinguna, enda held ég að það hafi tvímælalaust verið þannig. Og hvað segir verkalýðshreyfingin um þennan matarskatt? Hún segir: Nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga munu þau spilla frekar en orðið er samkomulagsmöguleikum á vinnumarkaði. Hverjir segja þetta? Vondir alþýðubandalagsmenn? Þetta segja menn úr öllum flokkum í forustusveit verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Og það dugir þessum stjórnglöðu krataráðherrum ekki að fara með fúkyrðum að verkalýðshreyfingunni í landinu eins og hæstv. fjmrh. gerði. Það dugir ekki. Það leysir engan vanda. Auðvitað hljóta allir að sjá að hækkun á matvörum um 5750 millj. kr. verður til þess að hinn almenni launamaður hlýtur eftir áramótin að rísa upp og segja: Ég verð að sækja kauphækkun á móti þessari kjaraskerðingu. Þetta er kjaraskerðing.

Hæstv. fjmrh. segir: Framfærsluvísitalan breytist ekki, byggingarvísitalan lækkar, lánskjaravísitalan lækkar. Ég bið hv. þm. að fylgjast með útreikningi þessara vísitalna eftir áramótin í janúar og febrúar og mars þegar verðhækkanirnar, sem þessir menn bera nú ábyrgð á, fara að koma til framkvæmda. Og ég bendi líka á að þær tölur sem hæstv. ráðherra er að nefna sýna meðaltalsvísitölufjölskylduna. Þær segja ekkert um láglaunafjölskyldurnar í landinu sem verða að eyða meiri hlutanum af tekjum sínum til að kaupa matvörur.

Hæstv. fjmrh., sem mun enn þá vera formaður í jafnaðarmannaflokki að sögn, lýsir því yfir að það sé jákvætt markmið að mati verkalýðshreyfingarinnar að hafa jafnvægi á ríkissjóði. Það er út af fyrir sig rétt, en það er ekki sama hvaða aðferð er notuð. Halda menn að verkalýðshreyfingin segi já og amen við því að það verði náð jafnvægi í ríkissjóði með hvaða aðferð sem er? Hún vill auðvitað ná jafnvægi í ríkissjóði með því m.a. að taka skatta af fjármagnstekjunum, skatta af eignatekjunum, skatta af fyrirtækjunum sem hafa grætt stórkostlega fjármuni í góðæri undanfarinna ára. Þannig vill verkalýðshreyfingin ná jöfnuði vegna þess að verkalýðshreyfingin er jafnaðarsinnuð. Það er hæstv. fjmrh. bersýnilega ekki lengur í verki hvað sem orðinu líður. Síðan koma yfirlýsingarnar um hvað þetta á allt saman að þýða, skattlagning upp á 8750 millj. kr. Við erum búnir að bíða lengi eftir skýringum. Hvað á þetta nú að þýða, þessi fyrirgangur að skattleggja almenning með þessum hætti?

Svarið hjá hæstv. fjmrh. var þetta: Hvað á ríkisstjórnin að leggja á borð með sér í kjarasamningunum eftir áramótin? M.ö.o.: skattlagningin er til eins, tveggja eða þriggja mánaða til að taka aftur þegar gengið verður til kjarasamninga. Ég hef satt að segja aldrei nokkurn tíma, og er þó búinn að vera hér á Alþingi undir ýmsum ríkisstjórnum síðan 1978, heyrt jafnvitlausa yfirlýsingu frá einum fjmrh. því að auðvitað hefði hann þá átt að byrja á því að leggja skattana ekki á og ræða við aðila vinnumarkaðarins í stað þess að byrja á því að leggja á þessa hrikalegu skatta og segja svo í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins: Ja, við lögðum þetta bara á rétt si svona að gamni okkar til að geta gefið eitthvað eftir eftir áramótin í kjarasamningum. Við verðum að hafa eitthvað til að leggja á borð með okkur, sagði hæstv. ráðherra. Drottinn gaf og drottinn tók. (Fjmrh.: Farðu nú ekki fyrir borð.) Hér er um alveg dæmalausa afstöðu að ræða. Og yfirlýsingar hæstv. ráðherra í dag um efnahagsmál, bæði um verðlagsmál, um verkalýðshreyfinguna sjálfa, um lækkun skatta og kjarasamninga, eru með þeim hætti að það er útilokað að þessi mál, sem hér eru á dagskrá í dag, fari út úr þessari deild öðruvísi en að fram hafi farið ítarleg umræða um efnahagsmál.

Ég kannast vel við það að í gær sneru fulltrúar stjórnarflokkanna sér til stjórnarandstöðunnar í deildinni og óskuðu eftir að það yrði reynt að greiða fyrir málum í þessari deild. Og stjórnarandstaðan sagði já eins og hún er vön. Hún er tilbúin að greiða fyrir afgreiðslu mála. Það hefur ekki staðið á stjórnarandstöðunni í þeim efnum.

Síðan koma hæstv, ráðherrar, eins og hæstv. fjmrh., með yfirlýsingar sem ég hef gert að umtalsefni, að ekki sé minnst á skrautblómin frá utanrrh. í málgagninu Tímanum í dag og yfirlýsingar frá forstjóra Þjóðhagsstofnunar um að það verði að fella gengið. Hann nennir að tala við Tímann og hefur tíma til að tala við Tímann þó hann opni ekki bréfin frá fjmrh. Hann hefur ekki enn þá svarað bréfi sem hæstv. fjmrh. sendi fyrir nokkrum dægrum. Hverju sætir það? Hæstv. fjmrh. ber því við að viðkomandi embættis maður sé undirmaður forsrh. Þá er best að fá forsrh. hingað. Þá er best að spyrja hann að því hvort þess sé ekki að vænta að það verði skrifað bréf. Og ég bendi hæstv. fjmrh. á að það er alveg óþarfi að póstleggja bréfið út af fyrir sig. Það mætti vel hugsa sér að „spandera“ sendli ofan af Kalkofnsvegi 1 þar sem Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun eru til húsa og eru að fljúgast á þessa dagana eins og sést á opinberum yfirlýsingum. Það mætti alveg „spandera“ sendli ofan að og hingað niður eftir með pappírinn, ef hann er til, því hann hlýtur að vera til. Á einhverju byggja menn allt þetta talnaflóð sem er hérna fyrir framan okkur. Nú verð ég að biðja hæstv. forseta að kalla í fjmrh. Ég get satt að segja ekki talað um þessi mál öðruvísi en að hann sé viðstaddur. Ég kann ekki við að hann sé á bak við luktar dyr þó ég skilji vel að hann vilji heldur vera þar en hér inni. (Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir til að ná í hæstv, fjmrh.) (EgJ: Hann er hér alveg við. Hann heyrir þetta áreiðanlega. Hann heyrir boðskapinn.) Hvað veit ritarinn um það? (HBl: Það á að segja skrifari.) Ég biðst afsökunar, hv. skrifari.

