19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2697 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Þær umræður sem hv. 7. þm. Reykv. hóf hér eru á margan hátt eðlilegar með tilliti til þeirra yfirlýsinga og ummæla sem vitnað var til. Hitt er svo annað mál að efnahagsmál eru stöðugt viðfangsefni stjórnvalda og ríkisstjórna. Það eru ekki viðfangsefni sem eru afgreidd einu sinni eða tvisvar á ári og þess vegna óþarfi að búa til allt of mikla spennu í kringum umræður um þau efni þó að ýmsar blikur séu á lofti.

Hv. þm. vék fyrst að ummælum hæstv. fjmrh. þess efnis að ríkisstjórnin þyrfti að leggja eitthvað á borð með sér í kjarasamningum og því hefðu verið teknar þær ákvarðanir um aukna tekjuöflun sem Alþingi hefur nú verið að fjalla um samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar. Sú ákvörðun var tekin af ríkisstjórninni að ná jöfnuði í rekstri ríkissjóðs vegna þess að á haustmánuðum hafði hún undir höndum upplýsingar sem bentu til meiri viðskiptahalla á næsta ári en áður hafði verið gert ráð fyrir og því var það mat ríkisstjórnarinnar að stíga þyrfti stærra skref í þessu efni en áður hafði verið áætlað, en eins og kunnugt er hafði ríkisstjórnin uppi áform um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á þremur árum eins og reyndar áður hafði verið áformað þegar halli var ákveðinn í tengslum við þjóðarsátt við gerð kjarasamninga. Þetta var meginástæðan fyrir því skrefi sem stigið var. Auðvitað eru þetta um margt erfiðar ákvarðanir og það er fullkomlega eðlilegt að um þær sé rætt og um þær sé deilt. Hitt er annað að við búum nú við efnahagsástand sem hefur um nokkurt skeið einkennst af þenslu og þá er mikilvægt að mínu mati að ná jöfnuði aftur og fyrr en áður var áformað í ríkisfjármálum og þess vegna nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem ella hefði verið hægt að gera á lengri tíma og fara hægar í sakirnar.

Sú tekjuöflun sem nú er ráðgerð miðar að því að unnt verði að afgreiða fjárlög með jöfnuði. Hún stefnir ekki að rekstrarafgangi hjá ríkissjóði á næsta ári og það er því ekki unnt að taka af rekstrarafgangi til að slaka á í skattheimtu. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti lýst því yfir að hún sé tilbúin til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins um lausn kjarasamninga að þeirri forsendu gefinni að víðtæk samstaða náist á milli þessara aðila innbyrðis og milli aðila vinnumarkaðarins sameiginlega og ríkisvaldsins um það meginmarkmið að draga úr verðbólgu á næsta ári og tryggja betra jafnvægi. Enn sem komið er hafa viðræður milli aðila vinnumarkaðarins innbyrðis ekki leitt til þess að tilefni hafi verið eða óskað hafi verið eftir því af þeirra hálfu að viðræður færu fram við ríkisvaldið.

En það er ljóst og skal tekið alveg skýrt fram að ríkisstjórnin hefur ekki samþykkt eða hefur uppi nein áform um að tekjuöflunin verði umfram það að ná jöfnuði á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Og þær tekjuspár sem nú er stuðst við benda ekki til þess að þar verði um umframtekjur að ræða.

Hv. 7. þm. Reykv. spurði að því hvort þeir aðilar, sem hæstv. utanrrh. vitnar til í viðtali í dagblaðinu Tímanum í dag, allir helstu aðilar í bankakerfinu, hafi skilað inn tillögum um peningamál. Það hafa ekki verið lagðar fram af hálfu Seðlabankans fyrir ríkisstjórnina neinar tillögur í þessum efnum. Hitt vita hv. þm. að Seðlabankinn hefur í samræmi við ný lög, sem hann starfar nú eftir, skilað áfangaskýrslu um álit sitt á stöðu peningamála. Hér er um nýskipan að ræða. Áður gerði Seðlabankinn grein fyrir þessu með ítarlegri skýrslu í tengslum við ársfund bankans, en nú er lögum samkvæmt skylt að gera þetta tvívegis á ári og sú skýrsla hefur verið lögð fram í ríkisstjórn og eftir því sem ég best veit fyrir hv. fjárhags- og viðskiptanefndir Alþingis. Í þessum skýrslum kemur fram mat Seðlabankans á stöðu peningamála, en þar er ekki að finna neinar tillögur af hálfu bankans. En augljóst má vera að þetta er eitt af þeim verkefnum sem stjórnvöld á hverjum tíma þurfa að fylgjast með og fjalla um og kemur væntanlega fæstum þm. á óvart. Spurt var hvort lagðar hafi verið fram formlegar tillögur af hálfu eins stjórnarflokkanna í þessum efnum í ríkisstjórn. Því er til að svara að svo er ekki.

