19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég get glatt þingheim með því að ég mun ekki tala langt mál og einvörðungu um efnisatriði í þessu frv. Ég má þá kannski geta þess að mér leist ekki meira en svo á það sem sneri að landbúnaðinum í þeim stóru málum sem hafa verið til umræðu hér að undanförnu. Þar á ég við bæði fjárlög, lánsfjárlög, tollalög og þær söluskattsbreytingar sem áformaðar eru. Þetta hefur raunar flest færst mjög til hins betri vegar og ætla ég ekki að tíunda það frekar nema það sem víkur sérstaklega að frv. til lánsfjárlaga.

Í 22. og 23. gr. þess frv. eru veittar skv. frv. heimildir til að skerða eða afnema framlög vegna jarðræktarlaga og búfjárræktarlaga. Þetta hefur hins vegar færst heldur til betra horfs með tilkomu brtt. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn., en samt er mér alveg óskiljanleg sú þörf sem er fyrir þær takmarkanir sem er gert þar ráð fyrir. — Já, mér þætti heldur vænt um að það væri opin hurð svo að hæstv. fjmrh. gæti hlýtt á orð mín. — Ég fæ ekki með neinum hætti séð hvaða þörf er fyrir 6. og 7. gr. Frá mínum bæjardyrum séð eru þær alveg ósættanlegar.

Mér þætti mjög mikilvægt, frú forseti, ef formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar og frsm. og fjmrh. þyrftu ekki endilega að vera við störf á meðan ég er að lesa þennan pistil því að hann er þeim ekki óviðkomandi. (Forseti: Ég held að bæði hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Norðurl. e. séu nú þegar mættir til leiks og muni hlusta með gaumgæfni á hv. 5. þm. Austurl.) Það þykir mér vænt um að heyra.

Þá er það fyrst varðandi 6. gr. í tillögum meiri hl. Ég skil ekki þann texta sem þar er settur upp. Það er talað um að skerða jarðabætur miðað við 141 millj. kr. Jarðabætur þessa árs verða ekki svo háar. Aftur á móti verður heildarfjárþörfin vegna jarðræktarlaganna hærri og það kemur einmitt vegna nýbúgreinanna. En fyrir utan þetta skil ég heldur ekki til hvers þarf að vera að kveða á um að það eigi ekki að greiða hluta af þessum framkvæmdum fyrr en á árinu 1989. Ef menn eru ekki tilbúnir að standa við lögin greiða þeir þær ekki frekar en stundum hefur verið gert gagnvart búfjárræktarlögunum. Alveg með sama hætti fæ ég ekki skilið hvernig á að skerða búfjárræktarlögin miðað við það sem stendur í fjárlögum um 9 millj. kr.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, að þessar greinar eru ósættanlegar frá minni hendi. Af því að menn eru að tala um að það eigi að gera breytingar á þessari löggjöf verða þær varla öðruvísi gerðar en um þær sé a.m.k. nokkur sátt. Ég fæ ekki séð að slík endurskoðun geti farið fram með eðlilegum hætti undir þeirri svipu sem þarna er sérstaklega til höggs reidd gagnvart landbúnaðinum. Ég vil þess vegna beina því sérstaklega til nefndarinnar að fyrir 3. umr. verði þetta sérstaklega skoðað með tilliti til þess að fella þessar greinar báðar í burtu, en verði það ekki gert hlýtur það að koma til ákvörðunar hvort þær eigi að vera þarna inni eða ekki.

Ég orðlengi þetta ekki frekar, virðulegi forseti. Ég vona að formaður fjh.- og viðskn. og fjmrh. hafi heyrt orð mín og á þá eftir að koma í ljós hvaða mið þeir kunni að taka af þeim og þar með ræðst afstaða mín til þessara tveggja greina við 3. umr. þessa máls.