21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Karvel Pálmason):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem menn upplifa á langri ævi. Það eru fjögur ár síðan hér hinum megin við dyrnar í hv. Nd. voru umræður í fyrsta skipti um kvóta. Þar var harðasti gagnrýnandi þess kerfis sá hv. þm. Reykv. sem hér var að ljúka máli. Hann gagnrýndi það harðlega hvernig þeir „SÍS-menn“, eins og hann orðaði það þá, ætluðu sér að haga fiskveiðum næstu árin.

Ég var einn af þeim sem tóku þátt í slíkum umræðum og var jafnframt gagnrýnandi þessa kerfis. Og ég er það enn. En nú hafa orðið hlutverkaskipti. Forsvarsmenn einkaframtaksins vilja nú einoka auðlindir hafsins við tiltekna fámenna klíku sem á að ráða lögum og lofum yfir þessum auðæfum. Þessu hefur verið mótmælt harðlega og hlýtur að verða það áfram. En nóg um það í bili.

Ég hlýt í byrjun, herra forseti, að víkja örfáum orðum að því hvernig þetta mál hefur borið að og hvernig það hefur þróast. Kannski þykir hv. þingdeildarmönnum það með ólíkindum að hér sé að tala formaður sjútvn. þessarar hv. deildar sem í almennu máli er talinn stjórnarsinni.

Ég sagði það hér við 1. umr. þessa máls að vissulega væri mikill ágreiningur í þessu máli, ekki bara milli flokka heldur og milli manna innan flokka. Og það hefur verið staðreyndin hér undangengin ár sem þetta mál hefur verið til umræðu í þinginu. Ég sagði jafnframt að hvað sem þessu liði þá hlyti ég að gegna þeim skyldum mínum sem formaður viðkomandi nefndar að láta málið fá þinglega meðferð og að hin þinglega meðferð hlyti að ráða niðurstöðum hér í þessu máli.

Á þskj. 378 flyt ég sérstakt nál., að vísu stutt, en ég held að það segi þá sögu hvernig þetta mál hefur þróast í gegnum sjávarútvegsnefndir í báðum deildum. Það var ákveðið frá upphafi að freista þess að báðar nefndir ynnu sameiginlega að þessu máli og jafnframt um það talað að fulltrúi sjútvrn. sæti alla þá fundi og veitti allar þær upplýsingar sem um væri beðið. Það var gert og fyrir það vil ég sérstaklega þakka. Ég vil líka þakka öllum nefndarmönnum fyrir það samstarf sem ég átti við þá þó að ekki tækist endanlega að eiga samleið til loka.

Varðandi þetta mál voru haldnir tíu fundir, þar af átta sameiginlegir fundir nefndanna beggja þannig að málið hefur, að ég held, miðað við kringumstæður fengið nokkuð ítarlega umræðu þó að vissulega hefði hún þurft að verða lengri vegna þess hversu málið er stórt og tími hefði þurft að vera rýmri til þess að ræða málið. Aðstæður hafa hagað því svo, því miður, og hvernig málið var undirbúið af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar, að lengri tími gafst ekki til þess að fjalla um málið innan nefndanna.

Strax þegar nefndir hófu störf, og raunar miklu fyrr, og allan þann tíma sem kvótinn hefur verið í gildi hefur verið bullandi ágreiningur um þetta kerfi, bullandi ágreiningur. Formenn sjútvn. beggja deilda töldu að í ljósi þessa væri a.m.k. skynsamlegt að leggja fram drög að hugsanlegum brtt. við frv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórnar, drög að brtt. sem hugsanlega gætu orðið til þess að sætta frekar þau sjónarmið sem uppi eru heldur en það sem frv. gerir ráð fyrir. Þetta var gert og þessar hugmyndir að brtt. voru ræddar ítarlega í nefndunum báðum. Ég held að ýmsir nefndarmanna sem slíkir hafi viljað ganga verulega lengra til móts við þessar brtt. heldur en endirinn varð á. Þar hafa greinilega einstakir þm., kannski hópar þm., verið píndir og plagaðir til annarra hluta en þeirra eigin sannfæring hefur gert ráð fyrir. Þar hefur ráðherravaldið ráðið ferðinni og það er ekkert nýtt. Og það er með eindæmum að mínu viti hversu hæstv. sjútvrh. tekst að hnýta þá hnúta til þess að framkvæma nánast það sem honum dettur í hug að því er varðar sjávarútvegsstefnuna.

Með þessu frv. sem menn eru nú að tala um er verið að auka gífurlega þá haftastefnu sem kvótinn núverandi hefur haft í för með sér. Enn á að auka vald hæstv. ráðherra til fleiri þátta í fiskveiðum en verið hefur. Það á að þenja út heimilishald hæstv. ráðherra yfir fiskveiðum á Íslandi. Hæstv. ráðherra hefur undangengin ár farið með fiskveiðistefnuna eins og heimilisbókhaldið hjá sjálfum sér. Og það er gífurlegt vald sem meiri hl. Alþingis hefur fært tilteknum ráðherra í þessum efnum og með ólíkindum að menn ætli sér að halda slíku áfram. Ég tala nú ekki um að auka slíkt vald. (HBl: Hv. þm. stendur að því að hann er áfram sjútvrh.) Ég veit ekki til þess að ég hafi greitt atkvæði með slíku. Hefur hv. þm, vitað til þess? (HBl: Ég veit að hv. þm. er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.) (Gripið fram í: Væntanlega að biðja um vantraust á sjútvrh.) Er hv. þm. að biðja um einhverja breytingu í þessum efnum? (HBI: Nei, síður en svo.) En hvað? (HBI: Ég er bara að álykta að við treystum báðir hæstv. sjútvrh.) Ég bið nú hv. þm. Halldór Blöndal að tala ekki mínu máli í einu eða neinu. Ég hef hingað til talið mig geta það sjálfur. Nei, hafi mönnum þótt kvótafyrirkomulagið slæmt eins og það nú er, þá er hér verið að herða enn á því og verður vikið að því sérstaklega á eftir.