Þá vék hv. þm. að yfirlýsingu forstjóra Þjóðhagsstofnunar í dagblaðinu Tímanum í morgun þar sem því er haldið fram að sögn hv. þm. að þjóðhagsspáin sé úrelt. Það ætti ekki heldur að þurfa að koma hv. þm. á óvart að allar spár sem gerðar eru hafa tilhneigingu til þess að úreldast. Hlutirnir ganga fram á ýmsa vegu og menn sjá ekki alltaf fyrir allar breytingar sem verða. Þess vegna hljótum við á hverjum tíma að taka okkar ákvarðanir út frá því sem best er vitað á hverjum tíma, þar á meðal á þessum tíma árs þegar teknar eru ákvarðanir um fjárlög og lánsfjárlög, jafnvel þó að við gerum okkur grein fyrir því að á hverju ári geta þeir hlutir gerst í okkar umhverfi sem síðar breyta spám um framvindu efnahagsmála.

Það er ljóst að við höfum á síðustu vikum mætt andstreymi. Við stöndum frammi fyrir nýjum erfiðleikum vegna þess að sérstaklega dollarinn hefur verið að falla meir en áður hafði verið ráð fyrir gert. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa verið að versna af þessum sökum.

Hv. þm. vék að því að haldið hafi verið leyndum fyrir Alþingi upplýsingum um þessi efni. Svo er ekki. Ég vil af því tilefni vitna í bréf, sem mér barst í dag frá forstjóra Þjóðhagsstofnunar og jafnframt er sent fjvn. Alþingis, sem skýrir ýmis atriði sem þm. vék að. Með leyfi forseta segir svo í bréfi forstjóra Þjóðhagsstofnunar:

„Að beiðni fjvn. hefur Þjóðhagsstofnun í samráði við fjmrn. endurskoðað tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir árið 1988. Þessi endurskoðun nær annars vegar til áætlana um tekjur ríkissjóðs á þessu ári, m.a. í ljósi nýjustu upplýsinga um innheimtu tekna á síðustu mánuðum, og hins vegar til tekjuáætlunar fyrir næsta ár vegna breytinga sem ákveðnar hafa verið á tekjuöflun ríkissjóðs frá því að fjárlagafrv. var lagt fram í október sl. Að öðru leyti byggist þessi tekjuáætlun á forsendum þjóðhagsáætlunar, sem lögð var fram á sama tíma og fjárlagafrv. í október, um almennar efnahagshorfur á næsta ári. Þessar horfur þarfnast endurskoðunar vegna ýmissa breytinga sem hafa orðið að undanförnu eða eru fyrirsjáanlegar. Þjóðhagsstofnun vinnur nú að þessari endurskoðun, en telur sér ekki fært að ljúka henni fyrr en eftir áramót þar sem ýmsar mikilvægar forsendur þjóðhagsspár eru enn óráðnar. Í þessu sambandi er vísað til greinargerðar stofnunarinnar til fjvn. frá 12. des. sl. um efnahagshorfur og tekjuáætlun fjárlaga“, en þar var þá þegar bent á ýmis atriði af þessu tagi.

Það er eðlilegt að Þjóðhagsstofnun afli sem bestra gagna áður en hún breytir eða gefur út nýja þjóðhagsspá og að mati stofnunarinnar er það ekki gerlegt fyrr en í byrjun nýs árs.