Ég óska mjög eindregið eftir því, hæstv. forseti, að hér fari fram ítarlegar umræður um efnahagsmál, í tilefni af yfirlýsingum hæstv. fjmrh. Hann segir að Þjóðhagsstofnun muni senda frá sér þessi gögn fyrir 3. umr. fjárlaga. Er hún ekki að bresta á eða hvað? Getur ekki verið að þessi gögn liggi þegar fyrir í fjvn.? Er ekki hugsanlegt að einhver maður í fjvn. hafi þennan pappír? Ég skil ekki að það sé nauðsynlegt að hafa hlutina svo flókna að það verði að bíða í óratíma eftir jafneinföldum hlutum og upplýsingum um á hverju þessir þættir byggjast milli áranna 1987 og 1988. Ég nefni þetta hér, virðulegur forseti, af gefnu tilefni. Ég hef fyrir framan mig í þessum pappírshaugum frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt þar sem gert er ráð fyrir að tekjuauki ríkissjóðs vegna breyttra skattlagningarreglna á birgðum fyrirtækja verði 297 millj. kr. Við yfirheyrslu á embættismönnum í nefnd í morgun kom í ljós að þessi tala byggist á vörubirgðum eins og þær voru í byrjun þessa árs eða í lok síðasta árs upp á 33 milljarða kr. En auðvitað eru þessar birgðir mikið meiri í krónutölu í lok þessa árs, sennilega 43 milljarðar en ekki 33, og skatturinn af því er þess vegna ekki 297 millj. heldur 387 millj. kr. Hérna skakkar nú bara litlum 100 millj., bara í þessu frv. sem á að sögn ríkisstjórnarinnar að gefa ríkissjóði í viðbótartekjur 150 millj. kr. en færir ríkissjóði sem betur fer örugglega 250 millj. en ekki 150. Og ég segi: Ef öll spekin er af þessum toga er eins gott að menn hinkri hér með þessi skattlagningarfrv., fjárlög og lánsfjárlög vegna þess að reikningslegar forsendur þessa alls eru byggðar á sandi. Hér er m.ö.o. alveg ljóst að það er af efnislegri ástæðu sem stjórnarandstaðan er að biðja um tölulegar upplýsingar. Ég endurtek fyrir mitt leyti að ef ekki er hægt að kalla hingað utanrrh. og forsrh. í þessari umræðu er út af fyrir sig nóg að mínu mati að það gerist undir umræðunum um lánsfjárlög á eftir. En það er óhjákvæmilegt að þeir komi hingað vegna þeirra yfirlýsinga sem hæstv. fjmrh. hefur gefið, vegna þeirra yfirlýsinga sem hæstv. utanrrh. hefur gefið og vegna þeirra orða sem hæstv. fjmrh. hafði um hæstv. utanrrh. — Ja, hann er að vísu oft í útlöndum, var sagt. Hann var að tala um samstarfsmann sinn, hæstv. utanrrh. Hann er að vísu oft í útlöndum svo það er ekki víst að hann viti nú allt. Það er mjög sjaldgæft að menn séu mikið að bauna hver á annan í ríkisstjórninni. Það kemur fyrir að vísu í þessari stjórn, sbr. upphlaupið í kringum félmrh. hérna fyrir nokkru. Það kemur fyrir að menn eru að bauna hver á annan. Kannski hæstv. utanrrh. fari í verkfall eins og hæstv. félmrh., hætti að mæta hjá Þorsteini. Sérkennilegt er þetta eintak, þessi ríkisstjórn. Það verð ég að segja.

Ég ætla að lokum, hæstv. forseti, í þessari umræðu að benda a álit minni hl. fjh.- og viðskn. um lánsfjárlög þar sem birt er þetta plagg hér úr málgagninu Tíminn, 19. des. 1987, viðtal við hæstv. utanrrh. og formann Framsfl. og þar af leiðandi einn af burðarásum ríkisstjórnarinnar, og viðtal neðar á síðunni við forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Hann segir, með leyfi forseta: „Útflutningsgreinarnar þola ekki þessa gengisskráningu til lengdar.“ Og hæstv. utanrrh. segir: „Jón Sigurðsson viðskrh. má ekki bíða.“ Hann má ekki bíða. Og segir: „Raunvaxtaokrinu verður að linna," sem hæstv. viðskrh. ber ábyrgð á. Þetta segir hvorki meira né minna hæstv. utanrrh., svo furðulegt sem það er. Það er svo sérkennilegt með hann að... (Gripið fram í: Það er ekkert furðulegt.) Nei, út af fyrir sig ekki og ég ætla aðeins að halda áfram, hv. þm. Þessi ráðherra er búinn að vera ráðherra núna síðan 1987, er það ekki, og hefur verið stuðningsmaður stjórnar síðan 1971 og ævinlega er eins og hann komi af fjöllum, það er alveg sama hvað fer aflaga í þjóðfélaginu, hvað ríkisstjórnin gerir vitlausa hluti og hvað Alþingi gerir vitlausa hluti. (EgJ: Við hvern á ræðumaður?) Hæstv. utanrrh. Ævinlega kemur hann eins og af fjöllum, hann hafi verið í óbyggðum, hafi ekkert fylgst með og viti ekki neitt í sinn haus og kennir ýmsum um. Hann er flinkur að finna menn til að kenna um eins og ég ætla að tala um við hann þegar hann kemur hér á eftir.