Mér heyrist að ekki hafi verið gert neitt samkomulag um það með hvaða hætti menn ræða þessi mál. Ég skal taka það strax fram, og sagði það raunar strax við 1. umr., að ég hef ekki, að ég best veit, undir neinum kringumstæðum reynt að tefja þetta mál í meðferð nefndarinnar og tel að nefndirnar hafi báðar sýnt það í verkum að þær hafi skilað málinu eftir bestu getu miðað við þær kringumstæður sem þær bjuggu við. Og ég mun ekki gera tilraunir til þess að tefja þetta mál með einum eða neinum hætti. Auðvitað er þetta mál það stórt að það verður að fá eðlilega umfjöllun hér í þinginu. Það má telja vítavert að í hvert skipti sem slíkt mál er lagt hér fram á Alþingi, þá er það gert nánast á síðustu dögum Alþingis og ég lít svo á að það sé gert til þess að stilla þm. upp við vegg þannig að þeir geti ekki rætt málið með eðlilegum hætti.

Ég minni á að það var í gildandi lögum endurskoðunarákvæði og skv. því að endurskoða lögin fyrir ári síðan. Það var ekki gert þannig að hér búa menn við eitthvert harðsvíraðasta haftakerfi sem um er að ræða.

Ég sagði hér áðan að við 1. umr. þessa máls hefði ég rifjað upp mína afstöðu til kvótamálsins eins og það hefur verið. Ég tala nú ekki um í ljósi þess sem á að bæta við. Ég minni menn á það að í stjórnarsáttmála hæstv. núv. ríkisstjórnar, sem margir hafa byggt á og telja trausta, er sérstaklega vikið að sjávarútvegsstefnunni. Og þar var gert ráð fyrir, að mér skilst, að sett yrði sérstök nefnd stjórnarflokkanna til þess að fara yfir það mál og það tímanlega að sú nefnd gæti skilað niðurstöðum það vel fyrir áramót að hægt væri að breyta um stefnu í fiskveiðum frá því sem nú er. Sú nefnd hefur engu áliti skilað enn og ég spyr þá sem stóðu í þeirri meiningu að það væri þess nefnd sem ætti að leysa málið, ég spyr þá að því: Eru þeir þeirrar skoðunar enn að þetta hafi verið lykillinn að lausn fiskveiðistefnunnar sem ætti að gilda frá áramótum?

Frv. hæstv. ráðherra er með gildistíma fjögur ár. Meiri hl. sjútvn. Ed. virðist hafa sameinast um það að hafa þann gildistíma nú þrjú ár. Og mér sýnist að þær breytingar sumar hverjar, sem meiri hl. sjútvn. Ed. gerir tillögu um, geri frv. enn verra en hæstv. ráðherra lagði það fyrir þingið. Þar minni ég á þá breytingu sem menn voru að tala um á smábátaþættinum að ég sé ekki hvað þar kann að koma út úr. Mér er ekki ljóst hvað sú breyting kann að hafa í för með sér þar sem hæstv. ráðherra er nánast gefið valdið til þess að útfæra það í reglugerð. Og ég minni líka á það að með brtt. meiri hl. sjútvn. Ed. eru menn að koma bakdyramegin að þeim sem hafa búið við norðursvæðið og eru að opna inn fyrir suðursvæðið, norður-suðurlínuna eins og menn hafa kallað það. Og það er einkennilegt að heyra þann málflutning hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni þegar hann segir hér áðan: „Karfastofninn er mjög veikur en það er eðlilegt að aflamark karfa verði hækkað.“ Hvers konar málflutningur er þetta? Karfastofninn er veikur ... (GHG: Ég held að hv. þm. þekki ekki aflatölurnar eins og þær eru í dag.) Ég bara tók tal mannsins fullkomlega alvarlega. (GHG: Ég held að hv. þm. ætti að kynna sér þær.) Og ég ætlast til þess að á þeim hv. þm. sem hér tala úr pontu sé hægt að taka mark. (GHG: Það þarf að minnka veiðarnar.) Hv. þm. sagði nánast orðrétt:

„Karfastofninn er mjög veikur, en það er eðlilegt að karfaaflamark verði hækkað.“ Hvað þýðir þetta? Af því að stofninn er veikur þá á að veiða meira. (GHG: Innan kvótans.) Þetta eru nú rökin sem menn eru að tala um í þessu máli. Og ef rökin eru öll með þessum hætti þá sýnist mér nú ekki gefandi mikið fyrir málið. (Gripið fram í.) Auðvitað geta menn kallað fram í hér úr sætum, en ég vil nú heldur taka mark á því sem menn tala hér formlega úr ræðustól. (GHG: Rétt verður að vera rétt.) Auðvitað er rétt rétt og við skulum lesa þetta á eftir hvernig þetta var orðað. Ég hygg að hv. þingdeildarmenn hafi heyrt þessi ummæli aðrir en ég, þannig að þetta er ekki minn tilbúningur. En hér var sá að tala sem hefur allt til þessa viljað ganga lengst í því að vernda einstaklingsframtakið. Einstaklingsframtakið. Og þetta er afraksturinn. Þetta er afraksturinn eftir fjögur ár. Að hefta veiðimannaþjóðfélagið í enn meiri fjötra en nokkrum öðrum hefur dottið í hug í gegnum árin. (GHG: Eigum við að auka smáfiskadrápið?) Eigum við að auka? (Forseti: Má ég biðja hv. 14. þm. Reykv. að hafa hóf á frammígripum.) Ekki hef ég á móti því þó að hv. þm. líði svo illa að hann verði að tala við mig bara beint. (Forseti: Ég bið um ákveðna hófsemi í þessum efnum.) (GHG: Eigum við ekki að tala um smáfiskadrápið?) Við skulum vissulega tala um smáfiskadrápið. Við höfum kannski nægan tíma til þess í áframhaldi.

Ég vil að gefnu tilefni spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig á því standi að sú nefnd sem átti að skipa af hálfu stjórnarflokkanna til að fara ofan í þetta mál og vinna úr því, gera tillögur um breyttar kvótaúthlutunarreglur frá og með komandi áramótum, hvernig á því stendur að hún hefur ekki skilað áliti. Hver er ástæðan fyrir því? Ég fullyrði það að frv. ráðherrans eða hæstv. ríkisstjórnar eins og það liggur nú fyrir og þær brtt. sem meiri hl. leggur til ganga þvert á stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar. Þær ganga þvert á hann. Og ég trúi því ekki að þeir menn sem að honum standa og vilja virða hann standi að þessari afgreiðslu sem hér er lögð til.

Það er kannski einkennilegt en ég er einn af þeim sem a.m.k. gera tilraun til að segja það sama bæði fyrir og eftir kosningar, hafa sömu skoðun bæði fyrir og eftir kosningar — hvort sem mönnum líkar það nú betur eða verr, það verða menn að hafa — og svo ætti að vera um fleiri. Mér sýnist á ýmsu að margir hafi nú allt aðrar skoðanir eftir kosningar en þeir. höfðu fyrir kosningar. Það á við þetta mál. Það á við fleiri mál. En eigi að síður er best að sjá hver endirinn a þessu verður. Lengi skal manninn reyna og batnandi mönnum er best að lifa. Og vonandi sjá menn fram úr því að leiðrétta þessa hluti í átt til þess sem lofað var fyrir kosningar.

Ég minnti líka á það við 1. umr. þessa máls að þegar kvótinn var settur á höfðu þeir kvótamenn fyrst og fremst verndunarsjónarmiðin að leiðarljósi, að þeir sögðu sjálfir. Þrátt fyrir þetta hefur staðreyndin orðið sú að það verður veitt um eða yfir 30% umfram það aflamark sem sérfræðingar, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var sérstaklega að víkja að hér áðan, um eða yfir 30% umfram það sem sérfræðingar í þessum efnum töldu að mætti gera. (SkA: Það gæti nú verið smáfiskur í því.) Það er hugsanlegt. Ekkert skal ég fullyrða um það. En ég vil minna á í þessu sambandi, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að í Kanada hefur þetta kerfi verið við lýði einhvern tíma, en það er að hrynja — ef ekki hrunið. Og það er þetta kerfi sem einn af aðalpostulum hægri manna á Íslandi, Guðmundur H. Garðarsson, er að predika hér yfir þingheimi að eigi nú að herða og taka meira upp.

Það hefur ekki farið milli mála hjá neinum, sem hefur fylgst með þessu máli, hversu gífurlegu valdi Alþingi er að afsala sér til eins einstaklings, í þessum efnum til hæstv. sjútvrh. Og hann, hæstv. ráðherra, hefur kunnað að fara með málið eins og honum hentaði. Hann er út af fyrir sig ekkert gagnrýnisverður fyrir það vegna þess að meiri hl. Alþingis fól honum þetta vald. Og hann spilar og spilar mikið. Og enn ætla menn að auka þetta vald og gefa honum betri spil á hendur.

Ég minni á að í frv. hæstv. ráðherra eins og það var lagt fram og hæstv. ríkisstjórnar átti ekki bara að viðhalda núverandi kvótakerfi. Það átti að þrengja verulega að smábátum og enn er ekki séð fyrir endann, hvað hugmyndir meiri hl. sjútvn. Ed. kunna að hafa í för með sér fyrir smábáta. Mér er það ekki ljóst, ég viðurkenni það, hvernig þær kunni að reynast. En í upphaflegu frv. átti verulega að þrengja hag smábáta, átti nánast að banna mönnum að kaupa skektu. Það átti líka að setja kvóta á úthafsrækjuveiðina og á skv. frv. og því mælir meiri hl. sjútvn. með. Ég skil ekki þá menn, sem eru fulltrúar landsbyggðarinnar á hv. Alþingi, sem telja sig geta staðið undir þeirri gífurlegu ábyrgð að haga sér með þessum hætti að því er varðar lífsbjörg fleiri hundruð heimila í landinu. Eru menn virkilega reiðubúnir að leggja fjölda heimila úti á landsbyggðinni í mismunandi stórum sjávarþorpum í rúst? Það sýnist mér vera a.m.k. vilji sumra, tilgangur sumra og kannski leggja þeir blessun sína yfir það hér. Er mönnum virkilega ekki ljóst enn hversu kvótinn hefur haft gífurleg áhrif á byggðastefnu eins og hún hefur þróast? Kvótinn er ein aðalorsökin í því hversu landsbyggðin hefur farið illa út úr málum undangengin ár. Og ætla menn virkilega, ekki bara að halda áfram á þeirri braut, frekar að þrengja að landsbyggðinni?

Ég vil minna menn á að eitt meginmál í kosningaslagnum á síðasta vori á Vestfjörðum var spurningin um að létta af eða leiðrétta a.m.k. það kvótakerfi sem við búum við. Um það voru allir sammála. Allir frambjóðendur voru sammála um það. Ætla menn nú að snúa til baka þar? Ætla menn að draga í land? Ætla menn að standa þannig að verkum að samþykkja ekki bara óbreyttan kvóta heldur gífurlega aukinn á fleiri sviðum en hann hefur verið? Voru það kosningaloforðin sem menn gáfu í síðustu kosningum? Ég held ekki. Ég held að menn hafi gefið allt önnur loforð. Og ég er nánast viss um að þessi mál hafi ekki verið síður í mikilli umræðu og til umfjöllunar á öðrum landsvæðum en Vestfjörðum fyrir kosningarnar síðustu. Þær hafa trúlega verið það víðar og trúlega verið sagt svipað á þeim svæðum eins og ég er hér að lýsa að sagt var á Vestfjörðum. Ætla menn líka þar að breyta til? Ætla menn þar að stíga skrefið lengra inn í kvótann en verið hefur og herða tökin? Auðvitað spyr landslýður þessara spurninga. Þessari spurningu verða þm., hvar í flokki sem þeir eru, af hvaða landsvæði sem þeir eru, að svara og þeir verða að sjálfsögðu að standa ábyrgir fyrir þeim loforðum sem þeir gáfu og fyrir því svari sem þeir ætla að ákveða. Þetta hlýtur hver og einn þm. að gera sér ljóst. Ekki ætla ég mönnum annað.

Ég fullyrði að a.m.k. á því svæði þar sem ég þekki best til, sem eru Vestfirðir, þar hefur þáttur kvótans verið hvað mestur í því að draga fólk frá framleiðslustörfunum í frystihúsunum og framleiðslu á fiski til þjónustustarfsins á suðvesturhorninu á landinu. Kannski er meining stjórnvalda að það sé allt í lagi að byggja bara blokkir hér og færa allt liðið hingað suður. En ætli það mundi ekki minnka í buddunni hjá sumum syðra ef slíkt væri gert? Ætli það yrðu ekki minni innkaupin ef ætti að halda áfram á þeirri braut að hefta framleiðsluna en bæta alltaf við í þjónustuna?

Ég sagði áðan, og raunar tók frsm. meiri hl. það fram líka og gerði grein fyrir því, að margir aðilar, fulltrúar samtaka hefðu komið á fund sjútvn. og gert grein, fyrir sínum viðhorfum til þessa máls. Þau voru að sjálfsögðu mismunandi og sum viðhorf voru önnur þegar menn fóru út en þegar þeir komu inn. Það er tilgangur þingnefnda að reyna að fá fram viðhorf þeirra aðila sem næst standa tilteknu máli sem um er að ræða og fá viðbrögð. Ég er handviss um að innan þessara raða er bullandi ágreiningur um þetta mál. Það er ágreiningur innan sölusamtakanna, það er ágreiningur innan sjómannasamtakanna og það er ágreiningur víðar. Hér eru menn ekki að leysa nein mál til þess að stærri hópur verði sammála en verið hefur. Hér eru menn að ganga þveröfuga leið. Menn eru nánast með þessu frv., ef það verður að lögum, að segja landsbyggðinni stríð á hendur í þessum efnum. Kannski mönnum finnist þetta stór orð. En það skyldi samt ekki vera að að þessu dragi ef menn ætla að halda áfram þessa leið. Ég skil ekki þm. af svæðum sem að verulegu leyti, það fólk sem á þeim býr, byggir lífsafkomu sína að 80 eða 90% á fiskveiðum og fiskvinnslu ef þm. þeirra landsvæða ætla að láta þetta ganga yfir.

Það kann vel að vera að þetta sé í lagi í Reykjavík. Það er kannski ekki mest hættan hér. En hvað ætla menn, sem þetta leggja til, að bjóða fólki úti á landsbyggðinni sem hefur 80–90% af sínu lífsviðurværi af fiskveiðum og fiskvinnslu? Hvað ætla menn að bjóða því þegar svona á að fara með sjávarútveginn? Þar er ekki í önnur hús að venda. Menn grípa ekki upp þar önnur atvinnutækifæri sem brúa bilið. Það eru engar auðlindir á vissum svæðum landsins eða kringum landið aðrar en auðlindir hafsins. Það er skynsemi og skynsemi ein að búa þannig um fiskveiðistefnu að þeir sem búa næst fiskimiðunum geti hagnýtt sér þau sem best, nýtt aflann sem best og skilað mestu verðmæti. En það er ekki sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggja til í þessu máli. Hún er önnur.

Menn hafa mikið í þessum umræðum sumir hverjir verið að býsnast yfir því hversu ágangur smábáta væri mikill, hversu stóran hluta þeir tækju úr heildaraflamagninu sem verið væri að taka á land. Staðreyndin er sú og það vita menn að hlutfallslegur afli smábáta, þá erum við að tala um innan við 10 tonn, milli 1986 og 1987 hefur ekkert aukist. Hann er nánast sá sami. Og að láta sér detta í hug að hefta með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir trilluhorn, skektur og báta að 10 tonnum. Það er hreinasta firra. Það vita allir menn sem vilja hugsa, hafa hugsun, vilja nota hana og geta notað hana, að það er veðrið fyrst og fremst sem ræður sókn þessara báta, veðurfarið. Ég ítreka enn einu sinni og bið menn að taka eftir orðum núv. hæstv. fjmrh., formanns Alþfl., sem hann sagði og skrifaði, að það væri fásinna að ætla sér að stjórna fiskveiðum við Ísland með reglustikuákvörðunum frá skrifborði í Reykjavík. Ég veit ekki til að formaður Alþfl., hæstv. fjmrh., hafi breytt um skoðun í þessum efnum. Mér er það ókunnugt, enda á ég ekki von á að hann hafi gert það. En þetta er rétt hjá honum og það er ekki í fyrsta sinn sent hann fer með rétt mál.

Þetta er meginkjarninn í málinu. Það er ekki hægt að stjórna fiskveiðum við Ísland með reglustrikuákvörðunum frá skrifborði í Reykjavík. Þetta ætta menn að gera, ekki bara eins og það var eða er heldur stórauka það. Þetta er jólaboðskapur meiri hl. sjútvn. Ed., tveir dagar til Þorláksmessu. Þetta er boðskapurinn. Hann er þægur, hlýtur að vera, fyrir það fólk sem á honum á að lifa í framtíðinni.

Ég sagði í upphafi að menn hefðu vitað og vissu það raunar löngu fyrr en þetta frv. kom fram að um málið var bullandi ágreiningur. Þess vegna töldu formenn beggja sjútvn. rétt að þreifa fyrir sér með brtt. innan nefndanna beggja til að reyna að fá breiðari samstöðu um málið. Þær tillögur voru lagðar fram fyrst og fremst í ljósi þess að freista þess að fá þá samstöðu um fleiri þætti en líkur voru á þegar frv. var lagt fram.

Ég vil, herra forseti, fara aðeins yfir þessar tillögur til að undirstrika það kerfi sem við búum við og ætlum að auka við. Ef fram ná að ganga brtt. meiri hl. sjútvn. munu menn í auknum mæli sjá auglýsingar í blöðum sem þessa. Hér stendur: Til sölu þorskkvóti, 80 tonna. Upplýsingar í síma o.s.frv. Það er þetta kerfi sem menn vilja auka og festa í sessi, láta tiltekna einstaklinga eiga fiskinn í sjónum og geta þannig braskað með hann. Kannski eru þeir sem voru andvígir þessari stefnu að uppgötva núna að það er kannski einstaklingsframtakið. Það á tiltekinn þröngur hópur að eiga þetta og hann á að geta deilt og drottnað yfir því. Hann á að geta skammtað hinum.

Eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vék að flytja þeir meirihlutamenn í sjútvn. Ed. brtt. Í frv. hæstv. ríkisstjórnar er gert ráð fyrir að sérstakt aukagjald sé lagt á gámaútflutning umfram það gjald sem er á útflutningi með öðrum hætti. Þeir fjórmenningar leggja til að þetta gjald sé fellt niður. Ég lýsi samstöðu við það. Það var ein af þeim tillögum sem formenn sjútvn. beggja deilda lögðu til að yrði gerð og þess vegna flyt ég ekki brtt. um þann þátt málsins. Annað leggja þeir til og það þykir mér með eindæmum og þá á ég auðvitað við Sjálfstfl. Það þarf nánast ekkert að tala um hinn flokkinn því það er einn sem ræður ferðinni í Framsfl. í þessu máli og það er hæstv. sjútvrh. Þar þarf engan að spyrja. Það er í hæsta máta að hann spyrji þá hinn sem er hjá íhaldinu. En það sem kemur mér afskaplega mikið á óvart er þetta: Þingflokkur Sjálfstfl. lét þau boð út ganga áður en frv. var lagt fram að hann hefði sérstakan fyrirvara um gildistöku laganna og hann miðar við tvö ár. Það tók ekki langan tíma hjá hæstv. ráðherra að þagga niður í þessum piltum. (JE: Það er létt.) Það virðist vera létt, segir hv. þm. Jóhann Einvarðsson úr Reykjanesi. Það virðist hafa verið afskaplega létt fyrir hæstv. sjútvrh. að þagga niður í þingliði íhaldsins á Alþingi til að fá þá til að falla frá þessum fyrirvörum og bleyta þriggja ára tímabilið að vísu vonandi með einhverjum undantekningum. Einstakir þm. kunna að hafa sjálfstæða skoðun enn þar innan dyra. (Gripið fram í.) Er það rétt hjá mér? Það kemur í ljós. (HBl: Einhver verður nú að reyna að samræma sjónarmiðin úr því að formanni nefndarinnar fórst það svo illa úr hendi.) Ég hef afskaplega mikla ánægju af því að tala við hv. þm. Halldór Blöndal svona beint yfir borðið. Ég mótmæli því að formanni nefndarinnar hafi tekist illa í sínu starfi og ég á ekki von á því að mér verði borið það á brýn. (GHG: En varaformaður?) Ekki heldur nema að því leytinu til að hann er allt annarrar skoðunar núna en hann var fyrir fjórum árum. Ef mönnum þykir að sjónarmið hafi breyst svo gífurlega úr svörtu í hvítt á þessum tíma eiga menn auðvitað að skipta um skoðun og af því eru menn meiri. En hitt er svo annað mál að ég dreg í efa að það sé sannfæringin sem býr á bak við þessa skoðun. Hv. þm. hefur verið píndur og plagaður til þessarar skoðunar. Hann vildi hafa allt aðrar skoðanir í nefndinni í Ed., vildi ná miklu meira fram til leiðréttingar en raunin varð á. Þar hefur verið lagst á hv. þm. Ég var að vona að hann stæði það af sér, en það hefur ekki dugað.

Síðan kemur brtt. meiri hl. sjútvn. sem víkur að smábátunum. Ég segi enn: Ég sé ekki enn hvernig sú breyting kann að koma út í reynd. Hvað þýðir þessi breyting fyrir smábátana frá því sem nú er? Mér er það ekki ljóst. Ég hygg að reglugerðin muni segja mest um það og menn vita hverjir setja hana. Það er sá sem öllu hefur ráðið síðan kvótinn var á settur, einn og hinn sami. Hæstv. sjútvrh.

Síðan er enn eitt ákvæðið í brtt. meiri hl. Það er að koma bakdyramegin að þeim sem búið hafa við norðursvæðislínuna, koma bakdyramegin að þeim, auka á suðursvæðinu bæði karfa og þorsk og þá í samhengi við það sem varaformaður sjútvn. Ed. segir: Karfastofninn er veikur en þá á að veiða meira úr honum, þorskstofninn er veikur en það á líka að veiða meira úr honum. Þetta eru rökin. Finnst mönnum það virkilega, ég spyr þá sem búa við norðursvæðislínuna, að hér sé farið þannig að að menn geti samþykkt svona mál? Finnast mönnum þetta eðlileg og venjuleg vinnubrögð í máli sem þessu? Þetta hefur hæstv. sjútvrh. höndlað með eins og annað. Hann hefur höndlað með þetta í jólakauptíðinni. Þetta er alveg furðulegt að mínu viti. Þessu eiga menn að mótmæla harðlega, vinnubrögðum af þessu tagi.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að segja meira um brtt. Það væri hægt að segja meira um málið sem heild, en ég skal ekki, forseti, lengja öllu meira mitt mál hér. Ég verð þó eigi að síður að fara enn nokkrum orðum um þær brtt. sem ég stend að að flytja.

Í fyrsta lagi er það brtt. við 4. gr. frv. Þar er um að ræða breytingu í þá veru að bæta við veiðiheimildum frá stjórnvöldum fyrir skip sem hafa fengið heimild til erlendrar lántöku og fjármögnuð eru þannig. Um þetta hefur verið deila og er enn. Hér er um að ræða skip sem ekki hafa verið endurnýjuð, þurfa að komast í gagnið aftur. Af sumum svæðum hafa dottið út skip úr loðnunni, t.d. eitt á Vestfjörðum, það eina sem var á loðnuveiðum en hefur ekki verið endurnýjað. Ég hlýt að spyrja: Er það eitthvert lögmál að Vestfirðingar megi ekki eignast loðnuskip en allir aðrir landshlutar geta átt slíkt?

Í öðru lagi flyt ég brtt. að því er varðar smábátana undir 10 tonn að stærð. Þar legg ég til að ákvæði frá gildandi lögum verði óbreytt. Ég tel að það sé ekkert sem knýr á um að herða tökin að smábátum eins og menn vilja gera bæði í frv. og mér sýnist að menn séu einnig að gera í brtt. meiri hl.

Ég flyt einnig till. að því er varðar rækjuna. Mönnum sýnist að það sé mikið vandamál að skipta rækju til helminga á skip og vinnslu. Þannig er ástand við Ísafjarðardjúp, þar sem upphaf rækjuveiða átti sér stað, að þannig hefur verið haldið á málum í fiskveiðistefnunni að vinnslufyrirtækin hafa ekki fengið að eignast skip, en síðan hefur hæstv. ráðherra tínt upp úr poka sínum tugi vinnsluleyfa annars staðar á landinu þannig að vinnslustöðvum hefur fjölgað gífurlega á sama tíma og þeim sem upphófu rækjuveiðina á sínum tíma hefur verið neitað um að eignast skip til að afla fyrir verksmiðjurnar á því svæði. Ef þetta yrði gert eins og frv. gerir ráð fyrir yrði það líklega eitt skip við Ísafjarðardjúp sem fengi heimild til rækjuveiða. Þetta hlýtur að vera liður í því að efla byggðastefnuna. Trúlega er það liður í því að efla byggðastefnuna ef menn ætla að halda svona á máli.

Ég flyt einnig till. um að menn reyni að feta sig út úr gildandi kvótakerfi eins og það er og reyni að finna farveg. A.m.k. til að byrja með: Ef skip hverfur frá veiðum í tilteknu byggðarlagi, sem raskar verulega stöðu þess byggðarlags, sé ráðherra gefin heimild til að færa veiðileyfi slíks skips yfir á önnur skip í byggðarlaginu. Menn hafa trúlega fylgst með því hvað kvótinn hefur gert af sér í uppsprengdu skipaverði eins og það hefur gerst undangengin ár.

Og meira en það. Menn hafa nánast getað gert út á kvótann einan og sér án þess að hafa nokkurt skip. Menn bara gera út á kvótann. Þeir eiga hann í sjónum og gera út á hann þó að þeir eigi ekkert skip. Þetta er skynsamleg stefna hjá veiðimannaþjóðfélagi eða hitt þó heldur.

Ég geri líka brtt. við 15. gr. frv. um hina svokölluðu samráðsnefnd. Þar er gert ráð fyrir að fjölga í þeirri samráðsnefnd. Ég er þeirrar skoðunar að það sé um tómt mál að tala að halda því áfram að ráðherra einn geti sagt til um hverjir eigi að vera í samráðsnefnd, en það hefur hann gert til þessa. Ég legg til að það verði kosnir þrír af Alþingi í slíka samráðsnefnd og að síðan komi til fulltrúar hagsmunaaðilanna, sjómanna og útvegsmanna. Þessi nefnd á að gera tillögur um lausn þeirra vandamála sem upp koma og takist henni það ekki á ráðherra að úrskurða. En í öllum tilfellum til þessa hefur ráðherra einn ákvarðað í þessum efnum. Eins og frv. er getur ráðherra nánast kallað hvaða mann sem er til sín sem hagsmunaaðila því auðvitað er þetta hagsmunamál allra Íslendinga. Það er ekkert minna en það. Þetta er hagsmunamál allra Íslendinga og ráðherra hefur núna heimild til að kalla til sín hagsmunaaðila málsins og síðan ræður hann. Þetta er afar slæmt. Þessu verður að breyta. Það gengur ekki lengur að hæstv. ráðherra sé einráður í þessum efnum. Nóg er nú samt.

Síðan kem ég að a.m.k. einni af mikilvægustu brtt. sem ég flyt, en það er ákvæði til bráðabirgða. Það væri afskaplega gott ef einhver úr ráðherra genginu vildi hlýða á að því er varðar þennan þátt málsins. Í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar stendur, með leyfi forseta, undir Sjávarútvegur og nú bið ég menn að hlusta:

„Fiskveiðistefnan verði tekin til endurskoðunar og stefna mörkuð sem taki gildi þegar í upphafi næsta árs. Endurskoðunin verður falin sérstakri nefnd sem hafi samráð við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði, svo sem fulltrúa útgerðar, fiskvinnslu, sjómanna og fiskvinnslufólks og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar.“

Þarna vil ég skjóta inn í. A.m.k. þingflokkur Alþfl. gerði ráð fyrir því og fullyrðir að það ætti að skipa sérstaka nefnd stjórnarflokkanna til að gera úttekt á þessu máli og tillögur. Það varð nánast að draga slíka skipun út úr hæstv. sjútvrh. Sú nefnd var að vísu skipuð seint og um síðir en skilaði engu af sér. Þetta er aðeins innskot að því er þennan þátt varðar, en síðan heldur áfram:

„Nefndin mun m.a. taka afstöðu til eftirfarandi atriða:

1. Hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar. M.a. verði athugað hvort veiðiheimildir verði einvörðungu bundnar við skip.“

Hvað segir þetta okkur í stjórnarsáttmálanum sjálfum? Eru menn ekki að ýja að því að það eigi að breyta frá því sem er, að veita ekki veiðiheimildir eingöngu út á skip? Ekki er frv. þannig.

„2. Hvernig taka megi meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi.“ Taki menn nú eftir. Ég ætla að lesa þessa setningu aftur þannig að menn átti sig á því: „Hvernig taka megi meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi.“ Sýnist mönnum frv. vera með þessum hætti? Ekki aldeilis. Það gengur þvert á þetta. Ég skil ekkert í þeim sem voru fullir af eldmóði í stuðningi við þennan þátt stjórnarsáttmálans ef þeir ætla að láta þetta yfir sig ganga.

„3. Hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda milli aðila.

4. Hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda.“

Þetta eru þeir meginþættir sem stjórnarsáttmálinn gerði ráð fyrir að yrðu framkvæmdir við endurskoðun laganna um fiskveiðiheimildir. En frv. og tillögur meiri hl. sjútvn. Ed. ganga þvert á þetta allt saman, gersamlega þvert á þetta.

Ég legg hins vegar til að það komi inn í lögin ákvæði til bráðabirgða sem hljóði svo:

„Alþingi kýs hlutfallskosningu nefnd níu manna til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og nýtingu fiskistofna að loknum gildistíma laga þessara. Að ári liðnu skal nefndin leggja fyrir Alþingi bráðabirgðaálit á fiskveiðistefnunni ásamt tillögum um breytingar á lögum þessum telji hún það nauðsynlegt. Nefndin skal kanna eftirfarandi:"

Og þarna kemur einmitt að þeim þáttum sem stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir.

„1. Áhrif laga þessara á afkomu einstakra byggðarlaga, byggðaþróun í landinu og sjávarútveg.

2. Áhrif gildandi stjórnar á fiskstofnana, afrakstur þeirra og hagkvæmni veiða.

Í starfi sínu skal nefndin kynna sér rækilega hvaða áhrif fiskveiðistefna undanfarinna ára hefur haft á byggðarlög, fiskstofna og sjávarútveg. Nefndin skal kynna sér eftir því sem föng eru reynslu annarra þjóða af fiskveiðistjórn þeirra. Hún skal leita álits og ráðgjafar hjá þeim sérfræðingum, stofnunum og hagsmunaaðilum innan lands sem utan sem hún telur þörf á þannig að starf hennar skili sem bestum árangri við mótun sveigjanlegrar fiskveiðistefnu til framtíðar.“

Með þessari till. er verið að útfæra þann kafla stjórnarsáttmálans sem fjallar um fiskveiðar. Og ég spyr: Ætla stjórnarsinnarnir, sem kallaðir eru svo, að standa gegn því að víkka út þetta, að auka þátttöku byggðarlaganna, auka frelsið fyrir unga menn til að koma inn í greinina og byggja hana þannig upp? Ætla menn að greiða atkvæði gegn slíku? (SvG: Fella stjórnarsáttmálann.) Já, fella hluta stjórnarsáttmálans. Rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, enda glöggur maður mjög.

Hér er beinlínis lagt til að standa við þennan þátt stjórnarsáttmálans. Ég á eftir að sjá framan í hv. þm. stjórnarliðsins ef þeir greiða atkvæði gegn þessu eða fella. Hvað gerist þá? (SvG: Þá kemur önnur stjórn. )

Þetta fer að styttast, herra forseti. Ég fer að ljúka mér af í bili. Síðan kemur í áttunda lagi ákvæði til bráðabirgða II og það orðist svo:

„Skip sem koma í stað eftirtalinna skipa, er fórust á árunum 1983 og 1984, skulu eiga rétt á veiðileyfi sem sé meðaltal aflamarks skipa í sama stærðarflokki.“

Síðan eru skipin talin upp. Það er Brimnes SH- 257, Haförn SH-122, Hafrún ÍS-400, Bakkavík ÁR-100, Ragnar Ben ÍS- 210, Kári VE- 95, Þórunn ÞH- 255, Hellisey VE- 503, Sæbjörg VE- 56, Sóley SK- 8.

Þessi upptalning á nöfnum skipa er gerð vegna þess að sjútvrn. er að rugla allt þetta mál vísvitandi. Það er komið með stóra tölu úreldingarskipa sem það leggur til jafns við það ef skip ferst og ætlar þannig að rugla menn í ríminu að því er þetta varðar. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því hvort þetta er leiðarvísirinn að stjórnarsáttmálanum í fiskveiðum, að gera mönnum kleift að koma nýir inn í, ég tala nú ekki um þá sem eru fyrir, átt skip sem hafa farist en komast ekki inn í. Eða hvað eru menn að tala um í þessum efnum? Hvað ætla menn að fara? Kannski hæstv. sjútvrh. finnist að hér gangi menn allt of langt í þessum efnum, frelsið sé orðið allt of mikið þarna, það dugi ekki slíkt frelsi á Íslandi. Ég held samt að þetta sé nauðsynlegt og hjá þessu verði ekki komist.

Í síðasta lagi er hér till. um að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða III er orðist svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skal Sigga Sveins, ÍS- 29, skipaskrárnúmer 1846, úthlutað veiðileyfi er miðist við veiði á úthafsrækju.“

Þetta nýja skip hefur legið bundið við bryggju vestur á fjörðum í líklega þrjá mánuði a.m.k. og ráðherra alltaf neitað, m.a.s. neitað því að þetta skip fengi að veiða afla annars skips sem er í endurnýjun í sex mánuði og er ekkert að veiðum. Slík er nú sanngirnin í framkvæmdinni. Ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma smíði þessa skips og svo ætla menn að halda svona á, bara byggja það til að láta það liggja við bryggju. Það er skynsamleg fjárfesting eða hitt þó heldur.

Það hefur gengið maður undir mann til að reyna að fá hæstv. sjútvrh. til að taka sönsum í þessu máli, m.a.s. framsóknarmenn líka og er þá kannski langt gengið. Þeir hafa gengið maður undir mann til að reyna að breyta viðhorfum hæstv. ráðherra en ekkert gerst. (Gripið fram í: En sálfræðingarnir?) Nei, þetta á að vera svona. (SvG: Það ætti eiginlega að vera betra.) Nei, þetta er mál sem ekki gengur upp, hv. þm. Egill Jónsson. Þetta er þröngsýni sem er alveg óverjandi. Menn sölsa undir sig nánast einhliða völdin og haga sér svo með þessum hætti þegar á reynir.

Og ég spyr enn. Fyrst og fremst ætti ég kannski að spyrja mína flokksbræður ágæta, ráðherra Alþfl.: Ætla þeir að láta þetta allt yfir sig ganga? (EgJ: Þeir eru búnir að því.) Það er rangt, hv. þm. Egill Jónsson. Það er ekki búið að greiða atkvæði um eitt eða neitt hér. Atkvæðisréttinn hafa menn hér enn það ég best veit innan dyra. Það er ástæða til að spyrja þessa ágætu hæstv. ráðherra hvort menn ætli að láta þetta ganga yfir sig þvert á það sem stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir og kollsigla öllum þeim loforðum sem gefin voru fyrir kosningar. Kannski verður það svo. En á því verða aðrir að bera ábyrgð en ég.

Í síðasta lagi er rétt að taka fram, það gerði ég raunar við 1. umr. þessa máls, að ég legg til að verði þessar brtt. mínar samþykktar verði gildistími laganna í tvö ár. Ég verð að viðurkenna að ég átti eiginlega fullkomlega von á því að þingflokkur Sjálfstfl. fylgdi því. Ég verð að viðurkenna það. En ég er líklega svo heimskur í pólitík að láta mér detta í hug að menn meini það sem þeir segja. Það virðist ekki eiga að hvarfla að neinum að hinir svokölluðu ábyrgu stjórnmálamenn meini eitthvað af því sem þeir segja.

Ég hef enn þá von um að fjötrar hæstv. sjútvrh. séu ekki svo sterkir að hann haldi öllu íhaldsliðinu saman á Alþingi til að teygja það í þá átt sem hann nú gerir tilraun til. Ég viðurkenni að vísu að einn af þeim hv. þm. sem ég var að vona að héldu sönsum í þessum efnum hefur horfið frá því. Þar á ég við hv. þm. Guðmund H. Garðarsson. Hann hefur horfið frá því í bili að halda sönsum í þessu máli. Ég vona eigi að síður enn að innan þeirra veggja séu menn sem vilja hafa einhverjar hömlur á þessu SÍS-stýri í fiskveiðum við Ísland. (GHG: Þá vakna ég.) Já, þú hefðir betur vaknað fyrr, hv. þm. Það hefði verið ástæða til.

Hér er verið að fela hæstv. sjútvrh., einum af toppunum í SÍS-veldinu, eitthvert mesta vald sem einum einstaklingi hefur verið falið á Íslandi, stórkostlega aukið vald frá því sem verið hefur í kvótamálum. Og ætlar íhaldið að leggjast svo lágt að grípa þarna heils hugar um, fylgja sem hundar í bandi? Er það virkilega orðið svo að forsvarsmenn einkaframtaksins, sem þannig hafa „presenterað“ sig á Alþingi og utan þess, ætli að ganga þessa leið í bandi hæstv. sjútvrh.? Ég vona að svo verði ekki. Ég vænti þess fastlega að menn sjái a.m.k. að einhverju leyti að sér og hneppi ekki landsbyggðarfólk í áframhaldandi og enn verri fjötra en það hefur verið í undir þeirri fiskveiðistjórn sem gilt hefur. En verði það svo að íhaldið láti teyma sig í bandi framsóknar til þessara hluta hygg ég að almenningur í landinu verði búinn að fá nóg og komi til með að segja sitt á réttum stað og réttum tíma.

Ég vænti þess að menn láti ekki fara þannig með sig, menn reyni, a.m.k. geri tilraun þó ekki væri annað til að standa við gefin fyrirheit, gefin loforð sem menn gáfu þjóðinni fyrir síðustu alþingiskosningar. Frv. sjútvrh. eða hæstv. ríkisstjórnar og brtt. meiri hl. Ed. sjútvn. ganga ekki í þá veru. Frv. og brtt. ganga þvert á stjórnarsáttmála sem hæstv. ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar gaf út á sínum tíma og menn lofuðu og prísuðu að því er varðaði sjávarútveg. Þeir sem ætla að halda áfram að prísa þann stjórnarsáttmála verða að breyta um skoðun samkvæmt því sem meiri hl. sjútvn. leggur til. Það er klárt.

Ég vona að augu manna opnist í þessum efnum. Ég á kannski ekki von á því að þau opnist upp á gátt, en vonandi rifar í þau þannig að menn geti séð meira af raunveruleikanum en þeir hafa séð til þessa.