19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. varpaði fram fsp. áðan varðandi þá hækkunartillögu sem er vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en gert er ráð fyrir að sá liður hækki um 100 millj. kr. skv. till. meiri hl. nefndarinnar og er þá reiknað með í þeirri tölu að tónlistarskólarnir falli undir sveitarfélögin, jöfnunarsjóðinn, en ef svo fer að þeir verði færðir til ríkisins á næsta ári má segja að þessi tala þurfi að lækka. Ég vona að þetta sé nóg um þetta atriði.

Ég vil í öðru lagi lýsa yfir undrun minni á því að a.m.k. síðasti hv. ræðumaður hefur haft mjög við orð að þær skýrslur og þau gögn sem nefndinni hafa borist séu fölsuð. Þetta held ég að sé mjög ofsögum sagt. Ég held að þeir embættismenn sem hafa komið til fundar við nefndina hafi lagt sig fram um að reyna að gefa þm. og þingnefndinni sem fyllstar upplýsingar eins og þær hafa legið fyrir á hverjum tíma. Hitt er svo annað mál að fyrir því er löng reynsla að á milli 2. og 3. umr. fjárlaga eru lögð fram síðustu gögn og þau nýjustu sem völ er á um hvernig búast megi við að tekjuáætlun ríkissjóðs verði fyrir næsta ár. Það er engin undantekning nú frá því sem áður hefur verið. Það var eins með þessum hætti þegar hv. 5. þm. Reykv. var fjmrh. Þá breyttust plöggin frá því fjárlög voru lögð fram og fram á síðustu stundu rétt eins og núna og ég hygg, enda var ég góður stuðningsmaður hv. 5. þm. Reykv. meðan hann var fjmrh., að hann hafi ekki viljað með þeim hætti vera með neitt fals eða draga dár að þinginu heldur hafi hann reynt á hverjum tíma að leggja fram sem fyllstar upplýsingar og hans embættismenn með sama hætti og ég hygg að embættismenn leggi sig fram um það nú að vera heiðarlegir í upplýsingum sínum við fjh.- og viðskn. deildarinnar og alþm. yfirleitt. Ég vil einmitt leggja áherslu á að síðast í dag barst nefndarmönnum ný tekjuáætlun fjárlaga frá Þórði Friðjónssyni, forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar, sem mjög hefur verið vitnað til í ræðustólnum.

Ég vil í annan stað segja að það er mjög freistandi að fara hér út í almennar umræður um ríkisfjármál, um vaxtamál, um atvinnumál, um efnahagsmál á breiðum grundvelli. Það hafa verið gefin ærin tilefni til þess og satt að segja nokkuð undarlegt þegar hæstv. utanrrh. loksins kemur til landsins að hann skuli byrja á að láta hafa við sig jafndæmalaust viðtal og birtist í Tímanum í dag þar sem hver fullyrðingin rekur aðra sem hann getur hvorki staðið við eða getur gefið fullnaðarskýringar á, enda er ógerningur að skilja sum ummæli í þessu viðtali öðruvísi en svo að í því felist hið argasta vantraust á ríkisstjórnina. Ég get því vel skilið að undir rós hafi hæstv. viðskrh. verið þungorður áðan. Það má kannski segja að þegar menn eru mjög á förum sé nauðsynlegt að taka djúpt í árinni til þess að eftir því verði tekið þegar menn eru staddir hér á landi.

Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni.