19.12.1987
Neðri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 246 við frv. til laga um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Brtt. hljóðar þannig:

„Við II. kafla, um breytingu á íþróttalögum, nr. 49/1956, með síðari breytingum. Kaflinn falli brott.“ Ég hef eytt hér ómældum tíma í að ræða gildi íþrótta í gegnum tíðina fyrir land og þjóð og ætla ekki að þreyta þm. á að fara yfir þá rullu alla enn einu sinni, en bent hefur verið á að taki þessi lög gildi þá muni aðstöðumunur verða óviðunandi hvað varðar íþróttaaðstöðu í landinu þar sem minni félögin muni líða fyrir það hversu smá þau eru og úr hve litlu þau hafa að moða af fjármagni. Þetta mun einnig leiða til þess að það verður röskun á byggðamálum þannig að hér er um málefni byggðastefnu að ræða einnig þar sem ljóst er að æskufólk og þeir sem vilja stunda íþróttir leita þangað sem aðstaðan er og hún mun væntanlega ekki verða í heimabyggð í smærri sveitarfélögum og þar af leiðandi mun metnaðarfullt íþróttafólk sækja á þá staði þar sem aðstaðan er fyrir hendi en það er væntanlega í stærri byggðarfélögum og þá einna helst hérna á höfuðborgarsvæðinu.

Mikið hefur verið rætt um fólksflóttann af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið og væri því illa gert að stuðla að því enn frekar að fólk flýi landsbyggðina inn á höfuðborgarsvæðið.

Einnig hefur verið bent á það að íþróttir eru almenningseign. Það á ekki að vera í hendi sveitarstjórna út um hina dreifðu byggð hvort íþróttir séu almennt stundaðar í viðkomandi sveitarfélagi eða ekki. Það verður þannig ef þessi lög taka gildi þar sem það verður í hendi sveitarstjórna hvort þau stuðla að uppbyggingu íþrótta í sínu sveitarfélagi. Og það segir sig sjálft að þar sem fjármagn er af skornum skammti þá er hætta á því að íþróttir verði látnar sitja á hakanum.

Það hefur verið bent á forvarnarstarfið og hvað íþróttir vigta þungt í forvarnarstarfinu. Íþróttamenn neyta minna áfengis og minna tóbaks en gengur og gerist um jafnaldra þeirra og ætti Alþingi að bera gæfu til að stuðla að slíku hvar sem hægt er.

Nefnt hefur verið uppeldishlutverk íþróttanna. Þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu þroskandi þær eru og þá ekki síst hversu mjög þær spara heilbrigðisgeiranum í útlögðum kostnaði.

Þá hefur verið talað um landkynningarþátt íþróttanna og nægir þar að benda á hina fjölmörgu núorðið heimsfrægu íþróttamenn sem við eigum eins og t.d. Ásgeir Sigurvinsson, sem getið hefur sér frægðarorð í Belgíu, Þýskalandi og víðar, Arnór Guðjohnsen sem aflað hefur sér frægðar í Belgíu, formann Borgarafl., sem varð kunnur í Englandi, Skotlandi, Ítalíu, Frakklandi og víðar og Einar Vilhjálmsson um allan heim fyrir afrek sín í spjótkasti. Svona má náttúrlega lengi telja og væri reyndar gaman að fá það útreiknað miðað við síðupláss í dagblöðum þar sem nafn Íslands kemur fram hvers virði þetta er fyrir landið miðað við þann auglýsingakostnað sem yrði að leggja í fyrir bragðið. Enda sagði hv. þm. Alexander Stefánsson, 1. þm. Vesturl., að hér væri á ferðinni einhver besta fjárfesting sem völ væri á.

Hv. þm. sagði einnig að það væri krafa að aðstaða væri fyrir hendi í öllum byggðarlögum landsins. Með því að samþykkja þessi lög óbreytt eins og þau eru nú er engan veginn hægt að standa undir þessari kröfu. Hann kom einnig inn á það að endurskoða þyrfti íþróttalög. Ég er honum fyllilega sammála en ég tel að það eigi að gera það áður en svona skref er stigið þar sem færa á allt íþróttastarfið yfir á sveitarfélög.

Nefndin hefur borið gæfu til að taka á málefnum tónlistarskóla og ákveða að fresta gildistöku þeirra laga fram á mitt ár 1989. Ég tel mjög eðlilegt að gert sé slíkt hið sama hvað varðar íþróttir og það skoðað út frá nánast sömu rökum og frestað er núna gildistöku laga um tónlistarskóla og tónlistarkennslu.

Engu að síður viðurkenna þeir nú hálfpartinn, meiri hl. félmn., að þeir fari ekki alveg með rétt mál því að þeir setja inn svona „mini“-íþróttasjóð eða eins og ég sagði um daginn, svona snuð sem er stungið upp í okkur sem erum að röfla hérna um íþróttir og hæstv. ráðherrar hirða nánast ekki að svara um þegar þeir eru spurðir um það málefni. Þeir brosa út í annað og leggja á flótta út úr sal. Þeim íþróttasjóði sem þarna er ráð fyrir gert eru skammtaðar 15 millj. og það sér hvert mannsbarn að fyrir heila landsbyggð stuðlar það að nánast engri uppbyggingu, og ég fullyrði reyndar engri, því þessar 15 millj. fara í það að greiða upp þær skuldbindingar sem Íþróttasjóður er þegar bundinn við.

Ég hef spurt ráðherra að því, og ég sé að hæstv. menntmrh. er í salnum, hvernig þeir hyggist taka á því ef landssambönd fara út í byggingu íþróttamannvirkja. Ég hef nefnt sem dæmi ef Handknattleikssamband Íslands hyggst byggja höll og hugsanlega þurfa þeir jafnvel að byggja sér aðstöðu ef þeir taka við heimsmeistarakeppninni 1994. Hvaða sveitarfélag á að taka þátt í því? Á Reykjavíkurborg að standa ein undir slíku? Ég efast um að hv. Davíð Oddsson fallist á slíkt ef svona lög taka gildi, enda ekki hægt að krefja hann um það að hans sveitarfélag eitt standi að slíkri uppbyggingu.

Ég vil því hvetja menn til að greiða þessari brtt. atkvæði og gefa okkur betri tíma til að skoða málefni íþrótta. Ef út úr þeirri endurskoðun kemur að þau eru betur geymd á herðum sveitarfélaga en eins og er í dag, á herðum bæði ríkis og sveitarfélaga, þá skulum við aftur taka það mál upp.