Það er Seðlabankinn t.d. Það er mikil list að kenna Seðlabankanum um alla hluti. Nú vill svo til að Seðlabankinn er undir ríkisstjórninni og sérstaklega viðskrh. auðvitað en líka forsrh. og efnahagsráðherrann þannig að það er óskaplega billegt að vera að kenna Seðlabankanum um hluti sem menn bera sjálfir ábyrgð á. Og mér finnst það satt að segja ekki heiðarlegt vegna þess að um embættismenn Seðlabankans má margt segja og menn geta gagnrýnt þá eins og þeim sýnist, en þá hafa þeir ekki aðstöðu til að verja sig á opinberum vettvangi fyrir skotum og árásum sem koma frá yfirmönnum þeirra, hæstv. ráðherrum. Árásir hæstv. utanrrh. lon og don á Seðlabankann eru ákaflega sérkennilegar.

Hæstv. utanrrh. segir hér, með leyfi forseta: „Ég vek einnig athygli á því að við erum fyrir löngu búin að fá reynslu á því í þessu litla efnahagsþjóðfélagi okkar, sem er langt frá því að vera í jafnvægi, að þar gilda alls ekki þessi heilögu lögmál hagfræðinnar.“

Hann er nú búinn að vera að basla við að stjórna landinu síðan 1971 og þessi heilögu lögmál hagfræðinnar, sem hann er að tala um, eru sömu lögmálin og voru í raun og veru innleidd af ríkisstjórninni fyrst og fremst vorið 1983, frelsislögmálin.

Og það er sérkennilegt að hlusta á talsmennina hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson og hæstv. fjmrh. þegar þeir eru að ræða hér um efnahagsmál. Í rauninni fallast þeir alveg í faðma (EKJ: Það er nú helst.) þannig að það er blygðunarefni að fylgjast með því, fullkomið blygðunarefni. Þegar tekið er utan af kjarnanum, hismið er tekið utan af kjarnanum kemur í ljós að það sem þeir eru í raun og veru báðir tveir að tala um er að markaðurinn eigi að fá að njóta sín, eins og hæstv. viðskrh. mundi orða það. Frelsið er frelsi markaðarins. Það er það sem þessi hv. þm. og ráðherra eru að ræða um. En það er rétt að búa þetta í dálítið annan búning vegna þess að það er skynsamlegt í stöðunni fyrir báða sennilega að láta ekki líta þannig út að þeir séu sammála.

Ég mun á eftir, hæstv. forseti, óska eftir því að utanrrh. og forsrh. verði viðstaddir hér umræðu um lánsfjárlög. Ég tel að henni sé ekki hægt að ljúka í þessari deild öðruvísi en að þeir séu hér viðstaddir þannig að hér geti farið fram almenn umræða um efnahagsmál. Það er nógur tíminn, segir hæstv. fjmrh. Við skulum nota okkur það bessaleyfi sem hann hefur tekið sér. Hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það. Við skulum halda áfram umræðum um efnahagsmál. Það er ánægjulegt, fróðlegt og gæti kannski leitt til einhverrar niðurstöðu og að lokum slitið það út úr ráðherragenginu sem þeir þegja um eins og mannsmorð. Hvað ætla þeir að gera bak jólum? Hvað ætla þeir að gera? Það er ekki hefðbundin gengisfelling. Hver er hin óhefðbundna gengislækkun fjmrh. sem kemur til þjóðarinnar bak jólum ef svo fer sem horfir?