Þá fjallaði hv. þm. um hvort útflutningsgreinarnar þyldu þá gengisskráningu sem nú er. Um þetta atriði er það að segja að ég hygg að það sé óumdeilt að stöðugleikastefna í gengismálum hafi öðru fremur hjálpað til að ná niður óðaverðbólgu. Hún hefur líka veitt stjórnendum í atvinnulífi aukið aðhald, leitt til þess að hagræðing hefur átt sér stað og aðlögun að nýjum aðstæðum í atvinnulífinu, stuðlað að framleiðniaukningu þannig að atvinnulífið er í dag af þeim sökum hæfara til þess að takast á við vandamál en áður var. Því verður ekki á móti mælt að áföll síðustu vikna hafa sett sjávarútveginn, ekki síst frystingu, frammi fyrir nýjum vanda. Ríkisstjórnin hefur þegar rætt við forustumenn fiskvinnslunnar um þessi efni og ýmis atriði sem lúta að rekstri fiskvinnslunnar í landinu. Það var niðurstaða þess fundar að þeim viðræðum yrði fljótlega haldið áfram til þess að báðir aðilar gætu skýrt sín viðhorf og unnt væri að draga fram sem gleggst þær aðstæður sem við búum nú við og hver vandamálin væru í raun og veru.

Ég skil ekki og vil á engan hátt leggja orð hv. þm. út á þann veg að hann sé að fara fram á gengisfellingu eða mæla með því sérstaklega að til hennar verði gripið. Ég þykist alveg vita að hv. þm. er ljóst að fall krónunnar við þessar aðstæður gerir ekki það eitt að bæta afkomu útflutningsframleiðslunnar. Gengisfelling hefur áhrif á kjör fólksins í landinu. Spurningin um hvaða áhrif hún hefur til lengdar fyrir útflutningsframleiðsluna ræðst m.a. af því hvernig helstu kostnaðarþættir útflutningsframleiðslunnar þróast í kjölfar slíkrar ákvörðunar, þar á meðal hvernig launaákvarðanir yrðu teknar. Af öllu þessu má ráða að gengislækkun er ekki einhlít lausn á þeim vanda sem við er að etja.

Hv. þm. vék einnig að vaxtastefnunni. Ég get tekið undir það og hygg að það sé varla delluefni að vextir á Íslandi eru of háir, fyrst og fremst vegna þess að það hefur verið of mikil þensla í þjóðarbúskapnum undanfarið og of mikil verðbólga. Við erum þessa dagana að taka mjög mikilvægar ákvarðanir í þeim tilgangi að ná betri tökum á efnahagsástandinu með því að stíga fyrr en áður var áformað það skref að ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem mun við þessar aðstæður hafa jákvæð áhrif á fjármagnsmarkaðinn. Aðalatriðið er þetta: Við þurfum að ná niður verðbólgu og koma í veg fyrir ofþenslu í hagkerfinu og þá náum við því markmiði að lækka vextina sem ég er sannfærður um að er sameiginlegt markmið allra þeirra sem sitja á Alþingi.

Menn geta svo kallað það skipulag, sem fyrrv. ríkisstjórn ákvað og setti í lög um vaxtaákvarðanir, út af fyrir sig hvaða nafni sem er. Við vitum að það skipulag sem nú gildir og fyrrv. ríkisstjórn setti í lög er sams konar kerfi og sósíaldemókratískar ríkisstjórnir á Norðurlöndum til að mynda innleiddu fyrir 2–3 áratugum. Hvort menn kalla þetta kratískt kerfi eða frjálshyggjukerfi skiptir ekki höfuðmáli. Það er efni þessara ákvæða sem í raun og veru skiptir máli og það sem er aðalatriðið er að menn taki höndum saman um að taka þær ákvarðanir sem geta leitt til þess að vextir lækki á ný því að það er höfuðmál fyrir atvinnuvegina og heimilin í landinu að það takist. Afgreiðsla fjárlaga á þessu þingi í jöfnuði og sá hemill sem nauðsynlegt er að hafa á erlendum lántökum mun stuðla að því að við færumst nær því að geta lækkað vexti á nýjan leik og ég vænti þess að um ráðstafanir af því tagi geti tekist víðtæk samstaða á hinu háa Alþingi.